21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Þau eru nú farin að tíðkast breiðu spjótin í viðskiptasamvinnu Íslendinga og Sovétríkjanna. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá í Sþ. í dag. Afstaða Sovétríkjanna til síldarkaupa frá Íslandi síðustu daga hefur valdið bæði undrun og vonbrigðum. Rammasamningur milli ríkjanna, sem gengið hefur vel til þessa að starfa eftir, gerir ráð fyrir 240 þús. tunna sölu þangað. Nú hafa fengist yfirlýsingar frá yfirmönnum sovésku viðskiptanefndarinnar um að e.t.v. verði 20% af því magni keypt héðan. Þetta þýðir vitanlega hrun í síldarsölunni á mikilvægasta markaði okkar Íslendinga þangað sem yfir 80% af allri saltsíld hefur farið til þessa. Þetta þýðir stórkostlegan samdrátt og kreppu, ég segi reyndar ekki landauðn sem betur fer, en samdrátt, kreppu og stórkostleg vandkvæði í þeim sjávarplássum sem hafa byggt allt sitt á þessum árstíma á síldveiðunum.

Svo að ég taki dæmi: Í Grindavík einni saman þýðir þetta um 80 millj. kr. samdrátt í útflutningstekjum. Þetta þýðir að 700-800 manns munu ganga atvinnulaus sem ella hefðu haft atvinnu af síldarsöltun. Jólabónusinn húsmæðranna í Grindavík, svo að ég taki annað dæmi, var fyrir síðustu jól 4 milij. kr., jólin þar áður 6 millj. Þetta eru tekjur sem menn treysta á. Þær verða hugsanlega ekki fyrir hendi í dag. Þetta þýðir þess vegna verulega kjararýrnun.

Það má segja að kannske sé ekki við Sovétmenn eina að sakast í þessum efnum því að vitanlega er hér, eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskrh., um undirboð og „dumping“ okkar helstu keppinauta að ræða. Slík undirboð eru bönnuð samkvæmt EFTA-sáttmálanum sem Norðmenn eru aðilar að. Slík framkoma er kannske ekki ný en hún er jafnámælisverð í þessu efni og jafnan áður.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. viðskrh. úr þessum ræðustól áðan að af olíusamningum við Sovétríkin, olíukaupum af hálfu Íslendinga, muni ekki verða meðan þetta mál er óútkljáð. Það er rétt stefna. Það var óhjákvæmileg stefna hjá ríkisstjórninni að binda þessi tvö viðskiptamál saman á þann hátt sem gert hefur verið.

Ég fagna einnig þeirri yfirlýsingu ráðherrans að hann sé reiðubúinn að fara þegar í stað til Moskvu til viðræðna við kollega sína þar til að freista þess að fá lausn á þessu máli. Þetta er stórmál og mál sem aðeins leysist á grundvelli ráðherraviðræðna og ríkisstjórnasamskipta. Ég óska ráðherra og ríkisstjórninni allra heilla við lausn þessa máls.