20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þau vekja óneitanlega athygli nei-in hjá hv. stjórnarþm. við ýmsum brtt. eins og þessari. Þar er ekki um stóra fjármuni að ræða. Við þá fjárlagagerð sem hér er senn að ljúka, þar sem sullað hefur verið saman fjárlögum með milljarðahalla og vinnubrögðin verið þeim hætti að til endema hlýtur að teljast vekur það óneitanlega athygli þegar allt í einu kemur upp smámunasemi af því tagi að hv. stjórnarþm. treysta sér ekki til að samþykkja tæplega 4 millj. kr. hækkun til varnaraðgerða gegn fíkniefnavá. Þeir eru reyndar fleiri athyglisverðir, liðirnir, samanlagt upp á nokkra tugi milljarða kr., til ýmissa velferðarmála sem hv. stjórnarliðar ætla að fella. Það undrar mig á sama tíma og t.d. eina raunhæfa forvarnaraðgerðin sem verið hefur í gangi á vegum Rauða krossins er við það að stöðvast vegna peningaskorts. Það er rekstur neyðarathvarfs fyrir unglinga á vegum Rauða kross Íslands. Þessi atkvæðagreiðsla, ef hún fer svo sem horfir að þessi raunhækkun verði felld, er hneyksli eins og ástandið er í þessum efnum og til háborinnar skammar þegar verið er að afgreiða fjárlög með þeim hætti sem hér er gert. Ég segi já.