21.01.1987
Efri deild: 33. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu var lagt fram, eins og hæstv. ráðh. nefndi í ræðu sinni, rétt fyrir jól. Ég lét þá skoðun í ljós í umræðum um niðurfellingu ferskfiskmats að eðlilegra væri að við litum á þetta frv. á þeim tíma sem lögð var mikil áhersla á að koma fram frv. um breytingu á Ríkismati sjávarafurða hér í deildinni. Það lægi jafnvel meira á því að samþykkja þetta frv. ef það ætti að sinna þeim tilgangi, sem manni virtist það ætti að meginhluta að gera, að skapa nýtt fiskverð, svokallað frjálst fiskverð í landinu, og ef að því væri stefnt væri æskilegast að þetta frv. gengi sem fyrst fyrir sig og lægi ekki lengi í loftinu að að slíku væri verið að stefna. En hin leiðin var valin, að hugsa fyrst fremst um að leggja niður ferskfiskmatið þó að ekkert væri undirbúið til að taka við því sem þar hefur verið gert áður og þetta frv. látið liggja yfir jólafríið en er nú sem betur fer komið til umræðu á næstfyrsta fundardegi hv. deildar.

Ráðherra nefndi nokkra þætti sem væru þess valdandi að nú væri að því stefnt að koma á uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla. Það væru ýmsir hlutir sem hefðu breyst í þjóðfélaginu á undanförnum árum sem gerðu það líklegra að slíkur markaður ætti rétt á sér. En ég held að hæstv. ráðh. hafi ekki nefnt þann þáttinn sem aðallega knýr á dyr manna um það að haldið verði áfram í því að auka frjálsræði og mönnum gefið tækifæri til að fara með sjávaraflann á ýmsa vegu. Ég held að það sé fyrst og fremst sú fiskveiðistefna, sem hæstv. ráðh. hefur haldið fram á undanförnum árum, sem kalli á að það verði byggður upp markaður. Ég hef vissa trú á því og tilfinningu fyrir því að einmitt sú almenna ósk um að það verði komið upp markaði sé vegna þess að menn finna meira og meira fyrir vanköntum þeirrar fiskveiðistefnu sem hér hefur gilt og menn séu að leita að einhverjum úrræðum út úr þessari fiskveiðistefnu. Þar er ein dúsan, sem á að stinga upp í menn til að hafa menn ánægða um nokkurn tíma, að stofna fiskmarkað. Ég held að grundvöllurinn sé vondur og því miður, fyrst á þessu er raunverulega byggt, af því að maður finnur fyrir því að á þessu er byggt þó að ráðherra segi annað, eru ekki miklar líkur fyrir því að þessi stefna eigi langa framtíð fyrir sér og að það verði byggður upp hér frjáls fiskmarkaður. Ég hef ekki mikla trú á því, því miður. En eins og stendur í dag er nauðsynlegast að þessi markaður komist á, fyrst og fremst til þess að sýna sig.

Menn eru að leita að nýjum leiðum, m.a. fiskmarkaði, til þess að komast út úr þeirri kreppu sem íslenskur sjávarútvegur er kominn í vegna þeirrar fiskveiðistefnu sem hér ríkir. Menn eru m.a. að leita að leið til að komast út úr því hvernig eigi að standa undir verðgildi fiskiskipa, segjum t.d. þeirra fiskiskipa sem verið er að selja og eru á markaðnum í dag og við höfum heyrt um í fréttum. Við höfum heyrt að það sé verið að selja skip frá Suðurnesjum, úr Garði, togarann Gaut. Hvert er verðgildi hans? Það er verið að tala um að það eigi að selja það skip á 160-170 millj. Hvert er matsverð þess skips, hvert er tryggingamatsverð þess skips? Það mun vera 88 millj. En hvert skyldi vera kaupverð þess skips ef það væri keypt úti í Englandi núna? Ég geri ráð fyrir að hv. formaður sjútvn. hafi einhvern grun um hvert það kaupverð er. Við höfum heyrt því fleygt í fréttum að kaupverð slíks skips úti í Englandi núna mundi vera 25 millj. (VI: Það er rangt.) Formaður sjútvn. segir að það sé rangt og ég hef trú á því að það sé rangt. Þar eru öfgarnar á hinn veginn. En annar maður nokkuð kunnugur þessum málum heldur því fram í deildinni að þetta sé rétt og við heyrum það sjálfsagt síðar í umræðunni hvað er rétt í málinu.

En við skulum ekkert ræða um hvað hægt er að fá slíkt skip fyrir úti í Englandi, af því að það er kannske ekki það sem við þurfum fyrst og fremst að spekúlera í að við séum að flytja inn skip og ég geri ekki ráð fyrir að menn séu neitt að kalla á það eða biðja sérstaklega um það, heldur hljótum við að velta vöngum yfir hvað þessi stefna hefur leitt af sér. Hvað hefur þessi skömmtunarstefna leitt af sér í sambandi við verðgildi fiskiskipa? Og hvað þýðir þetta í verðlagningu á fiski? Hvað hlýtur þetta að þýða í verðlagningu á fiski og stöðu útgerðarinnar ef þessi skömmtunarstefna gerir að verkum að skipsverð hækkar frá eðlilegu matsverði, en allt fram á þennan tíma hefur yfirleitt verið talað um toppsöluverð ef það hefur verið hægt að selja skip á tryggingarverði eða tvöfalda það verð? Það þýðir að verðgildið, afskriftarhluti inni í fiskverðsákvörðuninni hlýtur að tvöfaldast. Þetta er skatturinn sem við þurfum að borga fyrir stefnu hæstv. sjútvrh., fyrir kvótastefnuna sem menn hafa verið að samþykkja hér á hv. Alþingi ár eftir ár og sumir beðið jafnvel um að yrði framlengd í 2-3 ár, sumir jafnvel kannske 10.

En vitaskuld er þetta, sem við erum að ræða hér, eins og ég nefndi áðan einn þátturinn af leit manna til að komast út úr þeirri klemmu sem við búum við undir þessari stefnu. Það er líka leit manna í þá átt að losna við það eða reyna að snúa þeirri þróun við að æ meira af afla okkar sé flutt út ferskt óunnið. Það er líka verið að leita ráða til að andæfa gegn þeirri þróun. Sú þróun er líka komin til af fiskveiðistefnunni, hún er komin til af kvótanum, af skömmtunarkerfinu, af einkaréttarkerfinu. Hver og einn sem hefur þennan rétt í hendi sér leitar að þeim ráðum að fá sem mest fyrir aflann og þá eru ýmsir þættir sem eru teknir þar inn í eins og t.d. hvernig kvótinn nýtist, hvernig skammturinn nýtist. Við vitum að í sambandi við útflutning á ferskum fiski á sér stað ansi mikil rýrnun frá því að fiskurinn er settur hér í land, heima á skerinu okkar, og þar til hann er kominn út. Ef miðað er við dagróðrarbáta vitum við að það eru ekki 10% eins og kvótinn skerðist heldur kannske 20-25%. - Hv. þm. þarf ekki að mótmæla því vegna þess að slík vigtun og slík könnun hefur farið fram, allt upp í 25%.

Við sem höfum fylgst með útgerð og sjávarútvegi vitum að aðeins fyrstu nóttina í fiskvinnsluhúsi sem ekki er eðlilega kælt niður rýrnar fiskur um allt að því 10%, 5-7-10% eftir aðstæðum. (Menntmrh.: Það er léleg móttaka.) Ja, það er sjálfsagt heldur betri meðferð á hlutum en á sér stað í ýmsum þáttum í menntmrn. Þar er alls konar sóun uppi (Menntmrh.: Hefurðu frétt af því?) eftir því sem hæstv. ráðh. hefur talað um.

Það má rengja þá tölu sem ég hef nefnt hér, en bátar sem hafa landað í gáma hafa gert tilraun með þetta, vigtað fiskinn um leið og hann hefur komið í land, vigtað hann sem sagt í gámana, og útkoman hefur orðið síendurteknar þær tölur sem ég var að nefna. Vitaskuld vitum við það, sem þekkjum sölu á erlendum markaði, að þetta er ekki allt bein rýrnun þó hún verði að heita rýrnun í máli okkar. Það gerast ýmsir hlutir á leiðinni út eða í löndun og í sambandi við vigtun sem verða þess valdandi að rýrnunin svokallaða verður heldur meiri en efni standa til við eðlilega rýrnun ef við köllum það svo.

Það mætti margt fleira spjalla um tengingu þessa máls og fiskveiðistefnunnar, en ég held að það sé kannske ekki rétt í upphafi. Við eigum eftir að ræða þetta mál í sjútvn. við ýmsa hagsmunaaðila og sjálfsagt er að gera það allrækilega og velta fyrir sér ýmsu.

Það fyrsta sem við hljótum að spyrja er: Hvað er það sem vinnst við það að koma upp fiskmarkaði? Það má segja, ef af fiskmarkaði verður, að það eigi sér stað að upp komi einn nýr þáttur í undirbúningi til útflutnings á íslenskum sjávarafurðum. Þegar við erum að ræða um þennan fiskmarkað er fyrst og fremst verið að hugsa um bolfiskinn. Sá fiskur hefur hingað til fyrst og fremst verið nýttur hér innanlands í frystingu og í söltun og svo hafa menn notfært sér það að setja fiskinn í gáma, selja hann þannig út eða þá að sigla með hann ferskan á markað með skipum sem er gamalreyndur þáttur og hefur alltaf verið hjá okkur og oft reynst vel og verið eðlilegur aukaþáttur í sambandi við það hvernig aflanum er komið á erlendan markað.

Maður spyr hvort markaðurinn eigi að verða til þess að byggja upp nýja leið til hráefnisöflunar fyrir fiskvinnslufyrirtækin sem eru til staðar í landinu, þ.e. er líklegt að fyrirtækin fari inn á þennan markað og afli sér hráefnis á þann veg eða heldur áfram sú leið, sem notuð hefur verið hingað til, að viðkomandi fyrirtæki hefur tryggt sér viðskiptaskip, viðskiptabáta til að annast öflun hráefnisins? Er líklegt að fyrirtæki í Reykjavík t.d., ef hér kemur fiskmarkaður, eins og Grandi sem er stærsta fiskvinnslufyrirtæki landsins og á hvað stærstan togaraflota til að afla hráefnis fyrir fyrirtækið, er líklegt að Grandi hf. láti sína togara landa í hugsanlegan fiskmarkað hér í Reykjavík og láti verðmyndun á afla skipanna verða á þann veg? Mér finnst þetta eins og er frekar ótrúleg leið þó að ég ætli ekki að fullyrða að það verði ekki gert.

Mér finnst að nefndin hefði þurft að kanna hug aðila eins og forustumanna Granda og annarra frystihúsa áður en þetta frv. var lagt fram. Það hefði verið mikið æskilegra að þetta hefði legið fyrir. Eru útgerðarmenn og frystihúsaeigendur tilbúnir að standa að því að komið verði á opnum fiskmarkaði og munu þeir leita þeirra leiða til að afla sér hráefnis að láta verðmyndunina eiga sér stað á markaði í staðinn fyrir að ganga út frá ákveðnu fiskverði og láta viðkomandi skip landa beint til sinnar fiskvinnslustöðvar. Því miður hefur þetta ekki verið gert.

Það kemur heldur ekki í ljós í grg. nefndarinnar og upplýstist heldur ekki í ræðu hæstv. ráðh. hvert væru sóttar fyrirmyndir að þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir um uppboðsmarkað. Reyndar nefndi ráðherra að það væri í Danmörku einhver lagarammi í sambandi við uppboðsmarkað. Ég hefði haft áhuga fyrir að vita áður en málið kom til umræðu á Alþingi hvernig þessum málum er háttað t.d. í Noregi. Er þetta í Norður-Noregi, í Lofoten, á þann veg að þar sé aflinn á uppboðsmarkaði? Aflar Findus sér, ég held að það sé á öfugan veg, t.d. í Norður-Noregi, hráefnis með því móti að sækja fisk á uppboðsmarkað? Ég held að það sé ekki. En það hefði verið gott að þetta hefði verið í áliti nefndarinnar og það hefði sést hvert er verið að leita fyrirmyndar. Hvernig er þetta almennt í Danmörku? Og hvernig er þetta í Nýfundnalandi sem við oft erum að ræða um og er eitt af samkeppnislöndum okkar í útflutningi á sjávarafurðum? Ég held að það væri mikið eðlilegra að við leituðum fyrirmynda og öfluðum okkur góðra upplýsinga um hvernig þetta er gert í þeim löndum sem ég hef nefnt hér, sem öll eru útflutningslönd á sjávarafurðum, en að við værum að taka okkur fyrirmyndir, sem mér finnst hálfpartinn skína í gegn, frá fiskmörkuðum í löndum þar sem fyrst og fremst neysluþjóðirnar eru, þar sem í raun og veru er verið að selja inn á neyslumarkaðinn, ekki inn á framleiðslumarkað eins og er hjá okkur. Þetta kemur hvergi fram í frv., en þetta eru þættir sem við þurfum að kanna mjög vel í nefndinni.

Í framhaldi af því sem ég var að nefna áðan um hverjir það yrðu sem mundu sjá fyrir hráefni á fiskmarkaðina, hvort það mundi vera meginhluti togaraútgerðarinnar t.d. hér í Reykjavík, er rétt að spyrja þeirrar spurningar: Hverjir eru líklegir kaupendur á markaðnum? Hverjir koma til að bjóða í? Þegar við höfum ekki svar við fyrri spurn ingunni um hvaða skip muni landa í markaðinn er erfitt að finna svar við hinni af því að þeir eru þar af leiðandi að vissu leyti utan gátta, en ef togararnir koma ekki inn á markaðinn og þarna verður aðeins um hugsanleg aukaskip að ræða, segjum ef það kæmi markaður í Reykjavík að það kæmi kannske skip úr Keflavík. Það eru víst fá eftir þar. Segjum þá vestur á Snæfellsnesi. Nokkur eru eftir þar þó það hafi komið skarð í. (Gripið fram í: Enn þá.) Enn þá. Eða þá bara trilluflotinn í Reykjavík. Þá er líklegast við allar venjulegar aðstæður að þeir sem koma til með að bjóða í á fiskmarkaðnum hér í Reykjavík verði fisksalarnir sem sjá Reykvíkingum fyrir soðmeti. Það er ósköp eðlilegt. Það eru einmitt sömu mennirnir og bjóða í á Englandi og Þýskalandi, sjá sínu næsta umhverfi fyrir þessari vöru til neyslu. Því miður held ég að það yrði litið úr reisn fiskmarkaðar við þær aðstæður og hann væri lítt marktækur. Vitaskuld mundu fisksalarnir við vissar aðstæður bjóða vel. Það gera þeir alltaf. Við þekkjum að þeir skjótast suður á Suðurnes og vestur á Snæfellsnes og bjóða í fiskinn og fá fisk og selja síðan Reykvíkingum í soðið.

Til viðbótar kæmi einn hópur enn þá, en ég hélt að það væri ekki stefna sjútvrh. að stuðla að því að sá hópur yrði mikið stærri en er nú þegar, þ.e. ýmsir smáverkendur. Það er mjög trúlegt að við vissar aðstæður yrði til þó nokkur hópur manna sem kæmi á fiskmarkað að kaupa fisk þegar heppilegar aðstæður væru til að losna við hann og ekki síst þegar líkur væru fyrir því að sá markaður byði sæmilegt verð, ef það væri búið að þróa hann upp í það t.d. að hann væri markaður sem tæki við afla netabáta, toppafla og þess háttar til þess að framleiða í skreið eins og frægt var á ákveðnu tímabili. Í öðrum hverjum skúr í sjávarplássunum fóru menn að framleiða skreið. Menn hafa brugðið fyrir sig líka að fara í smáverkun með saltfisk og jafnvel, núna eftir að tækni hefur aukist, er mjög auðvelt að koma upp handhægum frystiklefum og frystitækjum. Líkur eru fyrir því að þetta væri hin mesta og besta gróðrarstía fyrir slíka uppákomu. Þetta væri ekki góð þróun. Hún væri frekar neikvæð. Þá gæti farið svo í sambandi við kvótalög og reglur að það yrði að koma eitthvað það sem menn þekkja hér og nefnt hefur verið fullvirðisréttur. Menn þyrftu að hafa rétt, vera búnir að búa sér til rétt til að kaupa fisk af þessum markaði o.s.frv. og það yrði farið að gefa út reglur um hverjir mættu gera þetta og hverjir ekki eins og er að meginhluta til í aðalundirstöðuatvinnuvegum okkar, bæði sjávarútvegi og landbúnaði, og ráðherrar Framsfl. hafa verið sérstaklega iðnir við að búa til reglur um. Hér er ein reglan í viðbót að koma þar sem það skal vera bundið leyfum hvort markaðir koma upp á þessum eða hinum staðnum eða ekki.

Og hvað gerist ef markaður verður leyfður í Reykjavík, sem stefnir að, eða í Hafnarfirði? Hvaða áhrif hefur það á þróun mála í umhverfinu? Verður þessi markaður til að leggja grunn að fiskverði sem komi til með að gilda yfir allt landið? Og ef markaður er kominn upp í Reykjavík, hver á að hamla gegn því að það komi þá markaður líka upp a Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Norðurlandi o.s.frv.? Ef fiskmarkaður er aðeins á einum stað hljóta að koma ýmsir annmarkar í ljós. Það verður vitaskuld kallað á það, ef sá markaður yrði til þess að lyfta upp fiskverði, að fiskverð um allt land taki mið af því. Það gæti vel verið að fiskmarkaður sem færi af stað í Reykjavík fengi fisk af smábátaflotanum sem hér er og landar hér dag frá degi, landar yfirleitt að stórum hluta til fisksalanna, en togararnir vildu ekki landa á þennan markað. Það gæti orðið ansi skemmtilegt verð sem myndaðist út úr því að hér væru nokkur tonn á uppboði en meginaflinn færi fram hjá. Þá er ósköp eðlilegt að þarna skapist viðmiðunarverð. Hvernig á að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist?

Áætlanir nefndarinnar eru fyrst og fremst áætlanir um rekstur fyrirtækisins. Það er kannske rangt að segja að það sé frekar erfitt að byggja á þeim og maður finni fyrir því að þarna sé um áætlunarplagg að ræða sem sé vafasamt að menn séu tilbúnir að leggja eitthvert fjármagn í til að byggja upp hlutafélag vegna þess að það eru svo margir hlutir óþekktir og þarna er verið að leggja í ákveðna áhættu. Þess vegna finnst mér að liggi einhvern veginn í loftinu að ef markaður verður byggður upp í Reykjavík og kannske annar í Hafnarfirði sé verið að gera það sem menn vildu forðast og voru að losa sig við síðustu árin, það þyrfti að verða hálfgert bæjarútgerðarsnið á því eins og var á bæjarútgerðum hér á undanförnum árum, það þyrfti að vera einhver ábyrgðaraðili til að tryggja að þessi rekstur gæti gengið einhvern ákveðinn tíma. Þetta segir okkur ekki neitt öðruvísi. Ég er bara sammála því að tryggja frelsið, sjá um að frelsið njóti sín, almenningur komi með pening og tryggi að það komi einhver reynsla af frelsinu og beinlínis að búa til plan um 60 tonn, 100 tonn, 150 tonn eða einhverjar tölur sem nefndar eru í áætluninni. Það segir að daglega þurfi það að fara í gegnum þennan markað til þess að hann standi undir sér. Ég held að það sé eins og annað með sjávarútveginn að við rennum þar ansi blint í sjóinn og kannske miklu blindar í sjóinn með það hvað skilar sér inn á markað en þegar við erum að fara út á miðin sem við erum farin að þekkja vel og vitum hvernig eru.

En sama er það. Ég tel að þetta mál þurfum við að afgreiða á hv. Alþingi í vetur og best væri að leggja áherslu á að vinna þetta eins fljótt og kostur er, en nauðsynlegt er að vinna það vel og við þurfum að gefa okkur tíma til að fara yfir það ítarlega.

Ég sé að fundartími okkar í hv. deild er farinn að skerðast og ekki vil ég, eftir þau orð sem ég hef sagt hér um að við þyrftum að flýta afgreiðslu þessa máls, verða þess valdandi að við komum ekki málinu út úr deildinni. Ekki ætla ég að standa a.m.k. allan fundartímann hér í pontunni.

En í lokin vil ég endurtaka það sem ég sagði í upphafi: Mér finnst því miður að þetta frv. sé að meginhluta til komið fram eins og dúsa upp í þá sem eru í vandræðum með kvótann og fiskveiðistefnuna til að fara að tala um eitthvað annað en það sem beinlínis liggur á mönnum núna, liggur á. Og menn finna fyrir hvernig staðan er. Það er að koma upp hvað á fætur öðru sem staðfestir að sú fiskveiðistefna sem hæstv. ráðh. heldur uppi er að brotna sundur í höndunum á honum. Það er meira að segja verið að gera þannig lagaða samninga um sölu á skipum að það eru settar þær kvaðir inn að því skuli ekki vera haldið fram af seljanda að þetta hafi átt sér stað á þessum eða hinum degi eða það sé gert neitt til að skerða þá möguleika að viðkomandi skip haldi sínum kvótarétti, að það sé hætta á því út af áramótum að skip þurfi að fara í sóknarmark. Það þarf að gera samninga til þess að komast fram hjá fiskveiðistjórnuninni. Allt er þetta á eina bókina lært. Þetta er annað dæmið um út í hvaða vitleysu þessi fiskveiðistjórnun er að leiða okkur sem ég nefni hér í ræðustólnum núna og ég skal nefna fleiri dæmi þegar við höldum áfram að ræða þetta mál þegar það kemur til 2. umr.