11.12.1986
Sameinað þing: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

185. mál, kaupleiguíbúðir

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. beindi til mín nokkrum spurningum varðandi málið, sem hér er til umræðu, þegar það var tekið á dagskrá í síðustu viku. Svör við flestum spurningunum, sem hv. þm. bar fram, er að finna í sjálfri till., ýmist í tillgr. sjálfri eða í grg. með till.

Ég hygg að ítarlegri útfærða till. en þessa varðandi húsnæðismál sé sjaldgæft að finna í sölum Alþingis þegar um er að ræða þáltill. Í þessari till., sem hér er fram borin um kaupleiguíbúðir, eru mjög ítarlega útfærð ýmis framkvæmdaatriði sem snerta þetta mál. Vil ég benda á í því sambandi, þar sem fram hafa komið ýmsar fyrirspurnir frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um ýmis framkvæmdaatriði varðandi þessa till., að þm. Kvennalistans hafa lagt fram till. um byggingu leiguhúsnæðis en tillgr. þar er einungis tvær línur þar sem skorað er á ríkisstjórnina að beita sér þegar í stað fyrir átaki í byggingu leiguhúsnæðis og verði varið til þess 250 millj. kr. á núgildandi verðlagi á ári hverju þar til þörfinni hefur verið fullnægt. Meira er ekki sagt um þetta mál sem út af fyrir sig má segja að sé nokkuð viðamikið þar sem um er að ræða að gera stórátak í byggingu leiguhúsnæðis. Útfærslu á einstökum atriðum að því er það varðar eru þó ekki gerð betri skil í þessari till. en raun ber vitni.

Hv. þm. spurði að því hvort kaupleiguíbúðir ættu að verða til við hliðina á verkamannabústöðum eða hvort þær ættu að koma í staðinn fyrir þær. Í þessu sambandi vil ég nefna að kaupleiguíbúðir hafa ýmsa kosti fram yfir íbúðir í verkamannabústaðakerfinu.

Ég nefni þar til að mynda að í kaupleigukerfinu hefur fólk val um leigu eða kaup og í kaupleigukerfinu er ekki um að ræða neina útborgun sem aftur á móti er í verkamannabústaðakerfinu. Fólk þarf ekki að leita lánafyrirgreiðslu til að brúa bilið milli kaupverðs og lána Húsnæðisstofnunar eða standa undir þungri greiðslubyrði vegna skammtímalána í bankakerfinu.

Þegar hv. þm. Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir, sem sat hér á þingi fyrir nokkru, mælti fyrir tillögu Kvennalistakvenna um byggingu leiguhúsnæðis kom hún einmitt inn á þennan þátt. Hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Eins og efnahagsmál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum hefur komið í ljós að það eru allnokkrir sem ekki ráða einu sinni við þau kjör sem verkamannabústaðakerfið býður upp á. Þess eru allmörg dæmi að íbúðir í verkamannabústöðum hafa lent á nauðungaruppboðum nú á undanförnum mánuðum, því miður.“

Ég hygg því að þm. Kvennalistans hljóti að hafa gert sér grein fyrir því ef þær hafa kynnt sér þessa tillögu um kaupleiguíbúðir náið að þessi till. um kaupleiguíbúðir hefur ýmsa kosti fram yfir íbúðir í verkamannabústöðum. Það er mín skoðun að komist kaupleiguíbúðir til framkvæmda geti þær komið í staðinn fyrir íbúðir í verkamannabústöðum. Ég hygg þó að ýmsir í verkalýðshreyfingunni hafi þá skoðun að reynsla verði að komast á kaupleiguíbúðir áður en sleppt er íbúðum í verkamannabústöðum. Og þegar ég mælti fyrir þessari till. í síðustu viku vitnaði ég einmitt í ýmsa forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem tjá sig um þessar kaupleiguíbúðir. Það kemur fram hjá öllum þessum forustumönnum sem tjá sig um þessa till. að þeir eru mjög hlynntir því að kaupleigutilhögun komist til framkvæmda en telja þó, a.m.k. sumir, að rétt sé að verkamannabústaðakerfið verði um hríð við hliðina á kaupleiguíbúðum, a.m.k. á meðan reynsla er að komast á kaupleiguíbúðir. En í mínum huga er það ekki vafamál að ég tel að kaupleiguíbúðir geti tekið við af íbúðum í verkamannabústöðum.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði um þörfina og þá hvort talan væri raunhæf um byggingu eða kaup 6 þúsund leiguíbúða næstu 10 árin eins og þessi till. gerir ráð fyrir. Svarið við þeirri spurningu er: Já, ég tel hana vera raunhæfa. Samkvæmt könnun Húsnæðisstofnunar ríkisins er þörfin á leiguíbúðum um 2500-3000 leiguíbúðir næstu tvö til fimm árin. Í þessari þáltill. erum við að tala um 10 ára tímabil. Að auki er ljóst að með tilkomu kaupleiguíbúða mun þörfin minnka eða hverfa fyrir íbúðir í verkamannabústöðum. Eins munu kaupleiguíbúðir minnka þörfina fyrir hefðbundnar lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins, þ.e. til kaupa á eldri íbúðum eða nýbygginga, enda kemur fram í 3. tölul. till. að heimilt sé að fækka almennum lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins í hlutfalli við fjölda kaupleiguíbúða sem byggðar eru á ári hverju. Heildarlánafjöldi til kaupa á eldri íbúðum eða byggingar á nýjum íbúðum úr Byggingarsjóði ríkisins mundi þó alls ekki minnka heldur færðist hluti þeirra yfir á kaupleiguíbúðirnar.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði um framlag sveitarfélaganna til kaupleiguíbúða. Úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eiga að koma 250 millj., eins og segir í 5. tölul. till., en þar segir: „Ríkissjóður veiti sveitarfélögum allt að 250 millj. kr. lán árlega í tvö ár gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með 3,5% vöxtum til að auðvelda þeim að hrinda af stað framkvæmdaáætlun um byggingu eða kaup 600 kaupleiguíbúða árlega næstu 10 árin.“ Hér er um að ræða viðbót við framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna en með þessu fá sveitarfélögin framlög til að hefja þá framkvæmdaáætlun sem hér er gert ráð fyrir. Síðan mundu jöfnum höndum koma inn þau framlög sem kaupendur mundu leggja fram með greiðslu viðbótargjalds frá þeim sem óska að kaupa íbúðirnar í þessu kerfi. En viðbótargjaldið eða B-leigan, eins og fram kemur í grg., fer til að greiða niður hlut sveitarfélaga í kaupleiguíbúðum.

Hv. þm. spurði líka um rétt sveitarfélaga eftir að íbúðir hafa verið seldar. Í þáltill. er þessa framkvæmdaratriðis ekki sérstaklega getið og verður hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir að hafa í huga að við erum að ræða þáltill. en ekki frv. þannig að ég vona að það verði virt til betri vegar að ekki er tekið á hverju einasta framkvæmdaratriði í þessari þáltill. Ég vil þó svara því til að hér gæti vissulega verið um samningsatriði við sveitarfélögin að ræða. Ég tel að þá hugmynd mætti þó ræða við sveitarfélögin að á þeim kaupleiguíbúðum sem fjármagnaðar yrðu úr Byggingarsjóði verkamanna með 1% vöxtum hefðu sveitarfélögin forkaupsrétt en íbúðir sem fjármagnaðar yrðu með lánum úr Byggingarsjóði ríkisins með 3,5% vöxtum mætti selja á frjálsum markaði eftir að hlutur sveitarfélaganna, þ.e. 20% framlagið, væri að fullu greiddur af hálfu kaupenda til sveitarfélagsins.

Hv. þm. spurði líka um greiðslur vegna viðhalds. Enn má finna svör við spurningunni í þáltill. sjálfri. Þar kemur fram á bls. 4 að til viðbótar mánaðarlegum greiðslum þurfi að reikna með viðbót vegna sameiginlegs rekstrarkostnaðar. Í tillgr. sjálfri, í 7. tölul., kemur þetta einnig fram.

Spurt er um hvernig 7805 kr. mánaðargreiðsla er fundin og hvort hún standist. Enn má finna svar við þessari spurningu í till. sjálfri. Fram kemur í 7. tölul. að leigjendur greiði fasta húsaleigu, A-leigu, sem gangi til greiðslu afborgana og vaxta af lánum frá byggingarsjóðunum, auk hæfilegs gjalds til greiðslu sameiginlegs reksturs.

Mánaðarlegar greiðslur sem fram koma í grg. og um er spurt, þ.e. 5393 kr. vegna Byggingarsjóðs verkamanna og 7805 kr. vegna Byggingarsjóðs ríkisins, nægja til greiðslu afborgana og vaxta af lánum frá byggingarsjóðunum.

Herra forseti. Ég hef leitast við að svara þeim spurningum sem fram komu þegar mál þetta var rætt í síðustu viku og læt lokið máli mínu.