15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Á kosningaári hefur hæstv. fjmrh. ákveðið að lækka skattbyrði um sem næst 300 millj. kr. á næsta ári og af þessu tilefni hefur hann lagt til margvíslegar breytingar á núgildandi álagningarkerfi. Þessar breytingar hefur þó þurft að endurskoða a.m.k. tvívegis meðan á umfjöllun frv. hefur staðið í hv. fjh.- og viðskn., þar sem ég á áheyrnaraðild, vegna þess hve viðmiðunarforsendur þeirra hafa breyst. Góðærið, eins og hér var minnst á áðan, batnar sífellt, þannig að meðaltekjubreyting, sem áætluð var um 15% milli áranna 1986 og 1987, hækkaði fyrst í 18,5% á vinnutíma nefndarinnar en skömmu síðar í 20%. Því þurfti ríkisstjórnin að gera brtt. við eigið frv. til að hugmyndir hennar um skattalækkanir stæðust en yrðu ekki til þess að hækka skattbyrði.

Það vekur spurningar um það, og ég vil beina beinni spurningu til hæstv. fjmrh., ég vona að hann heyri til mín, um það hvort hann hefur hugsað sér að lækka skattprósentuna enn frekar ef tekjubreyting verður meiri en ráð var fyrir gert við síðustu áætlun.

Þeim 300 millj. kr. sem ríkissjóður hefur þannig afsalað sér í skattheimtu á svo að dreifa eftir settum reglum milli manna. Eins og áður hefur verið kynnt í umræðu um þetta frv. af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur hefur Kvennalistinn lagt til að þessi dreifing verði önnur þannig að meira fé komi til þeirra sem þyngst framfæri hafa.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og varaþm. minn, Kristín Ástgeirsdóttir, lögðu fram brtt. við frv. á þskj. 210. Þessa brtt. dreg ég nú til baka en hún hefur verið endurskoðuð og umreiknuð að sömu tekjubreytingaforsendum og brtt. meiri hl. hv. fjh.og viðskn. Er hún því lögð fram endurskoðuð á þskj. 324 af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og mér. Þær breytingar sem við leggjum til eru eftirfarandi:

1. Við gerum tillögu um að arður af hlutabréfum verði skattlagður til fulls. Þannig væri afnumið það óréttlæti að hluti þjóðarinnar hafi möguleika á að njóta verulega mikilla skattfrjálsra tekna vegna eignar á hlutabréfum. Gróflega áætlað mun þetta samsvara um 15-20 millj. kr. og er í rauninni aðeins eitt af mörgum dæmum um þær undanþágur sem sjálfsagt er að afnema þótt ekki séu gerðar um það frekari tillögur í þetta sinn.

2. Við leggjum til hækkun skattþrepa. Að þau verði í samræmi við tekjubreytingu á milli ára en þó ekki umfram það. Enn fremur að skattprósentan í efsta þrepi skattstigans lækki ekki frá því sem nú er gert ráð fyrir að óbreyttu frv. ríkisstjórnarinnar.

3. Við leggjum til að barnabætur hækki allverulega, um a.m.k. 42%, en ríkisstjórnin hefur hins vegar lagt til um 20% hækkun. Ef tillögur okkar fást samþykktar verða barnabætur með fyrsta barni 15 500 kr. á ári í stað þeirra 12 625 kr. sem brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, og með hverju barni umfram eitt verður um að ræða 23 200 kr. í stað 18 910 kr. skv. brtt. meiri hlutans. Barnabætur með börnum einstæðra foreldra verða þá 31 þús. kr. með hverju barni í stað 25 250 kr. skv. brtt. meiri hlutans, og bætur með börnum yngri en 7 ára í lok tekjuársins 15 500 kr. umfram í stað 12 625 kr. skv. brtt.

4. Við gerum brtt. við 6. gr. frv. sem varðar sérstakan barnabótaauka þannig að hann nemi óskertur skv. okkar till. 31 þús. kr. í stað 25 250 kr. skv. till. meiri hlutans. Við gerum líka tillögur um breyttan útsvarsstofn hjóna og einstæðra varðandi brottfall eða skerðingu á barnabótaauka, þannig að stofninn hækki.

Það er rétt að taka það fram og undirstrika það rækilega að þessar tillögur Kvennalistans breyta á engan veg heildardæminu þannig að það verður ekki innifalin í þeim breyting á tekjum ríkissjóðs umfram það sem lagt er til með tillögum meiri hl. í fjh.- og viðskn.

Þó að við höfum þannig einungis gert tillögur til breytinga innan þess ramma, sem frv. fjmrh. setur, höfum við þá skoðun að gera þurfi grundvallarbreytingar á skattkerfinu í heild og tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs, breytingar sem leiða til meiri tekjujöfnunar en nú er. Þar eru meðtaldar endurskoðun og breytingar á tekjuskatti. Jafnframt teljum við afar brýnt að komið verði sem fyrst á staðgreiðslukerfi skatta og höfum enda lagt fram till. til þál. um það efni í tvígang á þessu kjörtímabili. Meðan þessar róttæku breytingar hafa enn ekki verið gerðar teljum við nauðsynlegt að nota slíkar tilfærslur á fjármagni sem hér eru áformaðar til að styðja sem best við þá sem mest þurfa á því að halda, þá sem eru með börn á framfæri og þá sem lægst laun hafa. Enda kemur í ljós að brtt. okkar munu leiða til mests stuðnings við einstæða foreldra og þá sem hafa flest börn á framfæri.

Það má segja sem svo að ekki muni mikið um tilfærslur á þeirri skiptimynt sem hafa má frá þeim einstaklingum sem tekjuskatt greiða, eins og áður hefur verið vitnað til í umræðum um þetta mál. Tekjuskattar fyrirtækja á Íslandi eru mjög lágir og þau njóta ýmissa frádráttarliða til skattalækkunar, en þaðan væri hægt að færa talsvert fé til að létta skattbyrði einstaklinganna og því styðjum við Kvennalistaþingkonur ýmsar þær hugmyndir sem koma fram í brtt. frá Svavari Gestssyni. Þó viljum við taka það fram að svo víðtækar breytingar hljóta að vera hluti af miklu róttækari heildarendurskoðun tekjuskattskerfisins heldur en hér er lagt til.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.