16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

226. mál, bætt merking akvega

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fyrir hæstv. samgrh. varðandi eina litla þáltill. sem var samþykkt á hinu háa Alþingi 18. apríl 1985. Till. lætur ekki mikið yfir sér, en var þó flutt að gefnu tilefni og um hana tókst algjör samstaða á Alþingi og þeir sem tjáðu sig um málið á sínum tíma voru yfirleitt sammála um að brýn ástæða væri til úrbóta á því sviði sem till. fjallar um. Till. var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir átaki til að bæta merkingu akvega, setja upp viðvaranir við hættulegar ökuleiðir og samræma merkingar vega alþjóðlegum reglum.“

Tilefnin voru m.a. þau að sumarið 1984 urðu tíð óhöpp og slys á fjallvegum og ýmsum vegum landsins sem ekki eru vel merktir og sumir ómerktir og við skoðun þessa máls þótti mönnum brýnt að gera sérstakt átak, m.a. vegna mjög vaxandi ferðamannafjölda. Sumir koma með bíla sína og aðrir taka bíla á leigu og ferðast um landið, geta ekki lesið íslenskar leiðbeiningar og átta sig ekki á þeim hættum sem víða eru samfara umferð um hálendi og fjallvegi.

Það vakti athygli mína að s.l. sumar þegar rúmt ár hafði verið til að beita sér fyrir þeim úrbótum sem till. fjallar um komu fréttir af óhöppum sem urðu við eina verstu torfæru landsins á fjallvegum, sem verið hefur til langs tíma, Krossá, á leiðinni í Þórsmörk, þar sem útlendingur var hætt kominn. Hann hafði asnast út í ána, eins og sagt er á íslensku, óafvitandi þess hversu hættuleg hún er, enda kannske von því að engar viðvaranir, engar leiðbeiningar af neinu tagi voru við þessa frægustu tálmun eða ófæru á leið af þessu tagi. Þetta m.a. leiddi til þess að ég hef ákveðið að spyrja hæstv. samgrh. hvernig miði þessari samþykkt Alþingis, að hrinda henni í framkvæmd, og tel ærna ástæðu til.