19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

1. mál, fjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það lá við að manni vöknaði um augun við ræðu hæstv. samgrh. vegna umhyggju hans fyrir málefnum sjúkrahússins á Ísafirði og umhyggju hans fyrir sjúklingum sem þar liggja þangað til manni varð allt í einu hugsað til þess að það er varla á þessu ári fyrst sem hann hefur orðið var við það. Eins og hann sagði hefur tekið tólf ár að byggja þennan spítala og hæstv. samgrh. hefur nokkuð komið við ríkisstjórnir undanfarinna ára þannig að manni finnst að hann hefði haft tækifæri til þess áður að knýja á um framgang þessara mála. Ekki skal ég efast um að aðstæðum á spítalanum á Ísafirði er rétt lýst. Það þekki ég reyndar sjálfur líka með eigin augum. Aftur á móti sér maður ekki að þetta geti verið sú óskaplega upphæð sem þarna um ræðir að það hefði ekki mátt taka þetta einfaldlega inn á fjárlög eins og aðra spítala en ekki ganga frá þessu með opinni ábyrgð eins og gert er hér og ávísun á tilviljunina nánast því að hver segir það að komandi ríkisstjórnir séu endilega reiðubúnar að endurgreiða þau lán sem tekin verða hugsanlega á þessa einföldu ábyrgð. Þó skulum við vona það.

Það hefur snjóað yfir mann í dag alls kyns tillögum og fréttum og ég vildi gjarnan, herra forseti, ef mögulegt væri spyrja hæstv. fjmrh. einnar eða tveggja spurninga og gefa honum tækifæri til að hugleiða svör við þeim á meðan ég annars geng frá mínu máli hér. Að vísu hefur eitt af þessum málum, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh., þegar komið að nokkru inn í umræður en mér fundust svör hæstv. ráðh. vera loðin og ekki algjörlega af þeim að ráða hvert hann raunverulega stefndi í því máli sem þar um gat.

Þar var um að ræða þær bætur almannatrygginga sem gert er ráð fyrir í brtt. við fjárlög að hækki og að sögn fjmrh. er þetta til samræmis við þær launahækkanir sem nýverið er samið um. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi hækkun er vanáætluð og held að hún skili ekki tryggingaþegum, þ.e. elli- og örorkulífeyrisþegum, hækkun til jafns við þá hækkun sem láglaunahóparnir fengu og þá er ég að vísa í raun til 79. gr. laga um almannatryggingar, sem hv. 10. landsk. þm. kom að í máli sínu, og veit reyndar að það er ekki algjörlega lagaleg skylda sem bindur ríkisstjórnina í þessu máli en samt sem áður hefur hún valið þá leið að hækka bæturnar til samræmis við þessar umsömdu launahækkanir og þess vegna vildi maður gjarnan fá svör við því hvort þessar hækkanir skila þeim árangri sem til er ætlast. (Forseti: Hæstv. ráðh. er núna í viðtali við Ríkisútvarpið, en það má ætla að hann komi á hverri stundu. )

Fyrsta spurning mín til hæstv. fjmrh. er: Telur hann að sú hækkun sem nú er ráðgerð á bótum tryggingaþega, þ.e. elli- og örorkulífeyrisþega, sé ekki vanáætluð? Vegna þess að hæstv. heilbrmrh. er ekki í þinginu og hefur ekki verið hér í kvöld og mér er sagt að ekki sé von á hæstv. utanrrh. hingað vildi ég í öðru lagi fá að heyra úr munni hæstv. fjmrh. hvort heilbr.- og trmrh. er samþykkur þeirri upphæð sem fjmrh. gerir ráð fyrir í þessari hækkun til tryggingabótanna og hvort hæstv. ráðh. telur að þessi hækkun sé algjörlega til jafns við þá hækkun sem láglaunahóparnir fengu núna í síðustu samningum.

Í öðru lagi kannske minni háttar spurning: Á þskj. 459 eru brtt. við frv. til fjárlaga frá meiri hl. fjvn. Þar er brtt. við 6. gr. , nýr liður 3.35. Þar er lagt til að fella niður vexti og viðurlög vegna ógreiddra opinberra gjalda Arnarflugs hf. til þess tíma er gengið

hefur verið frá samkomulagi um endurgreiðslu þessara gjalda samkvæmt 2. gr. laga nr. 53 1986, 3. tölul., um málefni Arnarflugs hf. „Heimilt skal jafnframt að breyta í lán skattskuld félagsins frá gildistöku fyrrgreindra laga fram til þess tíma að ríkisábyrgð er afgreidd.“ Ég bið hæstv. ráðh. ef það er ekki til of mikils mælst að þýða þessa setningu að einhverju leyti á mælt mál og þá þannig að fram kæmi hvaða upphæðir er þarna um að ræða.

Eins vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. þeirrar samviskuspurningar hvort það hafi virkilega ekki verið rætt enn þá í þessari ríkisstjórn að losa ríkið við rekstur þess guðsvolaða fyrirtækis sem Skipaútgerð ríkisins er. Þegar ég kom fyrst á þing fyrir þremur árum var framlag ríkissjóðs til þessa fyrirtækis um 50 millj. og fór upp í 80 millj. minnir mig. Á næsta ári var framlagið 100 millj. og fór í guð veit hvað. Núna er framlagið 143 millj. og á eftir að fara í guð veit hvað.

Um þetta segir í athugasemdum með frv. til fjárlaga: „Síðustu fimm árin hefur orðið mikil endurnýjun á skipakosti fyrirtækisins auk þess sem ný vöruskemma var byggð við Reykjavíkurhöfn og tekin í notkun í október 1982. Þessar fjárfestingar voru að mestu fjármagnaðar með erlendum lántökum. Á undanförnum árum hefur greiðslubyrði fyrirtækisins af lánum verið mjög þung og hefur ríkisframlagið að mestu gengið til að mæta henni. Forsendur frv. fela í sér að rúmlega 83% ríkisframlagsins fari til að mæta afborgunum og vöxtum af lánum samanborið við um 77% í ár.“

Segjum sem svo að ríkið vildi halda úti þessum rekstri. Þá skil ég ekki hvers vegna menn telja nauðsynlegt að halda úti þessum miklu fjárfestingum, a.m.k. þeim sem framkvæmdar voru við Reykjavíkurhöfn, þar sem örugglega væri hægt að kaupa þá þjónustu, þ.e. bæði löndunar-, umskipunar- og geymsluþjónustu sem þar fer fram, af Eimskipafélaginu inni í Sundahöfn og nýta þar hafnaraðstæðurnar betur en gert er í dag.

Við vitum að þessar fjárfestingar eru ekki bara vegna vöruskemmunnar heldur er um að ræða líka þá miklu endurnýjun sem talað er um á skipakosti fyrirtækisins sem greinilegt er að fyrirtækið á ekki nokkra möguleika nokkurn tímann að standa undir því að framlagið frá ríkissjóði til þessa fyrirtækis fer sífellt hækkandi. Nú veit ég að þetta eru síðustu fjárlög sem hæstv. fjmrh. fjallar um a.m.k. í bili, en hvers vegna hafa menn ekki hugsað til þess að leggja þetta fyrirtæki niður, selja það eins og kallað er stundum þegar mikið ber við, og eiga þá þessa peninga til góða sem eytt er á hverju ári í þetta fyrirtæki? Ég segi „eytt“ vegna þess að tilfellið er að það er hægt að sanna það, að vísu kannske í lengra máli en ég nenni að fara út í, að þetta fyrirtæki stendur öðrum miklu hagstæðari flutningum hreinlega fyrir þrifum. Þessi þjónusta er alls ekki góð þó að reynt hafi verið að bæta hana. Hún er bæði stopul og óáreiðanleg. Og þau framlög sem hér er verið að eyða úr ríkissjóði í þetta fyrirtæki vantar hreinlega í vegakerfi landsins þar sem mætti bæta flutningsþjónustuna enn betur en hefur verið gert og kannske koma öllum þeim byggðarlögum, sem enn þann dag í dag eru nánast úr vegatengslum við menninguna stóran hluta ársins, í það samband við umhverfið að þessara flutninga væri hreint og beint alls ekki þörf, a.m.k. ekki að meira ráði en það að þeim mætti þjóna af öðrum aðilum.

Í kvöld fréttum við að verið væri að ganga frá sölu Borgarspítalans enn eina ferðina. Hv. formaður þingflokks Framsfl. hefur reyndar gert bréfi því sem forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmrh. sendu borgarstjóranum í Reykjavík, Davíð Oddssyni, í dag nokkuð rækileg skil og gaf því reyndar þá einkunn að bréfið væri mjög í samræmi við pappírinn sem það var vélritað á. Það væri lítið og ómerkilegt. Þ.e. hann vildi halda því fram að í þessu bréfi væri nánast ekkert sagt. Það kann vel að vera að það sé rétt. Að vísu stendur ekkert annað hér en að með þessu bréfi viljum við, svo ég leyfi mér að vitna í bréfið með leyfi hæstv. forseta, „ítreka að það er fullur vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna til þrautar þegar eftir áramót að ganga frá samningi um þetta mál við Reykjavíkurborg. Náist samkomulag mun nauðsynlegra lagaheimilda til þess að tryggja framgang þess aflað þegar eftir að Alþingi kemur saman á nýju ári.“

Þetta er í orði kveðnu a.m.k. ekkert annað en vingjarnleg viljayfirlýsing af hálfu yfirvalda ríkisins til yfirvalda Reykjavíkurborgar og hugsa þau þá kannske til þess þessa stundina að þau standa í samningum við títt nefndan borgarstjóra um að hann reyni að halda aftur af stofnunum þessarar borgar við hækkun á gjaldskrám og gæti hugsast að það yrðu þar einhvers konar hagsmunaleg viðskipti, að þar kæmi greiði fyrir greiða. En ekki skal ég fara að gera því allt of mikið skóna. Við skulum sjá hvað upp úr þessum samningum kemur. En eitt er víst að borgarstjórinn í Reykjavík túlkar þetta bréf þannig að hann sé sama sem búinn að selja spítalann. Það kom glögglega fram bæði við umræðu um fjárlög borgarinnar í dag og í þeim fréttum þar sem borgarstjórinn var inntur eftir þessu bréfi.

Nú fór þetta mál þannig af stað að borgarstjórinn í Reykjavík mótmælti því að spítalinn yrði settur á föst fjárlög. Og hvers vegna gerði hann það? Jú, undanfari þeirra atburða er sá að mánudaginn 8. des. hélt stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar fund og samþykkti eftirfarandi ályktun sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar ítrekar mótmæli sín við áformum um að flytja Borgarspítalann á föst fjárlög og vísar til bókana stjórnarinnar frá 12. sept. og 24. okt. s.l. sem samþykktar voru samhljóða. Stjórnin heitir á ráðherra og alþingismenn að virða þau sjónarmið sem þar koma fram. Ef Borgarspítalinn verður settur á föst fjárlög hefur það í för með sér verulega fjárhagslega áhættu fyrir borgarsjóð. Í fjárlagafrv. fyrir 1987 er t.d. gert ráð fyrir fjármagni til reksturs Borgarspítalans sem ekki dugir til reksturs allt árið.“ - Sem ekki dugir til reksturs. Þetta voru, eins og kemur fram í þessari ályktun, aðilar stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar búnir að bóka tvívegis, bæði þann 12. sept. og þann 24. okt., og í bókuninni 24. okt. segir m.a.:

„Þær upphæðir, er greinir í fjárlagafrv., geta engan veginn staðið undir eðlilegum rekstrarkostnaði Borgarspítalans, sbr. ákvæði almannatryggingalaga um greiðslu reksturskostnaðar sjúkrahúsa. Það er því alveg ljóst að ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga þýðir það verulegan niðurskurð á þjónustu Borgarspítalans og fjárhagsleg áhætta Reykjavíkurborgar eykst að sama skapi. Tölur fjárlagafrv. næsta ár eru lægri en áætluð rekstrarniðurstaða ársins 1986 og aðeins u.þ.b. 12% hærri en niðurstöður rekstrarreiknings 1985 þrátt fyrir aukningu á starfsemi spítalans. Af þessu er augljóst að tölur frv. eru óraunhæfar og þessum áformum harðlega mótmælt.“

Nú er það svo að þegar borgarstjórinn í Reykjavík mótmælir því að spítalinn sé settur á föst fjárlög segir hann nánast í sömu mund að ef af því verði vilji hann ekki taka þá áhættu sem þeim rekstri verði samfara og krafðist þess að ríkið yfirtæki spítalann, keypti spítalann. Svona í framhjáhlaupi má hugleiða að viðhorf borgarstjórans í Reykjavík til borgaranna í Reykjavík koma hér fram óneitanlega með dálítið undarlegum hætti. Borgarstjóranum í Reykjavík þóknast ekki að reka þennan spítala ef hann ekki getur gengið í ríkissjóð að rekstrartekjum að vild, eins og maður gæti sagt. Ef hann er settur á föst fjárlög nennir hann ekki að reka þennan spítala og hann segir að honum sé alveg sama hvernig þjónustu þessa spítala er háttað þó að því sé spáð af þeim mönnum sem gleggst vita að hún muni örugglega dragast saman ef spítalinn verður ríkisspítali. Aðalatriðið er að losna við þessa áhættu, eins og hann kallar.

Nú er komið í ljós að í brtt. á þskj. 418 frá fjvn. segir í 31. lið við 4. gr.: Borgarspítalinn í Reykjavík, almennur rekstur. Fyrir „1 milljarð 297 millj. 251 þús.“ kemur: 1 milljarður 319 millj. 251 þús.“ Í brtt. á þskj. 458 við frv. til fjárlaga frá fjvn. eru þessar hækkanir, sem þarna er gert ráð fyrir, sundurliðaðar og eru þá bæði til almenns rekstrar, viðhaldsverkefna og stofnkostnaðar.

Ég fæ ekki betur séð en að meginröksemd borgarstjórans í Reykjavík fyrir því að vilja losa sig við spítalann sé hér með fallin og krafan um kaup ríkisins á spítalanum þar með ekki lengur réttlætanleg, en af fréttum kvöldsins í kvöld að dæma virðist borgarstjóranum í Reykjavík enn þá vera mjög umhugað um að losna við spítalann og skiptir hann þá engu þó að Reykvíkingar verði með þeirri gerð að borga þennan spítala að stórum hluta í annað sinn því að Reykvíkingar eru náttúrlega skattborgarar þessa lands eins og aðrir og í miklum meiri hluta og taka þess vegna drýgri þátt sem heild í því að greiða verð þessa spítala en aðrir skattþegnar.

Nú held ég, herra forseti, að það verði að rifja upp fyrir mönnum hvað hefur verið sagt um þessar fyrirætlanir af hinum ýmsu aðilum sem þetta mál snertir. Mánudaginn 1. des. s.l. lögðu fulltrúar starfsmanna í stjórn sjúkrastofnana t.d. fram eftirfarandi bókun og ég les þá bókun, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúar starfsmanna í stjórn sjúkrastofnana mótmæla harðlega öllum ráðagerðum um sölu Borgarspítalans. Þeir hvetja borgarstjórn Reykjavíkur til eindreginnar andstöðu gegn söluáformum og að öllum ráðum verði beitt til að tryggja áframhaldandi eignarhald og rekstur Reykjavíkurborgar á spítalanum til heilla fyrir íbúa Reykjavíkur. Jafnframt eru þingmenn Reykjavíkur beðnir að standa vörð um spítalann og að tryggja rekstur hans sem eign Reykvíkinga.“

Í Dagblaðinu þann 10. des. s.l. skrifar dálkahöfundur eftirfarandi:

„Það segir sína sögu að fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hefur óskað eftir fundi með borgarstjóranum og formanni Sjálfstfl. sem er jafnframt fjmrh.“ - Bragð er að þá barnið finnur.

„Fulltrúaráðið hefur hingað til ekki haft önnur afskipti af Davíð borgarstjóra heldur en að klappa fyrir honum á fundum, kjósa hann í kosningum og hlæja að bröndurunum hans. Og af því að fulltrúaráðið var búið að hlæja sig máttlaust að framsóknarbrandaranum um sölu Borgarspítalans getur það reynst erfitt fyrir þetta sama fulltrúaráð að rétta svo upp hendurnar með spítalasölunni áður en hláturkrampinn er liðinn hjá.

Nú verður að segja eins og er að Davíð borgarstjóri hefur verið nokkuð farsæll í fasteignakaupum sínum. Hann hefur keypt Ísbjörninn fyrir lítið og hann fékk Nesjavelli nánast gefins. Um daginn keypti hann svo Völundarhúsin við Skúlagötu fyrir spottprís og um sama leyti gaf hann Íslenska bókmenntafélaginu og vinum sínum í fasteignabransanum myndarlega lóð við Lækjargötu. Fleira „smotterí“ hefur borgarstjórinn eflaust keypt sem ekki er orð á gerandi, enda kemur borgarbúum það yfirleitt ekki við þótt borgarstjórinn kaupi húseignir og fyrirtæki þegar illa stendur á hjá kjósendum flokksins. Í staðinn fyrir að kaupa atkvæði eins og sumir lítilþægir pólitíkusar gera kaupir borgarstjórinn fasteignir. Og þannig er hægt að tryggja sér atkvæðin hjá fyrrverandi eigendum með því að skera þá niður úr snörunni þegar allt er að fara á hausinn. Maður var jafnvel hálfhissa á því hvers vegna borgin keypti ekki Hafskip á sínum tíma eða Olís um daginn. En illar tungur segja að þeir Hafskipsmenn hafi ekki verið nægilega vel ættaðir og hjá Olís hafi ekkert verið til sölu nema skuldirnar. Borgin kaupir ekki skuldir af illa ættuðu fólki.

Það er eins í fasteignabransanum og öðrum viðskiptum að það er ekki bara hægt að kaupa, menn verða líka að selja. Þess vegna er það nú á dagskrá að selja Borgarspítalann, enda mun borgin ekki ráða yfir neinni annarri byggingu sem er jafnstór og dýr og spítalinn né heldur er hægt að selja jafnmarga hausa í einu.“ - Til innskots vil ég nefna að ég tel að þetta sé alls ekki með öllu rétt. Reykjavíkurborg á aðrar og miklu, miklu stærri eignir sem hún gæti auðveldlega losað sig við eftir sama módeli og hér er verið að ræða um.

Stærsti eignaraðili Landsvirkjunar t.d. er Reykjavíkurborg og ég fæ ekki séð að það skaðaði Reykvíkinga nokkuð þó að þeir seldu Landsvirkjun ríkinu. Kaupverðið yrði hátt, tekjur Reykjavíkurborgar miklar. Það mætti lækka útsvör Reykvíkinga heilmikið við þessa sölu við fyrstu sýn. Við stöndum reyndar aftur þarna frammi fyrir sama vanda og ég lýsti áðan í sambandi við Borgarspítalann að Reykvíkingar eru nálægt því að vera helmingur þjóðarinnar, þ.e. höfuðborgarsvæðisbúar, og þeir væru þar með að taka þátt í því að hluta til alla vega að borga Landsvirkjun upp á nýtt þannig að það er hætt við því að útsvarslækkunin yrði ekki eins mikil og tölurnar í þessu söludæmi gæfu til kynna því að viðskipti af þessu tagi eru einfaldlega ekki rökrétt. Og ég held að seint næðust þeir samningar að hin kjördæmin sjö keyptu Landsvirkjunarhlutann eða hlutinn af Reykjavík.

Nú segir þessi dálkahöfundur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef þetta mál er skoðað pólitískt er þessi hugmynd alls ekki svo vitlaus“, þ.e. að selja Borgarspítalann. „Líflíkur sjúklinga fram yfir næstu kosningar hljóta að vera miklum mun minni heldur en hjá heilbrigðu fólki utan sjúkrahúsanna og þess vegna gerir það minna til þó nokkur hundruð sjúklingar séu seldir á einu bretti. Þannig er framsóknarbrandarinn að verða að veruleika hvort sem það verður ríkissjóður eða starfsmenn spítalans sem kaupa af Davíð. Næst ætti borgarstjórinn að selja skólana til kennaranna. Svo getur hann selt strætisvagnana til farþeganna og Félagsmálastofnunina geta einstæðar mæður keypt eftir áramótin. Hvað eru menn eiginlega að kvarta?"

Um vilja framsóknarmanna í Reykjavík hefur verið spurt og greinilega kemur fram að það eru ekki margir hér á hv. Alþingi sem lesa flokksmálgagn framsóknarmanna, Tímann, en þar kemur þann 6. des. á þessu ári fram skoðun framsóknarmanna á þessu máli. Þeir segja:

„Rekstur Borgarspítalans er þungur baggi á borgarsjóði. Halli á rekstri spítalans sem af er þessu ári er 150 millj. umfram greiðsluáætlun.“

Auðvitað er þetta rakið bull því að Reykjavíkurborg greiðir alls ekki þennan halla heldur er það greitt úr ríkissjóði með vöxtum. En áfram segja framsóknarmenn:

„Það er ekki sanngjarnt að eitt sveitarfélag þó fjölmennt sé taki á sig að fjármagna stórfelldan halla á Borgarspítalanum þar sem Reykvíkingar standa að sínum hluta til jafns við aðra landsmenn undir öðrum spítalarekstri í landinu.“

Auðvitað gildir það sama um alla landsmenn og segir þetta okkur ekkert annað en það að framsóknarmönnum gengur oft mjög erfiðlega að hugsa rökrétt. Þessi umræða hefur farið æðimikið á skjön að því leyti að menn tala um ríkið og borgina eins og einhvers konar sjálfseignarfyrirtæki án aðildar þeirra tugþúsunda manna sem bera þessi stóru fyrirtæki uppi og eru hinn eiginlegi rekstraraðili.

Ólafur Örn Arnarson yfirlæknir á Landakotsspítala skrifar grein í Morgunblaðið föstudaginn 5. des. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík hefur hingað til ekki getað treyst á algera forsjá ríkisins í þessum efnum," og er hann þá að tala um heilbrigðismál, „ekki síst með tilliti til kjördæmaskipunar landsins og áhrifaleysis höfuðborgarinnar á löggjafann. Því má segja að frá fjárhagslegu skammtímasjónarmiði gæti verið réttlætanlegt að draga saman seglin á þessu sviði, en að öllu öðru leyti er mikil áhætta fólgin í þessari ákvörðun fyrir borgarbúa.“

Sami maður bendir á, eins og reyndar nokkrir aðrir hafa gert, þann hugtakarugling sem ég minntist á áðan. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður fyrr var tryggingarhugtakið alls ráðandi á þessu sviði. Menn borguðu iðgjöld til sjúkrasamlaga og síðar almannatrygginga og þetta þótti góð fyrirhyggja. Á tíma vinstri stjórnarinnar 1972 var þessu breytt og nú skyldi greitt fyrir þjónustuna beint úr ríkissjóði. Síðan hafa menn ruglað hlutunum dálítið og segja að ríkið borgi þetta allt og því sé öll heilbrigðisþjónustan í raun ríkisrekin þó rekstrarfyrirkomulagið sé með ýmsu móti. Þetta er álíka og segja að öll réttingaverkstæði á landinu séu rekin af tryggingafélögunum vegna þess að bifreiðatryggingarnar borgi kostnað við viðgerðirnar eða að öll verktakafyrirtæki sem vinna að vegaframkvæmdum séu rekin af ríkinu vegna þess að fjárframlögin koma af fjárlögum. Ég vil líta svo á“, segir þessi greinarhöfundur og ég er honum algerlega sammála, „að ýmsar stofnanir og einstaklingar sem vinna í heilbrigðiskerfinu séu nokkurs konar verktakar sem fá greitt fyrir sína þjónustu eftir samningi úr okkar sameiginlega tryggingasjóði. Þess vegna er fráleitt að halda því fram að ríkið þurfi sjálft að reka alla þjónustuna.“

Þetta er hárrétt. Spítali, alveg sama hvaða spítali er, er þjónustustofnun. Þar er veitt ákveðin þjónusta. Hún kostar ákveðið. Verðið á þessari þjónustu verður til í samningum milli þeirra aðila sem annars vegar bera ábyrgð á fjárveitingunum og hins vegar bera ábyrgð á rekstrinum. Það er sama hvort það heitir daggjöld eða fjárlög. Það verða alltaf að fara saman raunhæfar áætlanir um rekstur og raunhæf framlög úr þeim sjóðum sem þessa þjónustu borga. - Ég þykist nokkuð viss um að það verði að teljast fyllilega eðlilegt þó að menn dragi ýsur bæði undir þessum ræðuhöldum og líka vegna þess að nú er aðeins farið að örla fyrir næsta morgni.

Herra forseti. Á fundi þann 10. des. s.l., hlutirnir ganga nú hratt fyrir sig, komu saman læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og borgarar á fund í Gamla bíói við Ingólfsstræti til að mótmæla sölu áformum um Borgarspítalann. Í lok þessa fundar var samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Almennur borgarafundur haldinn í Íslensku óperunni 10. des. 1986 ályktar eftirfarandi: Fundurinn mótmælir harðlega þeirri aðför að íslensku heilbrigðisþjónustunni sem felst í tilraunum til þess að selja Borgarspítalann og steypa honum saman við ríkisspítalana og mynda þannig eitt stórt miðstýrt heilbrigðisbákn sem ekki mun ná því markmiði að auka hagræðingu í rekstri né bæta þjónustu við sjúklinga. Fundurinn skorar á heilbrigðisyfirvöld að tryggja sjálfstæði Borgarspítalans í framtíðinni til að tryggja borgarbúum og landsmönnum öðrum áframhaldandi góða heilbrigðisþjónustu sem fyrr.“

Sama dag álykta Læknafélag Íslands og stjórn Læknafélags Reykjavíkur. Í ályktun stjórnar Læknafélags Íslands segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á liðnum árum hafa sjúkrahús landsins barist í bökkum fjárhagslega og búið við umtalsverðan rekstrarvanda. Augljóst er að fjárlagafrv., ef samþykkt verður, eykur þann vanda á næsta ári og leiðir óhjákvæmilega til niðurskurðar á starfsemi sjúkrahúsanna og þá væntanlega einnig til lakari þjónustu. Mótleikur ríkisvaldsins fólginn í aukinni miðstýringu sjúkrahúsanna er blekking sem breytir engu. Stjórn Læknafélags Íslands átelur einnig þann leikaraskap að gera Borgarspítalann að söluvöru svo og það sjónarspil að láta að því liggja að sú lausn ein leysi alsteðjandi rekstrarvanda.“

Nú er líka komið í ljós, hæstv. forseti, eins og ég gat um hér áðan, að þessi röksemd fyrir sölu spítalans er fallin þannig að það hljóta að liggja einhverjar aðrar og þá annarlegri hvatir fyrir því að hæstv. borgarstjóri vill selja hann.

Enn fremur segir í þessari ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Læknafélags Íslands er þess fullviss að landsmenn óska ekki eftir niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni og er þar með talin þjónusta sjúkrahúsanna.“

Það þarf kannske ekki mikla skarpskyggni til að taka undir þessi orð því að auðvitað gera allir sér ljóst að heilbrigði sitt eiga þeir að mjög miklu leyti undir krónum og aurum. Í ályktun stjórnar Læknafélags Reykjavíkur er lýst yfir andstöðu við fyrirhugaða sölu á Borgarspítalanum og mótmælt að meiri háttar stefnumarkandi ráðstafanir séu gerðar án þess að leitað sé álits læknanna og annarra starfsmanna spítalans. Í þessari ályktun segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, að ekki hafi verið sýnt fram á að þessi ráðstöfun leiði til aukinnar þjónustu við borgarbúa og aðra landsmenn eða leiði til sparnaðar í rekstri spítalans. Þar að auki sé sala spítalans skref í átt til aukinnar miðstýringar á sama tíma og aðrar þjóðir eru að stefna að valddreifingu í spítalarekstri. Að auki sé hætt við að sameining Borgarspítala og Landspítala dragi úr faglegu aðhaldi og heilbrigðum metnaði milli stofnana.

Ég gæti, hæstv. forseti, þulið nánast endalaust upp orð þeirra mörgu manna sem mótmælt hafa sölu Borgarspítalans. Ég fullvissa hæstv. forseta um að ég er bara meira og minna að grípa niður í örfá sýnishorn þeirra ummæla sem fram hafa komið um þetta mál. Í Dagblaðinu þann 6. des. s.l. er grein sem rituð er af Kristni Guðmundssyni, yfirlækni heila- og taugaskurðdeildar Borgarspítala Reykjavíkur, sem er sú eina sinnar tegundar hér á landi og tiltölulega nýtilkomin. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú skal selja Borgarspítalann vegna þess að hann fer á föst fjárlög. Þar með ætla borgaryfirvöld að afsala sér forustuhlutverki sínu. Hér er um mikla stefnubreytingu að ræða sem borgarbúar ættu að íhuga nánar áður en af verður. Starfsfólk spítalans sér ekki nauðsyn þessarar sölu. Það hefur farið fram á að fá að taka að sér reksturinn. Vísast er þó að spítalinn verður gerður að einhvers konar ríkisstofnun, annaðhvort sjálfstæðri eða undir stjórn ríkisspítalanna. Yfirtaka ríkisins á rekstri spítalans, ef af verður, er illa undirbúin. Enn veit enginn hvað við tekur. Það er ekki vitað um neinar ákveðnar hugmyndir eða ákvarðanir um hvað gera eigi. Ekkert hefur verið rætt við stjórn spítalans eða yfirlækna um þetta mál og ekki heldur hinna spítalanna. Það mætti segja mér að forráðamönnum þeirra þyki þetta ekki lítið vandamál. Ef af samruna Borgarspítalans og Landspítalans yrði tæki það mörg ár. Það er ekki hægt að flytja fólk og deildir til að vild.“

Ég vil skjóta hér inn í, hæstv. forseti, að það sem þessi yfirlæknir er hér með að segja er það að eitt er það að borga Borgarspítalann, þ.e. kaupa Borgarspítalann. Hitt er það að greiða allan þann kostnað sem af því verður að sameina þessi fyrirtæki stjórnunarlega.

„Vafasamt er“, segir áfram með leyfi hæstv. forseta, „að af því yrði mikill sparnaður. Hér er um að ræða stórar stofnanir þar sem vinnur fjöldi fólks. Fara þarf varlega ef ekki á að gera meiri skaða en gagn. Auðvitað getur viss hagræðing verið til bóta, en til þess þarf fyrst og fremst trausta og ákveðna stjórn heilbrigðisyfirvalda sem væri gerkunnug heilbrigðismálum og hefði fullt traust heilbrigðisstétta. Okkur finnst hugur borgarstjóra í garð spítalans ekki góður“, segir þessi greinarhöfundur. „Það kom fram í sölu Hafnarbúða þrátt fyrir mótmæli, sölu spítalans sjálfs, ummæli hans í tilefni af svokallaðri „svartri skýrslu“ sem birtist fyrir nokkru og nú síðast ummæli hans um lóð spítalans. Þá fannst okkur heldur ekki góður hugur ríkisins sem ætlar að svelta spítalann á fjárlögum næsta árs svo að skiptir hundruðum milljóna.“

Einnig, herra forseti, held ég að ekki væri úr vegi að lesa úr leiðara næstútbreiddasta blaðs landsins, skrifuðum fimmtudaginn 11. des. af ritstjóra þess, Jónasi Kristjánssyni. Þessi leiðari ber fyrirsögnina „óhóflegt sjálfstraust“ og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilraun Davíðs Oddssonar til að selja ríkinu Borgarspítalann felur í sér ýmis mistök. Önnur af tveimur þeirra alvarlegustu er að vanmeta almenna andstöðu reykvískra flokksbræðra sinna gegn útþenslu ríkisbáknsins. Sú andstaða hefur skýrt komið fram í vikunni.

Margir stuðningsmenn Sjálfstfl. spyrja hvers vegna borgarstjóri þeirra hafi skipt um skoðun frá því í kosningunum og tekið upp á sína arma kosningamál Framsfl. sem hann gerði þá grín að. Fólk telur Davíð ekki sjálfum sér samkvæman.

Hin stóru mistökin eru ekki síður alvarleg. Þau eru að klúðra málinu svo að það nái tæpast fram að ganga. Kjósendur Davíðs taka nefnilega í mesta lagi einn hlut fram yfir hugsjónina „gegn ríkisrekstri“, það er að forustumönnum þeirra takist sæmilega að ná sínu fram. Svo virðist sem borgarstjórinn hafi verið svo fullur sjálfstrausts að hann hélt að hann gæti upp á sitt eindæmi selt Borgarspítalann án þess að tala við kóng eða prest, hann þyrfti ekki samþykki borgarstjórnar og enn síður samráð við fjölmennt starfslið sjúkrahússins. Sennilega hefur Davíð miklast af því hve auðvelt honum hefur reynst hingað til að taka mikilvægar ákvarðanir á borð við að afhenda fasteignasölu lóð í miðbænum og kaupa lóðir og lönd af gömlum vinum flokksins. Loksins fór svo að hann kunni sér ekki hóf. Þá hefur hann ofmetið getu ráðherra til að kaupa Víðishúsið og mjólkurstöðvar fram hjá fjárlögum og án nokkurra heimilda. Það fór líka svo að fyrirhuguð kaup á Borgarspítala fóru um mark hins mögulega að mati hluta þingflokksins sem mótmælti á kvöldfundi. Davíð situr nú uppi með að hafa meira eða minna í kyrrþey reynt að framkvæma stefnu Framsfl. án þess að flokksbræður hans í ríkisstjórn geti leyft sér að kaupa. Hann er ekki lengur sá kraftaverkamaður er nær öllu fram sem hugurinn girnist.

Þingmenn Framsfl. hafa af eðlilegum ástæðum tekið vel í söluna og vitnað til þess að upprunalega hafi hún verið kosningamál reykvískra framsóknarmanna“, en það má reyndar benda á að fram kom í máli hv. þingflokksformanns Framsfl., 2. þm. Norðurl. v., í kvöld að framsóknarmenn hafa ekki minnsta áhuga á að kaupa Borgarspítalann, en þeir gætu vel þegið að fá hann gefins og það finnst manni þó öllu skynsamlegri afstaða hjá þeim sem gæta fjárhirslu ríkisins. „Hins vegar hafa þingmenn Sjálfstfl. fundið hina eindregnu óánægju sinna manna. Margt má læra af þessu. Eitt er að skyndisókn gengur ekki nema hún sé framkvæmd af sama hraða og kaupin á Olísbréfunum. Ef þau hefðu tekið meira en helgi hefðu þau verið stöðvuð alveg eins og Davíð hefur nú verið stöðvaður af því að hann var of seinn. Annað er að ekki er gulltryggt að einræðisaðferðir nái alltaf árangri þótt þær takist nokkrum sinnum. Jafnvel borgarstjórar og ráðherrar verða að sæta því að völd þeirra eru ekki fullkomin. Svo getur farið að hefðbundnar lýðræðisleiðir séu gagnlegri.

Flestir sem um Borgarspítalamálið hafa fjallað eru sammála um að Davíð hafi staðið of geyst að málum, enn fremur að málið sé komið í slíkt óefni að affarasælast sé að fresta framkvæmdinni um eitt ár meðan allir málsaðilar séu að ná áttum í því. Um viðskipti með spítala á að gilda hin sama regla og ætti líka að gilda í viðskiptum með Víðishús og mjólkurstöðvar, lóðir í Skuggahverfi og lönd í Grafningi, að heppilegast er að gefa sér tíma til að fara eftir lögum, reglugerðum og ekki síst almennum siðvenjum. Sagt er að allt vald spilli og alræðisvald gerspilli. Við höfum hins vegar séð dæmi um að það getur ruglað valdhafann og valdshyggjumanninn í ríminu“ - og getur maður ekki annað en tekið undir með ritstjóranum að rækilega hefur valdið spillt og ruglað borgarstjórann okkar í Reykjavík í ríminu.

Þessi mál eiga sér auðvitað hliðstæður í margs konar öðrum fyrirhuguðum ríkisrekstri og gæti ég tekið ýmis dæmi, en læt það vera í bili. Það kann vel að vera að þessi umræða teygist eitthvað lengur og þá er gott að geta bent mönnum á, sem ekki vilja ná áttum, aðrar hliðstæður í þessu máli.

Menn geta þó í lokin spurt að því ef af þessum kaupum verður eða þessari sölu, ef menn bera saman hug ríkisins til hinna ýmsu málaflokka sem við höfum núna um að fjalla: Hvernig halda menn að ríkissjóður muni standa að fjárveitingum til Borgarspítalans þegar hann þarf ofan á reksturinn líka að standa undir kaupverðinu? Ef við horfum á hliðstæður eins og t.d. Þjóðleikhúsið sem ekki nær endum saman vegna þess að það þarf að greiða viðhald hússins sem reksturinn fer fram í af rekstrartekjum og húsið er að grotna niður og hrynja nánast saman yfir starfsemina vegna þess að auðvitað stendur rekstur þessarar stofnunar ekki með nokkru móti undir viðhaldi hússins.

Það er ekkert ósvipað með Ríkisútvarpið. Það fékk eyrnamerktar tekjur á fjárlögum til að standa undir fjárfestingum. Þessar tekjur áttu að renna í sérstakan fjárfestingarsjóð og komu rekstri Ríkisútvarpsins ekki nokkurn skapaðan hlut við. Yfirdráttur manna í þessum sjóði núna vegna framkvæmda er um 70 millj. Þær tekjur sem Ríkisútvarpið átti von á á þessu ári voru svipuð upphæð, en reyndin hefur orðið sú að innflutningur á þeim tækjum sem Ríkisútvarpið fær gjöld af hefur orðið svo miklu meiri en menn áætluðu að tekjurnar verða helmingi meiri. En það á líka að nægja um alla eilífð því að það eina sem ríkissjóður ætlar að láta af hendi er það framlag sem hann er ekki búinn að gera skil á enn þann dag í dag, þ.e. framlag þessa árs, en Ríkisútvarpið á ekki að fá neitt á fjárlögum næsta árs af þessum innheimtu gjöldum sem þýðir að nú verða þeir að fara að taka þá peninga úr rekstri sem þarf til að ljúka þeim bráðnauðsynlegu framkvæmdum sem eftir eru við það hús sem þeir eru að byggja hversu skynsamlegt sem mönnum finnst það hús vera. En á mælikvarða skynseminnar hlýtur þó að vera enn þá óskynsamlegra en hitt að láta það hús standa ónotað.

Þess vegna segi ég: Hvernig halda menn að þjónusta Borgarspítalans verði miðað við þetta hugarfar í fjárveitingum? Fyrst ákveða menn upphæðina sem til þessa spítala á að fara og síðan draga menn þar frá þann hluta kaupverðsins sem þeir eru að greiða á hverju ári og spítalinn verður síðan að bjargast með það sem út af stendur.

En hvers væntir maður í raun og veru? Það má kannske segja eitthvað um væntingar manns um orð sem töluð eru af skynsemi. Þá er ég ekki að segja, hæstv. forseti, að sú skynsemi komi af mínum munni fram. Ég hef verið hér að vitna í ýmsa aðila sem talað hafa um málefni Borgarspítalans af mikilli þekkingu og yfirsýn og allir, ég segi allir því að enn þá hef ég ekki heyrt nokkurn mann mæla með sölu þessa spítala, ekki nema ef vera skyldi eina fulltrúa Framsfl. í borgarstjórn, en þó var það ekki nema með hálfum hug að því er virtist.

En hvers vegna skyldi maður halda að stjórnvöld hlustuðu á gagnrýni og tækju tillit til hennar? Nú vitum við t.d. að hér hefur í dag verið mælt fyrir brtt. við fjárlög. Þessar brtt. eru að vísu fyrst komnar fram við 3. umr. Það hefur þegar verið fjallað um þær í ræðum í dag þannig að ég skal ekki hafa um þær langt mál, herra forseti, og mun því bráðlega fara að ljúka máli mínu. En ástæðan fyrir því að þessar tillögur eru ekki komnar fram fyrr er afskaplega einföld því að vinnubrögðin við fjárlagagerðina hafa verið með þeim hætti að það var ekki hægt að setja fram raunhæfar brtt. við fjárlög fyrr en við þessa 3. og síðustu umr. Þangað til höfðu menn ekki á neinu að taka. Þessar tillögur eru ekkert loft. Þær eru frekar einfaldar en mjög áhrifaríkar. Ég undirstrika að þær eru mjög áhrifaríkar því að við höfum heyrt að halli á fjárlögum er núna áætlaður, eins og ríkisstjórn leggur þau fram eða fjmrh., tæplega 3 milljarðar. En ef menn tækju þá gagnrýni sem fram kemur í till. Alþýðuflokksmanna alvarlega og samþykktu þær við afgreiðslu fjárlaga í dag er um þann möguleika að ræða að lækka þennan halla um rúmlega 2 milljarða. 1 milljarður af þessari lækkun hallans, tæplega 1,5 milljarðar, er fenginn með auknum tekjum sem nánast aðallega og eingöngu eru teknar af fyrirtækjum sem vel hafa sloppið undanfarin ár frá því að standa undir samneyslunni með einstaklingum þessa lands og með gjaldalækkun upp á hálfan milljarð. Ekki einasta yrði hallinn ekki nema 650 millj. að þessum tillögum samþykktum heldur yrði lánsfjárþörf ríkisins ekki nema 800 millj. kr. í stað 1700 millj. kr. í erlendum lánum, þ.e. hún lækkaði um 900 millj. kr. Þar með værum við búin að samþykkja fjárlög með mjög skaplegum halla, halla þó, en sá halli er uppsafnaður á vissan hátt á síðustu þrem árum og erfitt að bjarga því öllu við á einum degi, en með því að samþykkja þessar tillögur væri meiri hluti Alþingis að sýna vilja sinn í verki við að standa við gefin fyrirheit um kjarasamninga og verðbólgu og berjast gegn þenslutilhneigingu í þjóðarbúskapnum.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að tala í nokkuð löngu máli um atriði sem snerta e.t.v. ekki beint það frv. sem hér liggur fyrir því ekki hefur verið enn þá lögð fram nein tillaga til heimildar fyrir ríkisstjórnina að kaupa Borgarspítalann, en ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að vara við þessum kaupum á þessum stað og þessari stundu er einfaldlega sú að ég vil reyna af fremsta megni ef mögulegt væri að fyrirbyggja að við stöndum frammi fyrir orðnum hlut í byrjun næsta árs og þá verði aðalröksemdin fyrir samþykkt á heimildum til ríkisins um kaup á þessum spítala sú að búið væri að framkvæma það og Alþingi ætti ekki neinna kosta völ annarra en ljá sitt samþykki, gefa sinn stimpil á gerðir manna einhvers staðar úti í bæ. Það, herra forseti, eru að verða allt of algeng vinnubrögð í löggjöf hér á þingi og fyllilega tel ég tilefni til að vara menn við því að láta slíkt henda oftar en orðið er.