15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Þegar lánsfjárlög og fjárlög eru tengd saman með þeim hætti sem gert hefur verið og afgreiðsla þeirra frá Alþingi er tengd saman, þá koma eðlilega upp nokkur vandkvæði, tæknileg vandkvæði vegna þess að lokaafgreiðsla fjárlaga hefur vitaskuld áhrif á niðurstöðu lánsfjárlaga. Þar að auki bætist það nú við að nýgerðir kjarasamningar gera það hvort tveggja að verkum að þeir hafa talsverð áhrif á afgreiðslu fjárlaga og þar að auki gera þeir það að verkum að það er auðveldara að segja fyrir um þróun efnahagsmála og þjóðhagsstærða á næsta ári en ella hefði verið ef kjarasamningar hefðu ekki farið fram fyrr en í byrjun næsta árs. Hvort tveggja þetta gerir það að verkum að taka þarf ákvarðanir sem hafa endanlega áhrif bæði á fjárlög og lánsfjárlög. Það er ætlun ríkisstjórnarinnar að taka á fundi sínum í fyrramálið veigamestu ákvarðanir sem að þessum aðstæðum lúta og ég vænti þess að í framhaldi af því megi liggja fyrir í aðalatriðum hverjar breytingar þarf að gera bæði á lánsfjárlögum og fjárlögum. Auðvitað bætast þar við einstök ákvörðunaratriði sem koma til meðferðar í hv. fjvn. á milli 2. og 3. umr. en í öllum stærstu atriðum eiga mál að vera skýrari en nú eftir fund ríkisstjórnarinnar í fyrramálið.

Ég skil í sjálfu sér áhyggjur manna vegna þess að þessi atriði liggja ekki öll ljós fyrir en að sumu leyti má þetta rekja til aðstæðna sem gera okkur kleift að taka ákvarðanir um framvindu efnahags- og fjármála á næsta ári með meiri nákvæmni vegna þess að kjarasamningar liggja nú fyrir.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir hennar störf og þann skilning sem þar hefur komið fram á þeirri aðstöðu sem hér er, að enn er eftir að taka veigamiklar ákvarðanir sem ég vænti að geti þá legið fyrir áður en málið kemur til 3. umr.