22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

9. mál, lágmarkslaun

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Mér skilst að menn telji það til hlutverks síns að minna mig á í hvaða þingflokki ég er núna og er hálfundarlegt hjá mönnum að gera ráð fyrir þeim sofandahætti mínum að hafa ekki tekið eftir búferlaflutningum.

Til upplýsingar er mér fullkunnugt um hugleiðingar Jóhönnu Sigurðardóttur og Karvels Pálmasonar um lágmarkslaun sem hluta af löggjöf. En til upplýsingar fyrir þá sem hafa á annað borð vakað svona vel yfir minni velferð vil ég benda þeim á að þingflokkur Alþfl. hefur ekki orðið sammála um eða sett fram neina yfirlýsingu um að það skuli vera pólitík þingflokksins. Þetta hefur verið rætt í þingflokknum og menn komust reyndar að þveröfugri niðurstöðu, þ.e. að þeir gætu ekki á þessu stigi málsins sett fram kröfu um lögbundin lágmarkslaun.

Þetta verður ljóst þeim sem hlusta grannt á ræðu hv. flm. sem lýsir alltaf sjálf í máli sínu mótsögninni í þessum frumvarpsflutningi. Annars vegar viðurkennir hún hinn fulla rétt samningsaðila til að ákveða allt sem viðkemur launum, flytur síðan frv. um þessa einu litlu lagasetningu, en segir svo: Að þessu undanskildu virði ég rétt samningsaðila til að ákveða allt annað. - Ég tel nú fyrir það fyrsta að þetta sé mótsögn í sjálfu sér. Ég teldi þá miklu eðlilegra að flytja frv. til l. um rétt manna til lífeyris eins og hann er reiknaður út af þeim aðilum sem skoða og kanna framfærslukostnað einstaklinga og fjölskyldna. Það væri miklu eðlilegri grunnur vegna þess að sá grunnur er ekki í sjálfu sér ákvörðun löggjafans um að flytja eitt eða neitt úr einum vasa yfir í annan heldur einungis yfirlýsing um ótvíræðan rétt manna.

Aftur á móti hugsa ég að sterkustu andmæli gegn lögum af þessu tagi yrðu endanlega spurningin um hvort þessi lög stönguðust ekki hreint og beint á við það stjórnarskrárákvæði sem kveður á um eignarrétt manna því að hérna er virkilega verið að tala um flutning á eignum í formi peninga. Það er verið að ákveða af löggjafans hálfu að flytja fé úr vasa eins aðila yfir í vasa annars aðila. Löggjafinn tekur enga aðra ábyrgð á þeim flutningum en þá að þetta skuli vera réttur manna sem hafa sannanlega einhverja ákveðna upphæð í laun.

Að mínu viti leysir þetta alls ekki þann vanda sem aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki getað klórað sig fram úr enn þá. Ég tel þvert á móti að þetta mundi auka hann ef nokkuð er. Aftur á móti sýnist mér að lög um rétt fólks til lífeyris væru eitthvað sem löggjafinn gæti fyllilega staðið við og staðið á og samningsaðilar líka, en sé farið inn í samninga með þessum hætti, að setja lög um eitthvert eitt atriði samninga, tætir það alla samningana upp. En að segja síðan: Aðilar vinnumarkaðarins skulu leysa það sem eftir er, það er að segja að engin lausn fæst. Ef menn eru á annað borð búnir að hefja mál sitt á því að segja að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki getað leyst þetta, hvaða líkur eru þá til þess að þeir leysi það eitthvað frekar þegar búið er að setja lög af þessu tagi? Hvaða sannfæring býr þar að baki önnur en sú sannfæring að það sé gott síns eigin málstaðar vegna að lýsa því yfir hér úr ræðustól að maður vilji vera góður við börn og gamalmenni. Flm. er náttúrulega álíka ljóst og mér, tel ég, að þessi lög leysa ekki þann vanda sem flm. vildi gjarnan leysa. Maður gengur a.m.k. út frá því.