20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

241. mál, samgönguleiðir um Hvalfjörð

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. upplýsti það hér í svarræðu sinni að áætlaður kostnaður við það að leggja bundið slitlag eða fullbyggja veginn fyrir Hvalfjörð mundi vera 650 millj. kr. Mér fannst það ansi stór upphæð miðað við það að ekki eru eftir nema 19 km að ganga frá á þessari leið. Reyndar eru þarna dýrir kaflar en ég hef reyndar ekki heyrt tölu um kostnað á þessari leið fyrr en nú vegna þess að það hefur staðið nokkuð í mönnum að mér skilst að gera áætlanir eða ákveða sérstök vegarstæði.

Ég vil leyfa mér aðeins að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti svarað mér því hvort búið er að ákveða vegarstæði um Botnsvog, hvort þar á að vera brú, eins og rætt hefur verið um, fremst í voginum, eða eitthvert sérstakt vegarstæði inn fyrir fjarðarbotn.