17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

231. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aldrei þessu vant er ég gjörsamlega ósammála eiginlega öllu því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nýlega mælt fyrir hér. Ég held að þarna sé dálítill misskilningur á ferðinni. Það sem hæstv. ráðh. er að gera hér er sanngirnismál, þ.e. að mæður eða feður sem eiga maka sinn tekjulausan á sjúkrastofnun fái mæðra- eða feðralaun til jafns við ekkjur, fráskildar konur og ógifta foreldra. Þetta er út af fyrir sig sanngirnismál. Það sem mér finnst hins vegar óljóst er að ég átta mig ekki alveg á því hvort það er algjört skilyrði að viðkomandi maki hafi verið með örorkulífeyri eða ellilífeyri. Í tilfellinu ellilífeyrir er það alveg ljóst, en til eru dæmi þar sem maður slasast illilega, liggur heilt ár á sjúkrahúsi. Þó að ljóst sé frá upphafi að hann muni aldrei út af sjúkrahúsinu koma líður venjulega heilt ár áður en maðurinn er metinn til varanlegrar örorku. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðh. hvernig væri farið með slík tilvik vegna þess að það er ekki sjálfgefið að langlegusjúklingar hafi örorkubætur. Það held ég að verði að vera ljósara í frv.

Ég get ekki stillt mig um að gera eina málfarslega athugasemd við grg. Það er þar dálítið skemmtileg setning, með leyfi forseta, sem hefst þannig:

„Væri maki bótaþega og framfærandi barnanna hins vegar ekkja, ógift eða fráskilin“. .

Ég fæ ekki séð að hann eða hún gæti þá verið nokkurs maki þannig að þarna hefur hugmyndaflugið dálítið farið á svig við gerð grg.

Annað er í þessari grg. sem mér finnst bera vott um dálitla vanþekkingu. Það er gert ráð fyrir að þessi maki, ef hann væri ekkja, ógift eða fráskilin kona, ætti rétt á allt að 11 002 kr. á mánuði í mæðralaun. Það er alrangt vegna þess að til þess þyrfti hún að eiga a.m.k. þrjú börn eða fleiri. Ætti hún aðeins eitt barn ætti hún ekki rétt á nema 2476 kr. og, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, með tveim börnum 6488. Grg. þessi þykir mér því ekki sérdeilis vel gerð ef ég mætti hafa orð á því hér.

En varðandi inntakið í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég segja þetta: Það er ákaflega erfitt að mismuna fólki innan almannatryggingakerfisins. Segjum að ellilífeyrisþegi fari á stofnun. Vitaskuld falla þá niður tekjur heimilisins að hálfu ef báðir aðilar hafa verið á ellilífeyri. En þetta er sama vandamálið og einhleypingar eiga við að stríða sem er einfaldlega það að ellilífeyrir er ekki til þess að lifa af. Það er fullkomið hneyksli að verkalýðshreyfingin skuli voga sér að gera kjarasamninga nú fyrir skömmu þar sem mönnum eru tryggð svokölluð lágmarkslaun sem eru fráleit í sjálfu sér, 26 500 kr., og að þá skuli ekki vera gulltryggt að elli- og örorkulífeyrisþegar hafi a.m.k. þessa upphæð líka. Og það er vandamálið. Ég held að breyting sú sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði til sé í trássi við inntak og hugmyndir að almannatryggingakerfinu vegna þess að væri sú breyting gerð væri þar um umtalsverða mismunun milli einstaklinga að ræða sem búa við alveg sömu kjör. Þess vegna treysti ég mér ekki, þegar hv. heilbr.- og trn. fær þetta mál til meðferðar, ég á þar sæti sjálf, til að styðja þær hugmyndir.

Varðandi tvöfaldan barnalífeyri í þeim tilvikum þar sem maki væri á stofnun eða sætti gæsluvist. Það væri líka ákveðin mismunun vegna þess að allflestar einstæðar mæður verða að lúta því að fá einfalt barnsmeðlag, eða barnalífeyri með börnum sínum sé makinn öryrki. Ég fæ ekki séð af hverju ætti að mismuna þar í tilvikum sem hér um ræðir. Ég held því að frv. ætti að ná fram að ganga eins og það er orðið nú, en með þeim fyrirvara, sem ég óska eftir að fá skýringar á, hvernig beri að fara með þau tilvik þar sem ljóst er maður eða kona er langlegusjúklingur og verður það, en verður venjulega að vera á sjúkrahúsi allt að einu ári og á meðan hefur makinn ekki annað en sjúkradagpeninga. Ég held að það þurfi að hafa alveg skýrt að þetta geti átt við í slíkum tilvikum eða þá að gengið verði eftir að sjúklingurinn sé metinn til örorku miklu fyrr en almennt gerist.