19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. meiri hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 483 hefur verið dreift brtt. frá fjvn. um framkvæmdir á flugvöllum. Ég hlýt að biðja velvirðingar á því að enda þótt þessi fjárlagaliður hafi verið rétt afgreiddur við 2. umr. með 69 millj. og 400 þús. kr. eru verulegar skekkjur í sundurliðun á þessum lið miðað við það sem afgreitt var í fjvn., en afgreiðsla fjvn. á þessum lið var mjög í samræmi við tillögur sem samþykktar voru í flugráði. Ég tel að eðlilegast sé að leiðrétta þessa skekkju með því að afgreiða að nýju þessa sundurliðun eins og hún var afgreidd í fjvn., en það er rétt sem hér kom fram hjá einum ræðumanni að í miklum önnum og kannske stundum helst til þröngum aðbúnaði starfsmanna þingsins geta slíkar skekkjur komið fram. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta efni fleiri orð.

Hér hefur verið rætt nokkuð mikið um t.a.m. eitt atriði í 6. gr. í brtt. fjvn., þ.e. hvað snertir sölu jarðanna Streitis í Breiðdal og Rauðamýri í Ísafjarðarsýslu. Hv. þm. Eiður Guðnason spurðist fyrir um hvort það væri ekki venja að sett væru sérstök lög um sölu jarða og hvort það væri heimilt að selja slíkar fasteignir án þess að um það væru sett sérstök lög. Nú hef ég ekki skoðað það sérstaklega hvað lagafyrirmæli segja um þetta efni. Ég tek þó undir að það er meginregla hér á hv. Alþingi, hefur verið það þann tíma sem ég hef hér setið, að um jarðasölu séu sett sérstök lög. Eigi að síður eru allmörg fordæmi fyrir því að slíkar jarðasölur séu heimilaðar á 6. gr. fjárlaga. Þannig er það t.a.m. í fjárlögum yfirstandandi árs og í fleiri fjárlögum sem ég hef athugað.

Ég vil láta það jafnframt koma fram að ég veit ekki til þess að nokkur annarleg sjónarmið liggi að baki því að þessar till. eru fram bornar við þessa umræðu. Ég held að það megi að fullu segja að það sé tilefnislaust hjá hv. þm. að segja að hér sé um

ósvífin vinnubrögð að ræða. Hitt er svo annað mál að skoðanir geta verið skiptar um hvort hér sé eðlilega að verki staðið eða hvort það eigi að halda strangt í þá reglu að allar fasteignir ríkisins skuli því aðeins seldar að um það séu sett sérstök lög.

Ég leyfi mér að vitna til þess að í fjárlögum þessa árs er á 6. gr. t.a.m. heimild til að selja jörðina Úlfarsá í Mosfellssveit, hluta jarðarinnar Leitis í Mýrahreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu og jörðina Kotmúla í Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu. Í fjárlögum fyrir árið 1985 eru enn fremur slíkar heimildir. Þar er heimild til að selja jörðina Kilá í Áshreppi, þar er einnig heimild til að selja jörðina Úlfarsá í Mosfellssveit og þar er heimild til að selja jörðina Leiti í Mýrahreppi og ganga þá þessar heimildir sumpart aftur í fjárlögum þessa árs.

Þessar heimildir eiga sér eldri fordæmi og ég ætla ekki að þreyta þingheim með löngum lestri á slíkum atriðum, en ég rifja upp að í fjárlögum fyrir 1980, sem samþykkt voru að ég ætla fyrir árslok 1979 og væntanlega á þeirri tíð sem hv. þm. Eiður Guðnason var formaður fjvn., er heimild til að selja prestssetursjörðina Stað í Súgandafirði og verja andvirðinu með tilteknum hætti. (Gripið fram í: Hver er ættaður þaðan?) Einhverja höfum við alþm. hugmynd um það og má vera að þetta fordæmi sé svo gott einmitt þess vegna. En því rek ég þetta hér, án þess að ég sé að stofna til nokkurra deilna um þetta mál, að sýna fram á að fordæmi eru í fjárlögum um efni af þessu tagi þannig að við töldum í meiri hl. fjvn. ekki meinbugi á að taka þessi mál inn úr því þess var óskað.

Ef hv. alþm. eru svo fastir í formum að vilja loka fyrir þessa aðferð til að selja fasteignir í eigu ríkisins væri vafalaust hægt að taka þá reglu upp og synja um heimildir til sölu á fasteignum án þess að um það séu sett sérstök lög.

Því má svo bæta við að í fjárlögum eru alla jafna heimildir til sölu ýmissa fasteigna sem ekki eru bújarðir og miklu fleiri - og hafa verið í mjög langan tíma - slíkar heimildagreinar en eru um sölu bújarða.

Ég ætla að þessar skýringar nægi til þess að sýna fram á að þarna eru ærin fordæmi. Hlýtur þá að liggja í augum uppi að þetta eru ekki alveg sérstök mál. Ég vænti að hv. þm. Eiður Guðnason, sem talaði áðan, taki til greina þau orð mín sem formanns nefndarinnar að ég a.m.k. veit ekki til þess að nein annarleg sjónarmið liggi að baki því að þessar greinar eru settar fram.