26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Eins og sést hér á dagskrá og þingstörfum í dag er verið að ræða stjfrv. og mæla fyrir þeim. Úti í þjóðfélaginu eru aftur á móti miklar umræður um það að til standi að taka hér fyrir áður en þingi verður slitið eftir fáeinar vikur mjög þýðingarmikil mál. Stjórnarandstaðan hefur ekki haft neinar fregnir af þessum málum að því er ég best veit, a.m.k. ekki minn þingflokkur, nema af blaðafregnum og þar sem hæstv. forsrh. er hér viðstaddur leyfi ég mér að spyrja: Hvenær er þess að vænta að tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á skattalögum og tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í bankamálum liggi fyrir?

Eins og kunnugt er er starfandi nokkur hundruð metra frá þessu húsi einn af ríkisbönkunum sem hefur orðið fyrir stórkostlegum fjárhagslegum búsifjum á síðustu árum, m.a. núna undanfarið, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið frá sér neinum tillögum í sambandi við málefni Útvegsbankans. Það er auðvitað stóralvarlegt mál ef málefni Útvegsbankans eiga að fá að ganga þannig fyrir sig, enn þá marga mánuði, áður en til aðgerða verður gripið. Það er jafnljóst, virðulegi forseti, að verði ekki gripið til aðgerða, þ.e. verði ekki mál flutt hér inn í þingið núna næstu sólarhringa, verður Útvegsbankamálið ekki leyst fyrir kosningar. Sá dráttur sem orðið hefur í því máli skrifast auðvitað á reikning viðskrn. og hvernig það hefur haldið á þessu máli, skrifast á reikning þeirra sem hafa viljað taka framkvæmd á kenningum Miltons Friedmans fram yfir veruleika íslensks efnahagslífs, sem er að taka á bankakerfinu og vandamálum þess. Ég vil þess vegna leyfa mér að inna hæstv. forsrh. eftir því í umræðum um þingsköp hvenær þess sé að vænta að þessi mál verði flutt hér inn í þingið í formi þingskjala eða gagna sem lögð yrðu fyrir þingflokka stjórnarandstöðunnar.