17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

252. mál, fangelsi og vinnuhæli

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 356 um um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli. Þetta er nál. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Nefndin hefur athugað frv. og leggur meiri hl. til að það verði samþykkt. Í nál. kemur fram að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hafi setið fund nefndarinnar og samþykkt þessa afgreiðslu. Undir þetta rita Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Guðmundur Bjarnason, Halldór Blöndal, Ólafur G. Einarsson og Kjartan Jóhannsson en hv. þm. Svavar Gestsson mun skila séráliti og gera grein fyrir sínum skoðunum.

Það er aðeins eitt sem ég held að sé ástæða til þess að benda á og það er að með frv. þessa, ef samþykkt verður, er auk þess að taka verkfallsrétt af fangavörðum verið að lögfesta það að ríkið beri hlutlæga ábyrgð á slysum sem fangaverðir gætu orðið fyrir í sínu starfi með samsvarandi hætti og nú er gert í 5. gr. laga um lögreglumenn.