19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

1. mál, fjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það að sjúkrahús fara á bein fjárlög breytir í engu rekstrar- eða þjónustuumfangi þeirra og það á ekki að breyta heldur um aðstöðu þeirra sveitarfélaga sem reka sjúkrahús á beinum fjárlögum. Í núverandi kerfi eru sum sjúkrahús fjármögnuð með beinum framlögum af fjárlögum, en önnur af svokölluðu daggjaldakerfi. Það eru greidd daggjöld vegna kostnaðar og síðan halladaggjöld samkvæmt ákveðnum reglum ef kostnaður vegna viðurkennds rekstrarumfangs fer fram úr því sem daggjöldin sjálf hafa mælt fyrir um. Við teljum eðlilegt að hafa sömu reglur um greiðslu á kostnaði vegna sjúkrahúsanna þannig að það sé hægt að slá sömu mælistiku á þennan kostnað og þurfi ekki að beita tveimur mismunandi tommustokkum eftir því hvort sjúkrahús er á beinum fjárlögum eða daggjöldum.

Það er svo, eftir því sem ég best veit, að flest sjúkrahús á vegum sveitarfélaga, eða að ég hygg öll utan Borgarspítalinn, eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar þannig að reikningum þeirra er ekki blandað saman við reikninga viðkomandi sveitarfélaga. Þessu hefur hins vegar verið á annan veg varið í Reykjavík þar sem rekstur Borgarspítalans hefur verið hluti af reikningum borgarsjóðs og hluti af borgarsjóðnum sjálfum, en annars staðar hefur verið um að ræða sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Ég hygg að það sé það sem borgarstjóri hafi átt við í þeim tilvitnuðu ummælum sem hér voru lesin af hv. 3. landsk. þm. sem hér talaði á

undan. Ég lít ekki svo á að sú breytta skipan hafi nein áhrif á ábyrgð Reykjavíkurborgar sem stjórnanda spítalans frekar en varðar ábyrgð annarra sveitarfélaga sem hafa sjálfstætt reikningshald um spítalana. Halladaggjöld eru greidd, þegar halli verður á rekstri sjúkrahúsanna, eftir ákveðnum reglum. Þau hafa verið skert ef teknar hafa verið ákvarðanir sem fara fram úr viðurkenndu rekstrarumfangi eða launaákvarðanir hafa verið teknar umfram það sem almennar launabreytingar segja til um. Þegar um er að ræða bein framlög er farið með það eins og önnur bein framlög ríkisins að þau eru miðuð við viðurkennt umfang rekstrar og þjónustu. Verði almennar verðlagsbreytingar hefur reglan verið sú að það er bætt með aukafjárveitingum hvort sem um er að ræða kostnað við laun eða aðra þætti. Auðvitað verður sama skipan áfram í því efni þannig að rekstri þessara sjúkrahúsa er ekki á neinn hátt stefnt í hættu. Því aðeins að stjórnendur þeirra fari umfram viðurkennt umfang í rekstri og þjónustu getur komið til erfiðleika í þessu efni.

Ég vænti þess að þetta svari fsp. hv. þm. Það liggur sem sagt fyrir að hér er miðað við ákveðið umfang í rekstri og þjónustu. Það er reynt að áætla fyrir því eins nákvæmlega og unnt er. Fari kostnaður við þetta viðurkennda umfang fram úr áætlun er það bætt eftir á eins og um annan rekstur ríkisins. Niðurstaðan er einfaldlega sú að með þessu móti gefst ríkisvaldinu, bæði heilbrigðisyfirvöldum og fjármálayfirvöldum, betra tækifæri til þess að fylgjast með rekstrinum og hafa aðhald að honum, en það er á engan hátt verið að skerða hvorki þjónustu né rekstrarlegt umfang. Þetta er meginniðurstaða þessarar breytingar.