18.12.1986
Efri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

Afgreiðsla mála í efri deild

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekkert nýtt að annir séu á þessum tíma og það er ekkert nýtt að haldnir séu kvöldfundir. Hins vegar erum við öll áreiðanlega sammála um það að reyna að komast hjá því eftir því sem unnt er. Það hefur verið haldinn einn fundur með þingflokksformönnum og forsetum, fyrir fáeinum dögum, þar sem var rætt um þessi mál og skipulagningu vinnunnar. Ég hafði m.a.s. vænst þess að annar slíkur fundur yrði haldinn. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að halda slíkan fund núna og ræða það hvernig menn vinna þessi mál næstu daga. Ekki eru menn að skorast undan sinni vinnu hér en hins vegar er sjálfsagt að hagræða vinnunni og skipuleggja hana þannig sem best má verða og inni í því er auðvitað falið að komast hjá löngum kvöldfundum á hverju einasta kvöldi núna, og að þeir fundir geti farið fram með eðlilegum hætti. Þess vegna held ég að það sé alveg óhjákvæmilegt núna að þingflokksformenn og forsetar ræði þessi mál, og þegar ég segi núna meina ég núna á næsta klukkutímanum.