21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Af heildarsíldaraflanum í fyrra fóru til söltunar 30 760 tonn eða 66%. 2/3 hlutar af þeirri síld sem landað var til söltunar á árinu fóru til Sovétríkjanna, enda hefur hin mikla síldarsöltun Íslendinga á undanförnum árum byggst að verulegu leyti á þeim stóra markaði sem allir keppinautar okkar leggja nú ofurkapp á að komast inn á.

Margir velta því nú fyrir sér hvernig til muni takast með nýtingu síldaraflans á komandi vertíð. Jafnvel þótt sölur tækjust um svipað heildarmagn af saltaðri síld og í fyrra, sem fullkomin óvissa ríkir um eins og allir vita, þá yrðu tæplega 40 000 tonn að fara til annarrar vinnslu en söltunar miðað við að áætlaður kvóti verði nýttur að fullu. Takist ekki samningar um sölu á saltaðri síld til Sovétríkjanna má búast við að 60 000 tonn verði að nýta til annarrar vinnslu en söltunar eða um 86% af hugsanlegum afla. Sá sífelldi misskilningur virðist vera ríkjandi hér á landi að síldveiðar verði að mestu leyti að byggjast á söltun aflans. Hið rétta er að aðeins um 10% af síldaraflanum í heiminum er nýttur til söltunar en aðeins um 5% sé miðað við síld af sömu stærð og veiðist hér við land.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að skoða til samanburðar hvernig Norðmenn nýttu síldarafla sinn á s.l. ári, en það var þannig:

Síld, seld fersk um borð í sovésk verksmiðjuskip 12%, til frystingar 19%, til söltunar fyrir innlendan og erlendan markað 5%, til niðursuðu 1% og til bræðslu 63%. - Þannig var nýtingin á síldinni hjá Norðmönnum. Þetta skulu menn hafa í huga og það sýnir hversu mikilvægur er samningurinn sem við höfum átt og gert við Sovétríkin á undanförnum árum.

Varðandi það sem menn hafa sagt hér um Norðmenn og Fríverslunarbandalagið vil ég upplýsa það að stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, tekur aðallega til iðnaðarvara en einnig til nokkurra sjávarafurða. Í samningnum eru ákvæði varðandi ríkisstyrki sem reynt er að reisa skorður við. Norðmenn gerðu þó þann fyrirvara þegar þeir gengu í EFTA að þeir gætu haldið styrkjakerfi sínu í sjávarútvegi. Því er ekki unnt að halda því fram að þeir brjóti EFTA-samninginn með styrkjum sínum. Áskoranir á Norðmenn um að hætta ríkisstyrkjum með tilvísun til anda EFTA-samningsins, EFTA-ályktana eða ályktana t.d. Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, eru því ekki líklegar til að hafa nein sérstök áhrif. Reyndar segjast Norðmenn ekki styrkja síldveiðar sínar en það er fullvíst að svo sé samt gert með ýmsum hætti sem ég hef ekki tíma til að koma inn á.

Af hálfu Íslands hefur verið rætt við Norðmenn og þessar þjóðir um það hvernig þær niðurgreiða sínar afurðir og að því er ég best veit hefur alltaf verið tekið vel undir það að hugsa hlýlega til litla bróður hér, en það hefur ekki að ég best veit náð lengra eins og reynslan sýnir okkur nú. Við værum ekki í þessum vandræðum núna ef þessir bræður og vinir hefðu komið öðruvísi fram.

Ég endurtek og fullvissa þingheim um það að við munum í ríkisstjórninni gera allt sem við hugsanlega getum og við munum koma saman hér síðar í dag þrír ráðherrar til þess að ræða framhald þessa máls, en það eru sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra auk mín.