13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að rifja upp að það sem hefur sett þetta mál í nýjan farveg eru ummæli formanns stærri stjórnarflokksins, hæstv. fjmrh., sem hann lét falla, ummæli á þá leið að hann, og hann talar væntanlega í umboði flokksins, vildi í lengstu lög virða þá meginreglu að aðilar semdu sjálfir um kaup og kjör, að reynt yrði á það til hlítar að ná frjálsum samningum. Hann upplýsti að við göngu sína inn í þetta hús hefðu sjómenn tjáð honum að þeir væru reiðubúnir að leggja nótt við dag til að freista samninga og hann lýsti því að lokum yfir, væntanlega í umboði síns flokks, að eðlilegt væri að þeir fengju tóm til þess. Þetta er hin nýja staða málsins og þá er spurningin þessi: Til þess að koma málinu aftur í hendur réttra aðila, þ.e. deiluaðila, samningsaðila og sáttasemjara, á að taka það úr höndum þingsins. Það á að hætta þessari umræðu vegna þess að menn skulu gera sér eitt ljóst: Við samningaborðið næst enginn árangur ef þetta frv. er að þvælast inni í þinginu eins og Damóklesarsverð yfir höfðum manna. Það verða engir samningar meðan sú hótun um gerðardóm er enn við lýði og útgerðarmenn geta gengið að því sem gefnu í samningaumleitunum. Aðilar eiga að vera á jafnréttisgrundvelli. Sá nýi tónn sem hér hefur kveðið við er um þetta. Hæstv. fjmrh. hefur sagt: Gefið þeim tóm til að semja.

Við þm. Alþfl. höfum sagt: Vísum þessu máli frá með rökstuddri dagskrá. Við erum hins vegar að segja allt annað en hv. þingflokksformaður Páll Pétursson, sem er það að hafa málið í meðförum þings, vísa því til nefndar og koma þannig í veg fyrir að frjálsir menn geti sest niður við samningaborð og samið. Í nafni sáttfýsi höfum við sagt: Við erum reiðubúnir til þess, ef ríkisstjórnin vill fylgja eftir orðum hæstv. fjmrh., hafa frumkvæði að því að taka þetta mál af borðum þm. og af vettvangi þingsins, að draga til baka till. okkar um rökstudda dagskrá. Þá nýtur ríkisstjórnin frumkvæðis síns og leggur áherslu á að hún hafi sjálf haft frumkvæði að því að koma málinu aftur með auknum þunga í réttan farveg samninga. Um þetta snýst málið. Við erum tilbúnir að draga þessa till. til baka ef við fáum yfirlýsingu hér og nú, ekki frestun funda, hér og nú, frá hæstv. ríkisstjórn um að í samræmi við ummæli hæstv. fjmrh. og til þess að undirstrika sáttavilja sinn hafi hún frumkvæði að því að taka málið úr farvegi þingsins. Ef við fáum ekki slíka yfirlýsingu föllumst við ekki á frestun og þá munum við og ég sem flm. þessarar till. árétta kröfu mína um það að á það verði látið reyna hvort hér er þingmeirihluti í samræmi við okkar skoðanir, skoðanir hæstv. fjmrh. um að á það verði látið reyna í frjálsum samningum.