20.12.1986
Efri deild: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Við lok þessarar umræðu um lánsfjárlög hlýt ég að minna enn einu sinni á þá meðferð sem er á Framkvæmdasjóði fatlaðra í þessum lánsfjárlögum, og reyndar í fjárlögum núna, þessum reiðhallarfjárlögum eins og þau hafa verið kölluð svo snyrtilega og réttilega. Ég hlýt að harma þessi málalok. (Gripið fram í). Hvað segir hæstv. ráðh.? Nei, ég held að það sé nú ekki, ég held að þetta sé akkúrat fyrir hæstv. ráðh. og aðra slíka sem ætla að njóta þess úr því að þeir leggja svo mikla ofuráherslu á að þessi reiðhöll komist upp.

En varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra þá er hér um tvö atriði að ræða eins og ég hef bent á áður. Í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. í nótt um skerðingu á þessum sjóði þar sem hann rakti þær háu upphæðir sem hafa farið fram hjá sjóðnum samkvæmt þrengstu skilgreiningu núna á síðustu árum, þá hefði ég nú talið að ekki hefði verið ofrausn þó að skerðingin hefði verið felld niður með öllu á næsta ári samkvæmt skilgreiningu ráðuneytisins sjálfs. Til þess hefði þurft litlar 20 millj. kr.

Hitt þykir mér miklu alvarlegra, seinni mgr. 19. gr. um að niður falli óuppgerðar markaðar tekjur vegna ársins 1985 til Framkvæmdasjóðs fatlaðra skv. 2. tölul. 35. gr. laga nr. 41/1983, en það eru tekjur af erfðafjárskatti.

Það er búið að skila aftur af þeirri 41 millj. kr. sem oftekin var í ríkissjóð 22 millj. kr. En það virðist alveg útilokað að hægt sé að skila þessu öllu aftur. Ég var að vona til síðustu stundar að það a.m.k. yrði leiðrétt. Þegar hæstv. fjmrh. reiðir fram upplýsingar, eins og hann gerði í nótt við umræður um fjárlög, um skerðingu þessa sjóðs þegar upplýst er hvernig aðrar upphæðir fara langar leiðir fram úr öllu sem skynsamlegt er og verið er að verja fé til ýmissa heimskulegra framkvæmda og ég ætla ekki að fara að nefna reiðhöllina aftur. Það má nefna margar reiðhallir í þessu frv., flugstöðvar og annað þvíumlíkt þar sem menn svífa áfram á vængjum nægra peninga og (Iðnrh.: Ímyndunaraflinu.) - já, vafalaust svífur hæstv. ráðh. líka á ímyndunaraflinu, ég efast ekki um að hann gerir það stundum. En hann hefur þó a.m.k. haft þá sérstöðu varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra, úr því að hann er að grípa hér fram í þá er best að hann njóti þess sannmælis, að hann hefur viljað skila aftur eins miklu og mögulegt hefur verið af því sem oftekið hefur verið í ríkissjóð af erfðafjárskattinum. Við það hefur hann reynt að standa meðan hann hafði þar ráð. En eins og sagt var í gær, af fjmrh. sem hafa fengist við þessi mál þá mun þessi síðasti vera verstur, verstur þeirra allra. Og hvað varðar þennan lið sérstaklega, þá undrar mig að hæstv. iðnrh. skuli ekki hafa beitt sínum mannúðaráhrifum á hæstv. fjmrh. til þess að knýja hann til að leiðrétta svo augljósan hlut sem þennan.

Það væri hægt að halda langa ræðu um skerðingu þessa sjóðs í gegnum árin og hvaða áhrif það hefur haft og hvaða áhrif það mun hafa á næstu árum alveg sérstaklega. Þróunin er þegar farin að hægja mjög á sér og á eftir að gera það í enn ríkari mæli vegna þeirrar skerðingar sem nú er ár eftir ár. Það ber hins vegar að þakka að menn hafa þó haft nokkurn árangur, fatlaðir sjálfir, af að koma hér saman og vekja athygli á sínum málstað því ég hygg að það hefði lítið þýtt fyrir okkur að flytja brtt. hér í þingsölum ef samtök fatlaðra hefðu ekki tekið sig sjálf til, hótað því að fara í sérframboð ef engin leiðrétting fengist, þannig að m.a.s. hinn stóri flokkur, Sjálfstfl., var farinn að nötra í innviðum sínum og leiðrétti þó þetta sem gert hefur verið, en gat ekki með nokkru móti farið út í það, sem hefði verið mannlegast og eðlilegast, að leiðrétta þetta að fullu. Það hefði kostað ríkissjóð um 40 millj. kr. en skilað í það minnsta 5-6 sambýlum í vistunarneyð fatlaðra á næsta ári.