10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

212. mál, virðisaukaskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. fjmrh. á þá leið að þrír stjórnmálaflokkar hafi lýst yfir stuðningi við tillögur um virðisaukaskatt vil ég taka það fram strax í upphafi máls míns að þingflokkur Alþfl. styður ekki þetta frv. Ég hef líka ástæðu til að ætla að því fari fjarri að stuðningur við þetta frv. sé víðtækur innan raða stjórnarflokkanna. Þannig hef ég t.d. ástæðu til að ætla að þeir þm. séu allnokkrir í þingflokki Framsfl. sem geta ekki sætt sig við mörg veigamikil ákvæði í þessu frv. og ég hef reyndar efasemdir um það, þó að ekki séu þær rökstuddar, að það sé ekki einhugur um þessar hugmyndir í þingflokki Sjálfstfl. Í því efni vek ég sérstaklega athygli á því að innan raða atvinnurekenda, einkum þeirra sem eru í forsvari fyrir minni þjónustufyrirtækjum, er verulegur uggur um það hvaða áhrif þetta frv., ef til framkvæmda kæmi, hefði á þær atvinnugreinar.

Þetta segi ég strax til þess að taka af allan vafa um afstöðu okkar þingflokks vegna þess að hitt er rétt, að við erum opnir til viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um það að taka upp virðisaukaskatt sem slíkan, sem hefur út af fyrir sig nokkra kosti umfram það söluskattskerfi sem við höfum þekkt á undanförnum árum, en þá því aðeins að sú löggjöf fullnægi mjög ströngum skilyrðum. Úr því sem komið er teljum við eðlilegast að endurskoðun skattakerfisins, sem auðvitað er löngu tímabær, verði tekin upp í heild sinni á vegum nýrrar ríkisstjórnar. Alla vega sýnist mér auðsætt að úr því sem komið er verði það ekki á valdi þessa þings að ná þeirri æskilegu samstöðu um þessa heildarendurskoðun sem út af fyrir sig er ef ekki forsenda þá a.m.k. veigamikill þáttur í því að taka upp svo róttækar breytingar á skattalöggjöfinni í heild.

Í því efni bendi ég sérstaklega á að það eru augljós rök fyrir því að endurskoða saman lög um tekju- og eignarskatt og um virðisaukaskatt. Vegna þess að það mun ráða allnokkru um það hversu langt við viljum ganga í að aflétta tekjuskatti af launum, hvort ríkisvaldið bætir sér upp tekjumissi sinn við það, með því að halda í allt of háa söluskatts- eða virðisaukaprósentu eða ekki. M.ö.o.: Ef ríkisvaldið við upptöku virðisaukaskatts vill leiða í lög ákveðnar aðgerðir til tekjujöfnunar, sem óhjákvæmilegt virðist að gera, hefur það mikil áhrif á það í hvaða átt tekjuskattsbreytingin verður. Aflétting tekjuskatts af launum með því að hækka skattfrelsismörk í tekjuskatti mjög verulega er auðvitað partur af þeirri tekjujöfnun sem ella þyrfti að grípa til við upptöku virðisaukaskatts. Þess vegna er erfitt að taka afstöðu til annars þáttarins eins út af fyrir sig.

Ef spurt er hvers vegna Alþfl. er andvígur þessu frv. er rétt að tíunda þau rök í stuttu máli:

Í fyrsta lagi: Prósentuálagningin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er allt of há. Það eitt út af fyrir sig veldur því að frv. er með öllu óaðgengilegt. Þessi háa prósenta hefur verðhækkunaráhrif sem leiða til hliðarráðstafana og það er önnur meginröksemdin: Þær hliðarráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að grípa til, þar sem aðalatriðið er meiri háttar niðurgreiðslur á hefðbundnum landbúnaðarafurðum, eru með öllu óaðgengilegar fyrir þingflokk Alþfl. Við munum undir engum kringumstæðum fallast á þær.

Lítum aðeins nánar á fyrstu röksemdina, að skattprósentan sé allt of há, 24%. Rökin fyrir því að hverfa frá núverandi söluskattskerfi eru mörg. Menn segja í fyrsta lagi: Söluskattskerfið er ónýtt vegna þess hve undanþágum hefur verið fjölgað óhóflega á undangengnum árum. Þar af leiðandi er eftirlit allt í molum. Og menn eru yfirleitt á einu máli um það að söluskattsundandráttur sé mjög verulegur. En einmitt vegna þess, hve undanþágusviðið er vítt, hefur skattprósentan sjálf farið síhækkandi og er nú 25%.

Ef ætlunin er að reyna að ná einhverju samkomulagi um upptöku virðisaukaskatts verður ein meginforsendan að vera sú, þegar menn taka upp virðisaukaskatt og eru þar með að útrýma undanþágum og víkka út skattskyldusviðið, að skattálagningarprósentan lækki mjög verulega. Ef ríkisvaldið ætlar sér að taka af heildarneyslu sömu tekjur og áður voru í söluskattskerfinu segir það sig sjálft að við upptöku virðisaukaskatts eða undanþágulauss söluskatts mundi verðlag á þeim vörum, sem áður voru undanþegnar skatti, hækka. En þá verður verðlag á þeim vörum, sem áður báru hina háu álagningarprósentu, að lækka að sama skapi. Niðurstaðan er því sú að ef ríkisvaldið ætlar sér ekki að auka heildarskattheimtu af þessu tilefni ættu heildarverðhækkunaráhrifin að vera raunverulega á núlli.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að þurfa að taka 20,9% í virðisaukaskatti, þrátt fyrir víkkun skattsviðsins og afnám undanþága, til þess að halda óbreyttum tekjum. Og því næst er gert ráð fyrir því að auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega, á þriðja milljarð, með því að halda prósentunni uppi í 24% og þessum hálfum þriðja milljarði á síðan að verja til niðurgreiðslna og annarra tekjujafnandi aðgerða.

Ef ekki er hægt að ná betri árangri en þetta við upptöku virðisaukaskatts spyr maður sjálfan sig: Þrátt fyrir þær fræðilegu röksemdir, sem beita má virðisaukaskatti til stuðnings, umfram núverandi söluskattskerfi, duga þær ekki ef við vegum og metum saman annars vegar þær fræðilegu röksemdir um það að virðisaukaskattur á að vera hlutlaus gagnvart atvinnurekstri, virðisaukaskattur á að vera öruggari í innheimtu þrátt fyrir allt, þær duga ekki út af fyrir sig til þess að vega upp á móti þeim alvarlegu göllum sem í því felast að skattprósentan er svona há. Það eitt að skattprósenta á neysluskatta er svona há hvetur nefnilega mjög eindregið til skattundandráttar. Það er rétt, sem fram kemur aftarlega í grg. með þessum skatti, að menn mega undir engum kringumstæðum ýkja þau rök að virðisaukaskatturinn sé sjálfleiðréttandi í innheimtu. Það er hann ekki. Það verður mjög erfitt, ef menn ætla að taka þetta skattkerfi upp, að ætla að hverfa frá því innan skamms tíma, ef reynslan verður slæm.

Við leggjum þess vegna megináherslu á það að virðisaukaskattsprósentan, sem hér er lagt til að tekin verði upp, er allt of há. Við erum hér auðvitað að gera samanburð annars vegar á meingölluðu söluskattskerfi, með mörgum undanþágum, sem við þekkjum og hins vegar á þessu nýja kerfi. Og þá er sjálfgefið að upp vakni spurningin: Er þá kannske eftir allt saman betra að gera róttækar breytingar á óbreyttu söluskattskerfi, ef hægt er að ná þeim markmiðum að söluskattsprósentan verði miklum mun lægri fyrir vikið? Af þessu tilefni langar mig til þess að rifja upp fyrir hv. þm. eftirfarandi:

Í svörum þáv. hæstv. fjmrh. við fsp. mínum á Alþingi 6. nóv. 1984, þar sem spurt var um tekjuauka ríkissjóðs ef undanþágur frá söluskatti yrðu afnumdar og hversu mikið mætti lækka núverandi söluskattsálagningu miðað við að ríkissjóður héldi óbreyttum tekjum af söluskatti, komu fram eftirfarandi upplýsingar skv. þingtíðindum.

Ef miðað var við að allar vörur, aðrar en endursöluvörur, hráefni, útflutningsvörur og þjónusta, yrðu söluskattsskyldar mundu tekjur ríkissjóðs af söluskatti lauslega áætlað tvöfaldast. Brúttótekjuauki ríkissjóðs hefði skv. upplýsingum fjmrn. orðið nálægt 9 milljörðum kr. á haustverðlagi ársins 1985 miðað við forsendur fjárlagafrv. og miðað við það að ekkert af þessum tekjuauka rynni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ef gert var ráð fyrir að söluskattur legðist þannig á opinberar framkvæmdir og aðföng samneyslu, þ.e. á ríkisbúskapinn, kom á daginn að um það bil 10% af tekjuaukanum yrði aftur útgjaldaauki fyrir hið opinbera. En ef ríkisbúskapnum yrði í þessum skilningi sleppt, á þeirri forsendu að hann er inn og út, yrði nettótekjuauki við niðurfellingu stærstu undanþágugatanna í óbreyttu söluskattskerfi um 8 milljarðar kr. miðað við þáverandi verðlag. M.ö.o., almenna röksemdafærslan var sú að með því að taka upp undanþágulaust söluskattskerfi væri hægt að komast langleiðina í það að tvöfalda tekjur ríkissjóðs í óbreyttu kerfi, þ.e. í söluskattskerfi, ekki virðisaukaskattskerfi.

Enn fremur sagði í svörum fjmrn. við þessum spurningum og nú vitna ég til svarsins orðrétt:

„Ljóst er að niðurfelling á ýmsum núverandi undanþáguliðum, einkum á undanþágum einstakra vörutegunda, mun stórbæta möguleika til söluskattseftirlits.“ Ég endurtek: mun stórbæta möguleika til söluskattseftirlits. „Við afnám tekjuskatts á launatekjur liggur beint við að beina mannafla skattstofa í auknum mæli að söluskattseftirliti. Skilvirkari innheimta vegna einfaldara söluskattskerfis og herts eftirlits mun auka tekjur ríkissjóðs til viðbótar um 2-4 milljarða kr.“

Þetta vekur upp margar spurningar. Hvernig stendur á því, þegar gert er ráð fyrir því að taka upp skilvirkara kerfi, sem heitir virðisaukaskattur, að áhrif þessa, samkvæmt upplýsingum í grg. frv., eru ekki meiri en hér er talað um? Áhrifin af því að útrýma undanþágum og víkka út skattskyldusviðið, áhrifin af því að kerfið á að vera öruggara í innheimtu og áhrifin af því að eftirlit með innheimtu verður aukið - hvernig stendur á því að menn gera ekki ráð fyrir því, að það auki tekjur ríkissjóðs um meira en 400 millj. kr.?

Ég fyrir mína parta trúi því ósköp einfaldlega ekki. Fyrir liggja upplýsingar, varfærið mat í svokallaðri skattsvikaskýrslu hæstv. fjmrh., um skattundandrátt, bæði að því er varðar tekjuskatt og söluskatt. Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns var gert ráð fyrir því að söluskattsundandráttur væri um 1,3 milljarðar kr. ef ég man rétt. Ég trúi því ósköp einfaldlega ekki að þessar aðgerðir, útvíkkun söluskattssviðsins, afnám undanþága, bætt innheimta og hert eftirlit, leiði ekki til meiri tekjuauka fyrir ríkissjóð í virðisaukaskattskerfi en hér er gert ráð fyrir. Af hverju segi ég þetta? Með vísan til þeirra upplýsinga sem fjmrn. hefur áður lagt fram sem svar við fsp. mínum um tekjuauka ríkissjóðs við afnám á undanþágum í óbreyttu kerfi eru þær rök fyrir því, að unnt sé að lækka álagningarprósentuna í virðisaukaskattskerfi til mikilla muna meira en hér er gert ráð fyrir. Og það er mjög þýðingarmikið atriði, það er beinlínis lykilatriði. Það nær ekki nokkurri átt, ef við ætlum að gera samtímis breytingar á tekjuskattskerfi og neysluskattakerfinu, að ganga út frá því til frambúðar að við búum við neysluskattastig á bilinu 20-30%. Við erum hér að tala um hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi.

Ég segi það hreint út að ég vil ekki kaupa fræðilega kosti virðisaukaskatts umfram óbreytt kerfi þessu verði. Ég vil það ekki. Við erum ekki til viðræðu um að taka upp virðisaukaskatt, sem er svona hrikalega hár. Og við vefengjum röksemdir fjmrn. fyrir því að nauðsynlegt sé að halda virðisaukaskattinum í 20-21% til þess að halda óbreyttum tekjum. Við gagnrýnum það að þegar hér er lagt fram frv. af þessu tagi, sem snertir alla einstaklinga í landinu, alla neytendur og alla forsvarsmenn fyrirtækja, skuli ekki vera lagðar fram meiri tölulegar upplýsingar, sem hægt er að meta. Menn eru beðnir að trúa þeim tölum, sem farið er með í grg., jafnvel þótt þær stangist á við aðrar upplýsingar, sem fram hafa komið frá ráðuneytinu.

Önnur meginröksemd okkar gegn þessu frv. er sú, að við teljum að það byggi á vanmati á þeim tekjuauka sem ríkissjóður getur ætlað sér við afnám á undanþágum og útvíkkun á skattsviði og hertu eftirliti.

Þriðja meginröksemdin er sú, og leiðir af hinu sem þegar er sagt, að verðhækkunaráhrif af þessari háu prósentu eru of mikil. Jafnframt er það mjög gagnrýnisvert að ekki skuli fylgja nánari úttekt, á tölulegum grundvelli, um hvaða áhrif upptaka virðisaukaskattsins hefði á þær atvinnugreinar sem hafa verið undanþegnar söluskatti. Þau áhrif geta komið fram í mjög mismunandi miklum mæli og það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að skoða það, atvinnugrein fyrir atvinnugrein.

Það er talað um að virðisaukaskatturinn eigi ekki að leggjast á ferðamannaþjónustu. En hvað með t.d. þann þátt ferðamannaiðnaðarins sem heitir hótel- og veitingahúsarekstur, svo að nefnt sé dæmi? Eða þær spurningar, sem fram komu í máli seinasta ræðumanns, um afleiðingar þess arna á byggingariðnaðinn, byggingarkostnað? Er svo að skilja að endurgreiðslan eigi að ná til þeirra einna sem standa fyrir nýbyggingum? Hvaða áhrif hefur upptaka þessa kerfis að öðru leyti á byggingariðnað og þjónustu, svo sem eins og endurbætur og viðhald? Hvaða áhrif hefur fjárbindingin, sem trúlega verður aukin í þessu kerfi á þeim greinum sem nú verða virðisaukaskattsskyldar en báru ekki söluskatt áður?

Það er gagnrýnisvert að upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir. M.ö.o., vinnubrögðin til undirbúnings þessu frv. og upplýsingarnar sem fylgja því eru fjarri því að vera fullnægjandi. Það þýðir að þetta frv. hlýtur að verða lengi í vinnslu þingsins. Það þýðir að þingnefndir, sem fá málið til umfjöllunar, hljóta að gera kröfu til að mikill fjöldi forsvarsmanna fyrirtækja verði kallaður til viðræðna við þingnefndir eða leitað verði eftir upplýsingum frá þeim. Þegar af þeirri ástæðu þykir mér líklegt að þetta mál hljóti að verða lengi í meðförum þingsins. Þar af leiðandi er ólíklegt, eins og allt er í pottinn búið, að það geti náðst pólitískt samkomulag milli þingflokka um þær lágmarksbreytingar, sem gera þarf á frv., til þess að það verði afgreitt endanlega á þeim tíma sem eftir lifir þessa þinghalds.

Þá er loks að nefna hliðarráðstafanirnar eins og þær eru hér boðaðar. Þessar hliðarráðstafanir byggja á þeirri forsendu að ríkissjóður ætli sér að taka allt í allt 2650 millj. kr. í formi virðisaukaskatts umfram það sem söluskattskerfið hefur skilað ríkissjóði áður og verja til verðlækkunaráhrifa. Í fyrsta lagi með því að verja tæpum milljarði til niðurgreiðslna á hefðbundnum búvörum. Þar með er fokin sú röksemd að virðisaukaskatturinn eigi að vera hlutlaus gagnvart atvinnufyrirtækjum og atvinnuvegum í landinu. Vegna þess að með hliðarráðstöfunum er verið að verja fé til neyslustýringar, til þess að hafa beinlínis áhrif á neysluval, og þar af leiðandi innkaup og markaðsstöðu fyrirtækja. Það er verið að mismuna atvinnuvegum, og er auðvitað megingalli. Um þetta er einfaldlega það að segja að þingflokkur Alþfl. mun undir engum kringumstæðum fallast á þessa aðferð.

Í annan stað er gert ráð fyrir því að tollakerfið verði einfaldað og lækkað og vörugjöld verði felld niður. Það er út af fyrir sig góð ráðstöfun og réttmæt og kemur t.d. til álita, að því er varðar áhrif virðisaukaskatts á byggingariðnaðinn, hvort ekki er hægt að ganga mun lengra í þá átt fremur en að taka upp þá tillögu sem hér er gert ráð fyrir, sem er endurgreiðsla vegna húsnæðisliðarins, hugsuð sem endurgreiðsla á fermetra íbúðarhúsnæðis upp að tilteknu hámarki. Samkvæmt okkar upplýsingum hefur sú aðferð, þar sem hún hefur verið reynd, gefist illa. Virðist þá vera nærtækara bæði í þessu tilviki og almennt að ganga lengra í lækkun tolla á ýmsum hátolluðum vörum, þar á meðal t.d. hátolluðum byggingarvörum, svo sem eins og baðherbergisáhöldum, eldhúsbúnaði og fleira af því tagi.

Röksemdir okkar fyrir því að við getum ekki fallist á þetta frv. eru því þessar upp að telja:

1. Vegna þess að skattprósentan er allt of há.

2. Vegna þess að við tökum ekki trúanlegan talnagrundvöll frv. um það að ekki sé unnt með bættri innheimtu og niðurfellingu á undanþágum að tryggja ríkissjóði þegar af þeirri ástæðu meiri tekjur, þannig að unnt sé að lækka prósentuna og um leið draga úr verðhækkunaráhrifum.

3. Vegna þess að við teljum mikið vanta á að við höfum í höndunum nægilegar upplýsingar um áhrif virðisaukaskattsins á þau fyrirtæki, einkum smærri fyrirtæki í þjónustugreinum, sem nú verða skattlögð í virðisaukaskattskerfi en voru það ekki í söluskattskerfi. Okkur skortir beinlínis sérstakar úttektir á atvinnugreinum og stöðu fyrirtækja, áhrifum skattsins á samkeppnisstöðu og afkomu.

4. Vegna þess að hliðarráðstafanirnar eru af því tagi að við getum ekki fellt okkur við þær. Heildarniðurstaðan er sú, úr því sem komið er, að það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar að taka skattakerfið í heild til allsherjarendurskoðunar. Fyrst og fremst með þeim rökum að það hefur áhrif hvað á annað, hvað gert er í endurskoðun á tekjuskattskerfinu, og hvað gert er í endurskoðun á söluskattskerfinu. Það er raunverulega ógerningur, út frá málefnalegum rökum, að taka endanlega afstöðu til annars, án þess að hitt sé þekkt stærð.

Að því er varðar hliðarráðstafanir vil ég bæta því við að það er augljóst mál, hvort heldur við tökum upp virðisaukaskatt eða undanþágulítinn almennan söluskatt, að þá er óhjákvæmilegt að grípa til hliðarráðstafana. Ef við stöldrum við fyrri hugmyndina, undanþágulítinn söluskatt, þá er það augljóst mál að jafnvel þótt söluskattsprósentan yrði mjög lág, þá yrðu verðhækkunaráhrif á þeim vörum og þeirri þjónustu, sem áður var undanþegin söluskatti. Þetta þarf auðvitað að bæta almenningi upp, neytendum, og þá ekki hvað síst barnafjölskyldum, með öðrum hætti. Um það gildir sú almenna skoðun okkar að þá á að beita skattakerfinu í heild sinni til tekjujöfnunar; ekki með því að veita sífellt fleiri og fleiri undanþágur eða frádrætti, og eyðileggja þar með skilvirkni kerfisins, heldur með því að verja hluta af skatttekjunum til útgreiðslu til þeirra hópa sem þyngstar byrðar bera og þurfa mest á tekjujöfnunaraðgerðum að halda: Til þess að draga saman þessar niðurstöður.

Við þurfum í báðum tilvikum að beita tekjujafnandi aðgerðum. Þær þurfa hins vegar að fullnægja því skilyrði, að þær eiga ekki að þjóna undir sérhagsmuni. Þær eiga ekki að vera sértækar. Þær eiga að byggjast á útgreiðslu á mjög rausnarlegum barnabótum til barnafjölskyldna og verulegri hækkun á bótagreiðslum almannatrygginga, einkum og sér í lagi til ellilífeyrisþega. En þær eiga ekki að vera í því formi að skekkja neysluval og stýra fjármagni þannig milli atvinnugreina. Enda væri það beinlínis í hrópandi mótsögn við meginrökin fyrir upptöku virðisaukaskatts, sem eru þau að hann á einmitt að bæta fyrir annmarka söluskattskerfisins, uppsöfnunaráhrifin, og það að hann er ekki hlutlaus, að því er varðar efnahagsleg áhrif milli atvinnugreina.

Herra forseti. Ég get látið máli mínu lokið að svo stöddu. Ég endurtek það að þingflokkur Alþfl. getur ekki sætt sig við þetta virðisaukaskattsfrumvarp. Til þess að við getum fallist á upptöku virðisaukaskatts þyrfti að gera á því svo róttækar breytingar að það má heita að það þyrfti að semja nýtt frv. - [Fundarhlé.]