15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.og viðskn. um frv. til l. um framhald álagningar og innheimtu ýmissa tímabundinna skatta og gjalda á árinu 1987. Hér er um að ræða eitt af fylgifrv. með fjárlagafrv. og er þetta gamall kunningi þó að hér sé um tímabundna skatta og gjöld að ræða. Afgreiðsla fjárlaga fyrir árið 1987 miðast við þær forsendur að þessum tímabundnu sköttum og gjöldum verði haldið áfram á næsta ári svo sem verið hefur undanfarin ár. Hér er um að ræða skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, húsnæðisgjald, sérstakt tímabundið vörugjald og jöfnunarálag á innflutt hús.

Fjh.- og viðskn. hefur rætt frv. og leggur meiri hl. hennar til að frv. verði samþykkt óbreytt. Minni hl. nefndarinnar mun skila séráliti og munu talsmenn minni hl. gera grein fyrir afstöðu hans hér við þessa umræðu.