13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu neitt verulega. Það hefur flest komið fram í þessu máli hér í dag efnislega. Það sem gerist næst í málinu að lokinni þessari umræðu er það að þingnefnd fær málið til meðferðar og fjallar ítarlega um það og fær upplýsingar inn. Málið kemur svo aftur hér til 2. umr. þar sem gefst þá kostur á því að fara betur yfir þær upplýsingar sem fram hafa komið.

Ég vildi þó aðeins, virðulegi forseti, annars vegar víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh. og hins vegar bæta úr nokkrum vanrækslusyndum hér úr ræðu minni frá því fyrr í dag þar sem ég gleymdi að halda til haga tveimur atriðum úr þessari deilu sem ég tel að skipti mjög miklu máli til þess að menn sjái betur og átti sig á því í hvaða andrúmslofti menn voru þegar þessi deila stóð yfir.

Í fyrsta lagi varðandi það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. Þá fyrst það að hann hafi ekki verið neitt undrandi á því þó að stjórnarandstæðingar legðust gegn þessu frv. Hitt kann að hafa komið honum meira á óvart og þingheimi öllum að menn úr stjórnarliðinu, sem talað hafa, hafa lagst gegn frv. Það eru ekki mörg dæmi þess að stjórnarþingmenn þori að hafa skoðanir. Það eru sárafá dæmi þess. A.m.k. eru dæmin örfá um það að þeir hafi þorað að standa við þær í atkvæðagreiðslum. Yfirleitt hafa þeir komið hingað inn til þess að rétta upp höndina þegar ríkisstjórnin hefur skipað þeim það og tekið við „ordrum“ á hlaupum hér inn í salinn, oft ekki vitað hvað var á dagskrá heldur bara skellt upp hendinni af gömlum vana. En nú gerist það aftur á móti að hv. 12. þm. Reykv. Pétur Sigurðsson, sem þekkir þessi mál sennilega betur en ýmsir aðrir, hann leggst gegn þessu frv. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við skoðum málið í þessari stöðu og veltum því fyrir okkur, hvort meiri hluti sé hér í þinginu fyrir þessu máli. Getur það verið að málið strandi vegna þess að það er ekki samstaða um það í stjórnarflokkunum? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar, ef ekki nú við þessa umræðu þá við 2. umr. þessa máls þegar hún fer fram, vegna þess að það er náttúrlega ekki lítið innlegg í málið ef það kemur nú í ljós að þm. stjórnarflokkanna ætli að víkjast undan merkjum stjórnarinnar, hinnar stjórnlyndu ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Ég trúi því ekki að þm. eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Ellert B. Schram hundsi sjónarmið manns eins og hv. þm. Péturs Sigurðssonar. Það hlýtur að vera býsna athyglisverð kveðja til hans frá þessum þm. ef þeir taka ákvörðun um það þrátt fyrir hans varnaðarorð að styðja þetta stjórnlyndisfrumvarp Framsfl. (KP: Hvað með varaformann Sjálfstfl.?) Já, hann er hérna. Varaformaður Sjálfstfl. er hér kvaddur til leiksins, hæstv. forseti, það er hv. 2. þm. Reykv. og gæti hann nú kannske sagt okkur eitt og annað fróðlegt af þessari sjómannadeilu sem hann þekkir betur af eigin raun en margir aðrir menn. (JBH: Og útgerðarmaður í Hnífsdal.) Að ekki sé á það minnst, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, en um slíkt talar maður ekki nema á alveg sérstaklega hátíðlegum stundum eins og kunnugt er vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. hefur gert út fleiri skip eins og einnig er kunnugt en ekki verður rætt mikið um hér.

Í öðru lagi var það þannig að hæstv. forsrh. sagði: Stjórnarandstæðingar gera lítið úr þessum vanda með birgðastöðuna. Ég vil mótmæla þessu alveg sérstaklega. Ég hygg að við höfum öll sem hér höfum talað í dag tekið undir það að þar er um alvarlegt vandamál að ræða. Það sem við höfum verið að leggja áherslu á er það að þetta vandamál er ekki nýtt, það var ekki fundið upp í tengslum við sjómannadeiluna. Það hefur legið fyrir í marga mánuði og við höfum verið að gagnrýna það að ríkisstjórnin skuli ekki hafa tekið á þessu máli í tæka tíð og farið yfir það með deiluaðilum þessa máls. Það er ekki gert.

Í þriðja lagi kemur það aftur og aftur fram hjá hæstv. forsrh. sem er ákaflega athyglisvert í sambandi við kjaradeilur, sérþekkingu hans á kjaradeilum, sem er alveg með ólíkindum satt að segja hvernig hann afhjúpar sig í þeim efnum blessaður maðurinn, með leyfi forseta, hæstv. forsrh. Og það er það að hann segir aftur og aftur: Það kemur bara ekkert út úr viðræðum. Ég er alltaf að tala við sáttasemjara, í dag m.a.s. og jafnvel deiluaðila. Það kemur bara ekkert út úr þessu. Hvernig dettur honum það í hug manninum að það komi eitthvað út úr viðræðum á þessari stundu eftir að búið er að leggja málið fram hér í þinginu? Með því að ríkisstjórn með þingmeirihluta hefur lagt mál hér fram í þinginu er búið að stöðva málið. Þannig liggur það. Það er bara helber barnaskapur að láta sér detta það í hug að undir slíkum kringumstæðum sé hægt að gera sér vonir um að einhverjar samningsniðurstöður náist. Þó það sé ekki nema vegna þess að auðvitað gerir forusta LÍÚ ráð fyrir því að fá svo hagstæða útkomu út úr kjaradómnum að hún þurfi í rauninni ekkert annað að gera en að bíða í rólegheitunum eftir að kjaradómurinn kveði upp sinn úrskurð.

Hæstv. forsrh. segir að það sé rangt að ríkisstjórnin hafi slitið þessari deilu. Ég held að það hafi í rauninni komið mjög vel fram að það var ríkisstjórnin sem sleit þessari deilu með því á sunnudagskvöldið að fara að tala um gerðardóm því það var hún sem hóf umræðurnar um svokallaðan frjálsan gerðardóm. Þegar samningsaðilar voru ekki tilbúnir til að fallast á þá hugmynd þá ákveður ríkisstjórnin að grípa inn í þetta með lögum þannig að það er ljóst að það er pólitískt ákvarðað að stoppa þetta mál. Ríkisstjórnin getur ekki vikið sér undan því.

Í fimmta lagi kom þessi gamla tugga sem maður hefur heyrt stundum hér áður, en það er alveg furðulegt hvað veggirnir hér eru þolinmóðir að taka við þessari speki hér aftur og aftur, og það er að lögin í maí 1983 hafi lækkað verðbólguna niður í 10%. Það var það sem hann sagði, hæstv. ráðherra, að lögin 27. maí 1983 hafi lækkað verðbólguna í 10%. Úr 100. Hann var nú svo hógvær að nefna 100 en hann nefnir nú venjulega 130 eða 170 þegar hann er að tala um ríkisstjórn Svavars Gestssonar sem hann gerir aftur og aftur. (FrS: Hvort er nú réttara?) Það ætti hv. þm. Friðrik Sophusson að reyna að kynna sér með því að lesa um staðreyndir málsins sem hann hefði örugglega gott af eins og fleiri þm. í Sjálfstfl.

Hvernig liggur nú þetta mál? Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin var hér með 40-50% „galopperandi“ verðbólgu áður, áður en batinn gekk yfir þjóðarbúið snemma á þessu ári. Það voru ytri aðstæður sem gerðu það kleift að ná verðbólgunni niður eftir að aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér niður á tiltekna niðurstöðu í kjarasamningunum í febrúar 1986, þannig að þessi lög frá því í lok maí 1983, það voru ekki þau sem leystu þennan vanda, það er mikil fjarstæða, og það er óhjákvæmilegt að mótmæla því sérstaklega. Hins vegar tönnlast forsrh. á því hér eins og oft áður að þau hafi verið óhjákvæmileg þessi lög vegna þess að um gífurlega stóran vanda var að ræða. Vandinn var stór. En eru þetta ekki sömu rök og alltaf eru notuð af öllum þeim sem eru að svipta fólk lýðréttindum, að vandinn sé svo stór að það verði að taka af þeim lýðréttindin? Ég hygg að það sé ekkert dæmi um það í Vestur-Evrópu á síðari áratugum að ríkisstjórn hafi svipt fólk verkfallsrétti með þeim hætti sem gerðist hér 1983 nema hér á Íslandi, ekkert dæmi. Þessi grundvallaratriði verða menn að hafa í huga. Svo ætla þessir menn að koma og sækja atkvæði út á það í næstu kosningum að þeir séu sérstaklega inni á því að stuðla að frelsinu, frelsi einstaklingsins og allt það. Þessir menn sem hnepptu fjöldann í fjötra verkfalls og samningsbanns á árinu 1983 sem stangaðist á við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hvað þá heldur meir.

Í sjötta lagi, herra forseti, þá svaraði hæstv. forsrh. fsp. sem ég lagði fyrir hann varðandi það hvort tillit yrði tekið til sjónarmiða sjómanna í kjaradómnum og hann fullyrti að hann teldi það rétt að það yrði farið yfir öll málin. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að hæstv. forsrh. gaf þessa yfirlýsingu vegna þess sem segir hér í grg. með frv. á bls. 3, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er c-lið greinarinnar varðar er rétt að vekja á því athygli að auk sjónarmiða um breytingar á hlutfalli skiptaverðs af heildaraflaverðmæti komu á sáttastigi málsins fram frá báðum aðilum hugmyndir um tengingu skiptaverðs við olíuverð og af hálfu útvegsmanna hugmyndir um breytta tilhögun skiptaverðs við sölu á ferskum fiski í gámum erlendis.“

Þetta er það eina sem er nefnt hérna og vegna þess að þetta var það eina sem var nefnt hérna taldi ég óhjákvæmilegt að kanna það hjá hæstv. forsrh. hvort öll önnur atriði sem voru til meðferðar í deilunni yrðu þar með „átómatískt“ sett út af borðinu. Hann kvað svo ekki vera og ég tel mikilvægt að það liggi fyrir.

Síðan kemur þetta hjá hæstv. forsrh.: Ekki skal ég þrýsta á það að ekki verði reynt til þrautar að ná samkomulagi. Ekki skal ég vera að þrýsta á það. Hann er nú búinn að leggja hér fram frv. um það mál. Nei, hann ætlar ekki að vera að þrýsta á það, hann ætlar ekki að vera að spilla fyrir samningsmöguleikum, hæstv. forsrh., nei, nei, nei, það eru einhverjir aðrir að því.

En í framhaldi af þessari yfirlýsingu vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Er hann tilbúinn til að fallast á tillögu Farmanna- og fiskimannasambandsins? Er ríkisstjórnin tilbúin til þess hér og nú að fallast á tillögu Farmanna- og fiskimannasambandsins? Hv. þm. Karvel Pálmason gerði grein fyrir þeirri samþykkt hér áðan. Ég heyrði ekki að hæstv. forsrh. tæki afstöðu til hennar í ræðu sinni. En það er óhjákvæmilegt að spyrja: Hafnar ríkisstjórnin þessu líka, að það verði sett niður sáttanefnd skipuð þremur alþm. og að deiluaðilum verði gefinn frestur út vikuna til þess að ljúka málinu með sátt? Ég vil ekki að þessari umræðu hér, 1. umr. málsins, ljúki án þess að því sé svarað af ríkisstjórninni: Er hún tilbúin til að fresta málinu hér á þessum punkti, fresta umræðunni hér á þessum punkti, skipa sáttanefnd þriggja alþm. sem fái frest til þess að fara yfir málið?

Það er óhjákvæmilegt að fá um þetta upplýsingar frá hæstv. forsrh., þetta er innlegg í málið. Ég vil alla vega segja fyrir mína hönd að ég teldi það mjög mikilvægt ef menn væru tilbúnir til að taka á móti Farmanna- og fiskimannasambandinu með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. hvort það sé hugsanlegt að ríkisstjórnin fallist á þetta. Og úr því að ráðherrar Sjálfstfl. eru víðs fjarri, víðs fjarri þeir eru nú margir í ríkisstjórninni en þeir eru helst aldrei hér - þá vildi ég einnig spyrja leiðtoga Sjálfstfl. hér í þessum sal, hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. iðnrh. sem nú gengur í salinn þegar ég nefndi 2. þm. Reykv., þá kom hann alveg að bragði, ég vil spyrja hv. þm. Friðrik Sophusson, varaformann Sjálfstfl.: Er það hugsanlegt að Sjálfstfl. beiti sér fyrir því að fallast á þessa hugmynd Farmanna- og fiskimannasambandsins? Ja, væri það ekki skynsamlegra en að vera að þvæla þessu máli hér í gegn með þeim hætti sem ætlunin er að gera núna, að setjast niður og kanna það til þrautar hvort unnt er að ná samningum? Ég vil segja það eftir að ég hef rætt við fulltrúa deiluaðila eins og ég gat um í dag, ég hef rætt við menn úr liði útgerðarmanna og sjómanna, ég er alveg sannfærður um það að ef lagahugmyndinni hefði ekki verið lyft þetta snemma þá var unnt að ná þarna samkomulagi vegna þess kannske fyrst og fremst að útgerðin hefur svigrúm, hún hefur svigrúm samkvæmt þeim niðurstöðum sem liggja fyrir frá Þjóðhagsstofnun. -Það er alveg sérkennilegt að þegar maður ætlar að hefja hv. 2. þm. Reykv. til mannaforráða Sjálfstfl. í deildinni þá birtist formaður Sjálfstfl. og formaður þingflokks Sjálfstfl. sem hafa ekki sést í salnum í allan dag til þess að koma í veg fyrir að það verði hv. þm. Friðrik Sophusson sem svarar fyrir Sjálfstfl.

Hér fyrr í dag gerði ég grein fyrir þeim vinnudeilum sem stöðvaðar hefðu verið af núverandi ríkisstjórn með lögum. Ég nefndi sjö tilvik og ég vil biðja hæstv. forseta afsökunar á því að mér sást yfir eitt, þau eru átta. En það var ákvörðun, sem var tekin á 109. löggjafarþinginu þegar 1056 ár voru liðin frá stofnun Alþingis, um að stöðva verkfall flugvirkja og flugvélstjóra í Flugvirkjafélagi Íslands sem starfa hjá Arnarflugi hf. Þannig að það eru átta slíkar deilur núna á aðeins tæpum fjórum árum, það eru tvær á ári, ein á misseri frá því að þessi stjórn tók við.

Og svo að lokum eitt dæmi til að lýsa inn í ástandið í þessum samningaviðræðum og sérstaklega samningsvilja útgerðarmanna. Þannig var að það kom til meðferðar og umræðu hvort sjómannadagurinn verði lögfestur. Það hafa m.a. verið flutt um það þingmál að sjómannadagurinn verði lögfestur. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur auðvitað gífurlegar áhyggjur af þessu máli, að lögfesta sjómannadaginn, það gæti endað með ósköpum og til þess nú að sjómenn verði ekki of haldnir af frídögum og fríðindum þá lagði LÍÚ fram svohljóðandi tillögu í samningaumræðunum dag nokkurn, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði sjómannadagurinn lögfestur sem almennur frídagur, sbr. frv. til laga um sjómannadag, skulu ákvæði í kjarasamningi aðila, að ekki skuli róið eða verið á sjó 1. maí, falla niður.“ - Þ.e. fái sjómenn sjómannadaginn lögfestan þá á að afnema 1. maí. (GHelg: Fresta jólunum.) Ég hugði áður að það væru fá takmörk fyrir hugmyndaflugi Kristjáns Ragnarssonar og forustumanna LÍÚ. Ég hygg nú eftir að hafa séð þessa tillögu að fyrir því séu engin takmörk. Ég hef aldrei áður séð tillögu um það úr kjaradeilum síðustu ára að afnema 1. maí. Ef fantarnir fá frí á sjómannadaginn með lögum þá skulu þeir versgú róa ef mögulegt er 1. maí. Það á ekki að sleppa þeim við það. Ímyndi menn sér svo hvort það er auðvelt að ná kjarasamningum í andrúmslofti þar sem svona fornaldarhugmyndir ganga lausar á pappírum eins og þessum, herra forseti.