17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í dag fór fram atkvæðagreiðsla eftir 2. umr. um þetta mál og ég held að það gæti verið fróðlegt til upprifjunar að fara yfir hvernig sú atkvæðagreiðsla fór, hvað það var sem menn voru að fella og hvað það var sem menn voru að samþykkja.

Það sem var fellt var í fyrsta lagi að takmarka heimildir fyrirtækja til að draga frá útistandandi viðskiptaskuldir í árslok. Eins og þetta er núna geta fyrirtæki dregið frá í árslok 5% af útistandandi viðskiptaskuldum og gert var ráð fyrir að það yrði takmarkað með ákveðnum hætti og felld niður sú heimild á fimm árum þó svo að fyrirtækin gætu fengið heimild til þess og gert ráð fyrir því í greininni að sannanlega tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir væru dregnar frá. Þetta var fellt. Þetta mátti ekki. Það mátti ekki takmarka þessar heimildir fyrirtækjanna. Það var bannað og stjórnarliðið gerði ekki svo mikið sem líta á þessa till. þó hún hefði bersýnilega ein haft í för með sér hækkun á tekjum ríkissjóðs á næsta ári um 100-200 millj. kr. Það mátti ekki. Það var svo mikill afgangur í ríkissjóði að það mátti ekki bæta við hann. Og sá maður sem á helst að hafa umhyggju fyrir ríkissjóði og fær fyrir það kaup, heitir Þorsteinn Pálsson, er fjmrh. og er hæstv. að auki, tók þátt í að fella þessa tillögu. Umhyggja hans fyrir ríkissjóði lýsti sér með þessum hætti. Hann vildi ekki þennan pening, enda vill hann ekki peninga frá fyrirtækjunum. Þau eiga að hafa sem mest svigrúm, olnbogarými eins og það heitir stundum.

Í öðru lagi var felld till. um að fyrirtækin gætu takmarkalítið dregið frá tekjum allt að 5% af matsverði vörubirgða í lok reikningsárs. Þetta mátti ekki samþykkja þó svo um sé að ræða fyrirtæki þar sem þetta er bersýnilega ekkert annað en niðurfærsla á skattgreiðslum til hinna sameiginlegu sjóða, ríkissjóðs í þessu tilviki. Þessa till. mátti ekki samþykkja. Hún hefði þýtt í tekjuauka fyrir ríkissjóð 100-200 millj. kr., en það má heldur ekki. Ríkið hefur svo miklar tekjur, svo mikinn afgang á næsta ári. Það er svo mikið af peningum til í heilbrigðismál, nóg af peningum til að kaupa Borgarspítala o.s.frv. Það var engin ástæða til að bæta þar við. Gæslumaður ríkissjóðs, hæstv. fjmrh., hv. 1. þm. Suðurl., taldi enga ástæðu til þess. Þannig væri ástandið í heilbrigðismálum, samgöngumálum og skólamálum á Suðurlandi að það væri ekki nokkur leið að laga þar nokkuð eða bæta um betur á neinn hátt. Þar er allt fullkomið, eins og hv. þm. Eggert Haukdal veit. Þar þarf engu við að bæta.

Nei, það mátti ekki samþykkja þetta. Og það mátti heldur ekki samþykkja till. um að fella niður framlög í fjárfestingarsjóði. Það eru nú litlar 700 millj. sem fyrirtækin draga frá vegna fjárfestingarsjóðanna á þessu ári. Tekjur ríkissjóðs, ef það væri skattlagt, væru 350 millj. kr. Það mátti ekki heldur koma í ríkissjóð. Það er svo mikið í ríkissjóði að það má ekki bæta þar við. Hann þolir ekki meira. Hann er að sligast af oftekjum. Fjmrh. veit ekki sitt rjúkandi ráð yfir þessu ástandi ríkissjóðs og mátti ekki til þess vita að það yrði bætt þar við örlitlu, 350 millj. kr., svipaðri upphæð og flestöll framkvæmdaframlög ríkisins á árinu 1987. En vegna þess að við Alþýðubandalagsmenn viljum efla fyrirtækin til nýsköpunar í atvinnulífinu svo sem kostur er fluttum við ekki bara till. um að skerða nokkuð möguleika fyrirtækjanna til að draga frá heldur fluttum við einnig till. um að framleiðslufyrirtæki væri heimilt að draga frá hagnaði annað hvert ár allt að 5% af hagnaði vegna rannsóknar-, þróunar- og markaðsstarfs á vegum fyrirtækisins.

Þarna var till. um að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Þróun nýrrar tækni, markaðssóknar. Og fátt er brýnna núna í atvinnumálum þessa lands en að menn gleymi sér ekki svo í góðærinu að menn láti það eiga sig að stuðla að nýsköpun og endurnýjun í okkar atvinnulífi, sérstaklega í hvers konar nýrri tækniþróun, m.a. upplýsingatækni sem grannþjóðir okkar verja nú til stórkostlegum fjármunum úr ríkissjóði, m.a. íhaldsstjórn eins og stjórn Margrétar Thatcher. Nei, það má ekki undir þessari íhaldsstjórn hér. Það má ekki efla fyrirtækin til rannsóknar- og þróunarstarfsemi og nýsköpunar í atvinnulífinu. Það er bannorð. Það mátti ekki líta á svoleiðis till. Henni var hafnað. Þegar um er að ræða frádrátt í fyrirtæki til að festa í steinsteypu er allt í lagi að draga frá 700 millj. kr., en þegar um er að ræða nýsköpun í atvinnulífi og þróun nýrrar tækni: Bannað. Því er hafnað.

Því var líka hafnað að draga nokkuð úr í sambandi við fyrningar lausafjármuna og fastafjármuna sem fyrirtæki eru með í rekstri. Þar hækkaði ríkisstjórnin fyrningarfrádrættina í upphafi síns ferils. Hér var flutt í dag og felld till. um að fyrningunni yrði breytt í það horf sem hún var áður. Nei, það mátti ekki þó svo að fyrir því séu efnahagsleg rök í dag í þeirri þenslu sem er fyrirsjáanleg, m.a. til að draga úr verðbólguhættu, að taka skatta af fyrirtækjum sem hafa mestan hagnað. En það mátti ekki. Fyrirtækin áttu með stórauknum hagnaði á næsta ári að geta stuðlað að aukinni verðbólgu. Þau fá að vera í friði til þess.

Síðan kem ég að till. sem olli mestum úlfaþyt í dag. Það var till. um að menn teldu ekki fram einkaneyslu á rekstri fyrirtækja. Till. var felld hér með nafnakalli. Till. var svona:

„Persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna er óheimilt að telja til rekstrarkostnaðar. Skal ríkisskattstjóri gefa út árlega reglur um takmörk skv. þessum tölulið. Risnu má ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins. Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri sérstaklega gæta þess að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækisins.“

Hv. þm. Halldór Blöndal, sem er með þessa fínu réttlætistaug á sínum stað og tekur ævinlega við sér þegar eitthvað er nefnt hér sem hann telur að til bóta megi horfa fyrir þjóðina og þjóðarhag, stökk upp og spurði: Getur það verið, er það hugsanlegt að það gerist einhvers staðar að það sé verið að færa persónulega eyðslu á fyrirtækin í landinu? Getur það virkilega verið að skattstjórarnir séu svo aumir að þeir passi þetta ekki? Er þetta hugsanlegt? Ég heimta svör frá skattstjórunum, hvort þeir líði þetta? Mér þótti vænt um að heyra hvernig hv. þm. Halldór Blöndal rauk upp svo að segja, knúinn af þessari sterku innri réttlætistilfinningu, og kallaði á úrbætur í þessum málum og lýsti þannig beinum stuðningi við þá hugsun sem er á bak við þessa till. hér. Er full ástæða til að geta þess, ekki aðeins í þessu máli heldur fleirum, að það er sárasjaldgæft að hv. þm. Halldór Blöndal bregðist andstæðingum sínum í pólitík. Það er sárasjaldgæft.

Til þess að glöggva aðeins þingheim á þessu máli, sem hv. þm. Halldór Blöndal gerði að umtalsefni í dag, er rétt að rifja upp skýrslu sem birtist í sumar, 63 bls., skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika, sbr. ályktun Alþingis 3. maí 1984, lögð fyrir Alþingi 18. apríl 1986. Í þessari nefnd voru valinkunnir sæmdarmenn, Þröstur Ólafsson hagfræðingur var formaður nefndarinnar, Eyjólfur Sverrisson endurskoðandi, Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur sem jafnframt starfaði sem ritari hópsins. Þessi nefnd skilaði ítarlegri skýrslu til núverandi hæstv. fjmrh. Hún var skipuð af hæstv. fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundssyni. Hún sýnir fram á að það er tilfellið, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. var að gagnrýna í dag, að það leikur sterkur grunur á því að eitt og eitt fyrirtæki sé að flytja upphæðir úr persónulegri eyðslu forráðamanna sinna yflr á fyrirtækin. Það stendur t.d. á bls. 10, með leyfi hæstv. forseta:

„Einfalda þarf skattalögin, fækka undanþágum og afnema margs konar frádráttarliði þannig að skattstofnar verði skýrir og afmarkaðir og greiðsluskylda auðreiknanleg. Einföldun skattalaga og fækkun undanþága og frádráttarliða auðveldar öll skattskil virkara skatteftirlits. Um leið þarf að fækka skatttegundum og gæta þess að einstakir skattstofnar séu ekki ofnýttir. Embætti ríkisskattstjóra verði breytt í stofnun er fari með heildarstjórnun skattamála, bæði faglega og verkstjórnarlega. Það býður upp á mun meiri möguleika til bættrar verkaskiptingar og samræmdra vinnubragða sem bæta munu skatteftirlit. Öll úrvinnsla og allt eftirlit með framtölum færi fram á einum stað þar sem sérhæft menntað starfsfólk er fyrir hendi í nægilegum mæli. Skattstofur í núverandi mynd legðust niður, en eftir yrðu aðilar sem mundu veita upplýsingar til almennings og hugsanlega afla gagna vegna framtala. Herða þarf bókhaldseftirlit og viðurlög við brotum bókhaldsskyldra aðila. Lögfest verði ótvíræð lagaheimild fyrir ríkisskattanefnd til þess að úrskurða sektir fyrir hrein bókhaldsbrot svipuð þeirri sem hún hefur vegna skattabrota. Sjálfstæð refsiákvæði komi í bókhaldslög. Endurskoða þarf ákvæði í almennum hegningarlögum um stórfellda óreglusemi í færslu bókhalds. Verknaðarlýsing ákvæðisins er óljós og refsimörk mjög væg. Lögfest verði hlutræn refsiábyrgð lögaðila svipuð þeirri sem nú er að finna um skattbrot.“ Svo er farið yfir það í þessari skýrslu á bls. 12 og áfram sem heitir „Einstök svið dulinnar efnahagsstarfsemi.“ Það er hollt fyrir þm., meðan þeir eru að skrifa jólakortin, að það sé lesinn örlítill kafli upp úr þessari skýrslu og ræður og þingskjöl og stjórnlagafrv., svo að ég telji nú allt til. Það er hollt fyrir þm. að á meðan þessi starfsemi fer fram, sem er auðvitað brýn í þessu þjóðfélagi, verði lesinn smákafli um dulda efnahagsstarfsemi. Hér segir t.d. á bls. 12:

„Í þriðja lagi er rétt að minnast á margvíslegar leiðir til að hækka kostnaðarhlið, lækka tekjuhlið rekstrar til undandráttar frá tekjuskattsstofni og snýr því eingöngu að fyrirtækjum eða atvinnustarfsemi. Þessar tegundir eru helstar“ - og nú kemur hin hrikalega afhjúpun:

„Persónuleg útgjöld einstaklinga í atvinnurekstri eru færð sem rekstrarkostnaður“, stendur hér skýrum stöfum. „Persónuleg útgjöld hluthafa eru færð sem rekstrarkostnaður hjá lögaðilum. Persónuleg útgjöld launþega í þjónustu einstaklings eða lögaðila eru færð sem rekstrarkostnaður.“ - (SJS: Hvar er Halldór Blöndal?) Herra forseti. Hvort mundi vera hugsanlegt að kveðja til hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hann sé viðstaddur þessa umræðu. (Forseti: Það verður gerður reki að því.) Já, mér þykir vænt um að hv. 1. þm. Norðurl. e. kallar til félaga sinn af Norðurlandi.

Síðan segir hér: „Greiðslur, sem á að eignfæra og afskrifa, eru færðar sem rekstrarkostnaður, t.d. viðhald. Óheimilar afskriftir útistandandi skulda. Endurgreiðsla kostnaðar er ekki færð. Afhending eigna til hluthafa eða hlutareiganda án skráningar í reikningi lögaðila. Kaup eignar hluthafa eða ættingja þeirra á verði sem er hærra en almennt markaðsverð.“

Þannig er gefið í skyn í skýrslu þessarar virðulegu nefndar að menn séu jafnvel að hygla ættingjum sínum. Er ég sannfærður um að þetta kemur mörgum á óvart, en alveg sérstaklega vafalaust hv. þm. Halldóri Blöndal. (GJG: Þetta heitir ættrækni.) Þetta heitir gjarnan ættrækni og það er reynt að breiða yfir þetta með því að kalla þetta fínum nöfnum, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. En hér heitir þetta „kaup eignar hluthafa eða ættingja þeirra á verði sem er hærra en almennt markaðsverð“. Það er ekki verið að tala um þetta sem almennt umræðuefni á ættarmótum eða fjölskyldusamkomum. Það er þvert á móti. Þetta er talið hér upp sem sérstök ávirðing manna í þessu þjóðfélagi.

Og síðan segir: „Sala eigna til hluthafa eða ættingja þeirra undir markaðsverði“. Það er auðvitað um að ræða hrikalegar ásakanir í þessari skýrslu skattsvikanefndarinnar og er nauðsynlegt fyrir þann mæta mann hv. 2. þm. Norðurl. e. að frétta af því að það mun vera tilfellið að að því séu einhver brögð að menn færi persónulega eyðslu á rekstur fyrirtækjanna.

Af því að hv. þm. var að koma inn ætla ég rétt að fara hratt yfir það sem nefndin segir á bls. 12 í skattsvikaskýrslunni. Þar segir:

„Í þriðja lagi er rétt að minnast á margvíslegar leiðir til að hækka kostnaðarhlið rekstrar til undandráttar frá tekjuskattsstofni og snýr því eingöngu að fyrirtækjum eða atvinnustarfsemi. Þessar tegundir eru helstar“ - og bið ég nú hv. þm. að leggja vel við eyrun:

„Persónuleg útgjöld einstaklinga í atvinnurekstri eru færð sem rekstrarkostnaður“, stendur hér í skýrslunni. „Persónuleg útgjöld hluthafa eða hlutareiganda eru færð sem rekstrarkostnaður hjá lögaðilum. Persónuleg útgjöld launþega í þjónustu einstaklings eða lögaðila færð sem rekstrarkostnaður. Greiðslur sem á að eignfæra og afskrifa eru færðar sem rekstrarkostnaður, t.d. viðhald. Óheimilar afskriftir útistandandi skulda. Endurgreiðsla kostnaðar er ekki færð. Afhending eigna til hluthafa eða hlutareiganda án skráningar í reikningi lögaðila. Kaup eigna hluthafa eða ættingja þeirra á verði sem er hærra en almennt markaðsverð. Sala eigna til hluthafa eða ættingja þeirra undir markaðsverði.“

Þetta viðgengst hér allt saman þrátt fyrir skattalagaákvæðin og það var þess vegna sem það voru örugglega mistök í fljótræði hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að taka þátt í því að fella þá tillögu sem ég flutti um þetta mál í dag.

En það er fleira tínt til. Hér segir:

„Algeng aðferð eru vaxtalaus lán til hluthafa eða starfsmanna lögaðila eða vextir undir markaðsvöxtum og óeðlileg lánakjör í því sambandi.“

Síðan segir: „Ýmis viðskipti tengdra eða skyldra aðila, þar með talin viðskipti móður- og dótturfyrirtækis, t.d. í sambandi við lán. (GA: Sonar- og föður.) Stendur reyndar ekki hér, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, en til samkomulags mætti hugsa sér að breyta texta skýrslunnar á þann veg og skal ég taka að mér að koma því á framfæri við formann starfshópsins þegar ég hitti hann næst.

Síðan segir hér: „Gjafir færðar sem rekstrarkostnaður“. Ja, þvílíkt og annað eins. Gjafir færðar sem rekstrarkostnaður.

Og svo segir nefndin hér: „Það sem hér að framan hefur verið gerð grein fyrir eru yfirleitt athafnir sem nefndar eru skattsvik, refsiverð skattsvik sem er sá hluti hinnar duldu efnahagsstarfsemi sem er meginviðfangsefni nefndarinnar.“

Það er þess vegna alveg augljóst mál að þrátt fyrir gildandi lög á sér stað stórfelld skattsvikastarfsemi hér. Það hafa verið leiddar líkur að því að þar sé um að ræða milljarða kr. (HBl: Varstu ekki að segja að þetta væru skattsvik eins og ég sagði áðan?) Nei, þú sagðir ekki að það væru skattsvik. Þú sagðir að það væru nægileg ákvæði í gildandi lögum til að koma í veg fyrir þessi skattsvik. Á þeirri forsendu byggðist sú afstaða hv. þm., sem nú er hlaupinn á dyr, að hafna tillögu minni í dag. Nú á hann þess kost að samþykkja slíka tillögu á ný, enda verði gerður reki að því að hún verði endurflutt eða ný tillaga hér á eftir í samræmi við þingsköp.

Hér er um að ræða þannig lagað mál að það er útilokað að láta 3. umr. ganga yfir án þess að um það sé sérstaklega rætt. Það er alvarlegt, hv. 4. landsk. þm., að hér skuli hafa verið í salnum hv. þm. Halldór Blöndal sem ekki gerði sér grein fyrir þeim alvarlega þætti í okkar efnahags- og hagkerfi sem eru skattsvik. Ég tel reyndar að það sé óhjákvæmilegt, ef skattakerfið á að vera sá hornsteinn samneyslunnar sem það þarf að vera, að skapa í kringum það aukinn trúnað, aukna tiltrú almennings. Það á að gera með því að einfalda skattakerfið. Tillögur um það flutti ég í dag og þær voru felldar. Það á að gera með því að gera skattaeftirlitið virkt. Tillögur um það hafa verið felldar. Það á að gera með því að setja a.m.k. um tíma á sérstakan skattadómstól. Tillögum um það hefur í rauninni verið hafnað. Það er því ljóst að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki minnsta áhuga á að bæta skattakerfið. Því fer svo víðs fjarri. Og hv. þm. Páll Pétursson, sem hefur leitt fjh.- og viðskn. allt þetta kjörtímabil, hefur ekkert aðhafst að heldur í þeim efnum þannig að stjórnarflokkarnir eru nákvæmlega jafnsekir að því er þetta varðar.

Þetta er þeim mun alvarlegra þegar fyrir liggur hér á þinginu ítarleg skýrsla um skattsvik samin af stjórnskipaðri nefnd sem stjórnarliðið hefði átt að lesa og fara yfir. En það er ekki gert. (GE: Heyr, heyr.) Ég bendi hv. 4. landsk. þm. á að hann er ekki staddur á framboðsfundi þar sem það er örugglega mikilvægt að heyrist í áheyrendum og þeir kalli heyr og bravó af og til. Það er ekki svo hér enn. Hv. þm. er við Austurvöll.

Herra forseti. Þetta vildi ég nefna ef það mætti verða til þess að greiða fyrir því að hv. þm. Halldór Blöndal öðlaðist skilning á því alvarlega vandamáli hagkerfisins sem ég hef verið að ræða.

Ég mun síðar í 3. umr., herra forseti, fara nánar yfir ýmis atriði eins og t.d. þau atriði sem snerta frádráttarliði einstaklinga, auk ítarlegra upplýsinga sem ég hef aflað mér um tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1987. Þar kennir margra grasa sem nauðsynlegt er að tína inn í þessa umræðu.

Ég vænti þess, herra forseti, að þessi ræða mín hafi skýrt nokkuð það stóra vandamál sem hér er á ferðinni og mér fannst að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði sést yfir í sinni annars glöggu ræðu um þetta mál fyrr í dag, virðulegi forseti.