17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér er nú farið að þykja þetta mjög skemmtileg umræða, ekki síst að hlusta á hv. síðasta ræðumann þegar hann var að tala um það, eða svo skildist mér, að skattstjórar teldu sig vanta heimildir til þess að þeir gætu tekið á því ef rekstraraðilar verðu fyrirtæki til einkaneyslu eða væru með óhæfilega risnu óviðkomandi fyrirtækinu. Það var svo að heyra á þessum hv. þm. að skattalögin væru þannig að engar skorður væru við því settar að menn gætu valsað með fjármuni fyrirtækja þannig að þeir rugluðu saman almennum rekstrarútgjöldum og persónulegri eyðslu eða neyslu. Nú er þetta alls ekki svo.

Ég átta mig ekki alveg á því hvernig maður á að hefja þessar umræður. Á maður að minna á að þessi lög voru sett 1978 að stofni til? Þau voru mjög vel unnin á þeim tíma. Ég man ekki hvort þessi lög voru afgreidd á einu þingi, herra forseti, eða hvort það tók tvö þing, en ég man að það var lögð mjög mikil vinna í þessi lög um tekju- og eignarskatt. Þau voru talin mun fyllri og betri en þau lög sem áður höfðu verið og eitt meginmarkmiðið með lagabreytingunni var það að fækka frádráttarliðum til þess að auðvelda framtöl og eftirlit með framtölum. Síðan þetta gerðist hafa - náttúrlega ekki Kvennalistinn - bæði Alþfl. og Alþb. átt fjmrh. og borið pólitíska ábyrgð á skattamálum. Ég hygg að formaður þingflokks Alþb. hafi verið fjmrh. á sínum tíma og ég held að ég fari rétt með það að annar þingflokksformaður Alþfl. hafi verið fjmrh. á sínum tíma. (JBH: Í starfsstjórn.) Í starfsstjórn, já. Ég held m.a.s. að sá formaður þingflokks Alþfl. sé einmitt mikill persónulegur vinur formanns Alþfl. nú. Ég held að Sighvatur Björgvinsson og Jón Hannibalsson séu góðir og miklir samherjar, samstarfsmenn og vinir að vestan, þannig að ég dreg alls ekki úr því að það sé rétt. En nú segir formaður Alþfl. að þetta hafi verið starfsstjórn. Er hann að halda því fram að í þeirri ríkisstjórn sem var á undan og fyrrv. formaður Alþfl. sat í sem ráðherra, hv. 3. þm. Reykn. - að vísu segir formaður Alþfl. að sú stjórn hafi verið mikið umferðarslys, en ég veit ekki hvort hann er sammála því, hv. 3. þm. Reykn., að hann hafi setið í ríkisstjórn sem bjó við þau skattalög að menn sem stóðu fyrir rekstri fyrirtækja gátu að vild tekið fé úr rekstri fyrirtækjanna og látið í sína einkaeyðslu og þeir hafi getað valsað með fé fyrirtækjanna og kallað risnu fyrir sjálfan sig, það sem voru í raun og veru launatekjur til þessara manna og með þeim hætti svikið fé undan skatti? Trúir formaður Alþfl. því að við höfum búið við þessi lög? Trúir formaður Alþfl. því að það skorti heimildir í lögum til þess að fylgjast með því að ekki séu svik í tafli? (JBH: Trúir ræðumaður á skattsvikaskýrsluna?) Í skattsvikaskýrslunni er ekki kvartað um skort á lagaheimildum í þessum efnum. Það er einmitt tekið fram í skattsvikaskýrslunni að þessi brot séu óheimil, að óheimilt sé að telja persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna rekstrarkostnað. Út á það gengur skattsvikaskýrslan. Hún bendir einmitt á að það sé erfitt að fylgjast með skattsvikum af því tagi. Það er það sem gert er hér í skýrslunni. (JBH: Hún hvetur til lagabreytinga.) Varðandi þetta atriði? Er það? (Gripið fram í: Já.) Já, það hefur nú farið fram hjá mér. Hvar er það í skýrslunni, með leyfi? (SJS: Á bls. 9 neðarlega t.d.

liður 1, 2, 4, helstu ástæður skattsvika o.s.frv.) Helstu ástæður skattsvika eru þær. Skattsvikin eru fólgin í því að einkaneyslan er færð yfir á rekstrargjöld. Það er kjarni málsins. Það stendur í þessari skýrslu og það er talað um það að menn færi óhæfilega risnu á almenn rekstrargjöld fyrirtækja. Það eru skattsvik. Það hafa verið skattsvik á meðan þessi lög eru í gildi og ég hygg að það sé enginn þm. sem líti öðruvísi á það mál. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar frá skattstofum hvað þeir verja miklum tíma einmitt í það að benda forráðamönnum fyrirtækja á að þeir hafi oftekið fé til persónulegrar eyðslu, oftekið fé til persónulegrar risnu.

Við skulum líta bara á örfá dæmi. Við getum t.d. talað um söluskattinn og hvað gerist ef kaupmaðurinn tekur vörur úr sinni verslun, stingur í vasann og greiðir ekki fyrir þær fullu verði heldur lætur það koma fram sem almenna vörurýrnun. Það er ekki aðeins að það séu tekjuskattssvik, heldur eru það einnig söluskattssvik, ef um söluskattsskylda vöru er að ræða, og í þriðja lagi eru það bókhaldssvik ef menn með þeim hætti draga fjárhæðir undan og gera ekki skil við yfirvöld, bæði varðandi tekjuskattinn, varðandi söluskattinn og láta ekki veltu fyrirtækjanna koma fram í bókhaldi sínu. Það er nú hvorki meira né minna. Og þá er spurningin hvernig hægt sé að fylgjast með þessu. Hitt getur svo vel verið að menn geti komið hér upp í pontuna og sagt: Við erum á móti skattsvikum en ríkisstjórnin er svo vond að hún vill skattsvik. Það getur vel verið. En mig langar til að spyrja: Hverju vilja þeir bæta við fleiru í 31. gr. skattalaga, þeir eru komnir hér með tvær greinar, þessir þm. sem þeir telja svona brýnt að fá inn og vilja bæta við 52. gr. sem annars vegar er að skattstjóri skuli gefa út árlega reglur um takmörk skv. þessum tölulið um persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna? Ég hygg að skattstjóri hafi gefið mönnum leiðbeiningar um það hvernig þeir eigi að fylgjast með þessum hlutum. Ég held m.a.s. að það séu pósitíf ákvæði í skattalögum um það að þó svo að einstaklingar geti talið þannig fram að sá sem stendur fyrir rekstri fyrirtækis hafi ekki til hnífs eða skeiðar, þá skal ég samt sem áður reikna honum tekjur af fyrirtækinu eins og maður mundi fá fyrir sambærileg störf ef hann ynni hjá öðrum. Þannig að þar er beint um pósitíft ákvæði að ræða sem ætlað er að vinna á móti skattsvikum. Ef þið flettið upp á 31. gr. skattalaga, þá er þar talað um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri og þar er gerð grein fyrir því hvað megi telja frá. Ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta, upphafið á þessari grein til þess að menn geti glöggt séð, þeir sem ekki hafa kynnt sér lögin um tekju- og eignarskatt, sem ég lái mönnum ekki að gera. Það er flókinn hlutur að setja sig inn í bókhaldslög, kunna að telja fram til skatts og þar fram eftir götunum. En 31. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:

1. Rekstrarkostnað, þ. e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, þar á meðal vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum, og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum.

Til rekstrarkostnaðar telst enn fremur það endurgjald sem manni ber að reikna sér fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem telja ber til tekna skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. Eigi skiptir máli hvort endurgjaldið hefur verið greitt. Hafi það verið greitt skiptir heldur ekki máli hvort það hefur verið greitt í reiðufé, fært á einkareikning, greitt í fríðu eða í hlunnindum eða með vinnuskiptum.“

Ég skal ekki lesa þetta lengra. Þarna er í grófum dráttum mörkuð sú lína hvað telja eigi rekstrargjöld fyrirtækis. Það er öldungis ljóst að skattstjórar landsins hafa reynt að fylgjast með því ef þeir sem standa fyrir rekstri hafa dregið sér fé úr rekstrinum til sinnar einkaneyslu til þess þannig að draga úr rekstrarafkomu fyrirtækjanna, minnka með þeim hætti bókhaldslegan hagnað fyrirtækjanna og að hinu leytinu skjóta sér undan tekjuskatti sjálfir með því að þær tekjur sem þeir þannig fá koma ekki fram. Það er öldungis ljóst að skattstjórar hafa reynt að gera þetta. Það er líka öldungis ljóst að skattstjórar hafa gert og gera mjög alvarlegar athugasemdir við risnureikninga margra fyrirtækja og reyna að fylgjast með því að risnan sé ekki óhæfilega mikil.

Hitt er líka rétt að auðvitað er hægt að fylgjast betur með. Auðvitað getum við fjölgað þeim mönnum sem vinna við skatteftirlit. Auðvitað getum við þyngt refsilög. Auðvitað getum við alltaf fjölgað í lögreglunni. Við getum fjölgað eftirlitsmönnum. Það getum við gert. Við getum líka verið með almennar umbætur í skattamálum og með þeim hætti dregið úr skattsvikum. Við getum líka, segi ég, tekið virðisaukaskatt og með þeim hætti einnig unnið á móti skattsvikum. Það eru ótal leiðir til. Baráttan við skattsvikin er ekki unnin í eitt skipti fyrir öll. Þetta er sífelld barátta. Hún er í öllum þjóðlöndum. Hvar sem er í veröldinni stendur þessi barátta og hún mun standa áfram hér á landi. Það munu líka vera til þm. í flestum eða öllum þjóðþingum veraldarinnar sem munu standa uppi í pontu og reyna að slá sjálfa sig til riddara með því að segja að þeir séu einhverjir frelsisenglar sem einir vilji vera á móti skattsvikum og rugla svo öllu saman af því að þeir nenna ekki að setja sig inn í löggjöfina eða framkvæmd hennar. Þetta er kjarni málsins.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð. En það er öldungis ljóst í fyrsta lagi að skv. núgildandi lögum er óheimilt að telja persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna til rekstrarkostnaðar þess. Það er líka öldungis ljóst að samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að telja risnu til rekstrarkostnaðar nema hún sé í þágu fyrirtækisins. Þetta er hvort tveggja ljóst.