02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Þingstörfin og þinghaldið

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var aðeins vegna orða hv. 3. landsk. þm. um kjördag. Það getur verið að um þetta gangi munnmælasögur eins og hv. þm. nefndi það og það er kannske réttnefni. Málið liggur fyrir mér svona: Forsrh. landsins sem hefur þingrofsvaldið hefur lýst því yfir að verði ekki samkomulag um annað fari kosningar fram 25. apríl.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef, hvort sem menn kalla það munnmælasögur eða eitthvað annað, út úr þingflokki Sjálfstfl. með viðtölum við einstaka þm. hans heyrist mér ljóst að þar sé ekki áhugi á því að kjósa síðar a.m.k. en 25. apríl. Ég hef þess vegna orðað þetta svo að með yfirlýsingu sinni hafi hæstv. forsrh. í raun og veru veitt hv. þm. Halldóri Blöndal þingrofsvaldið. Af þessum ástæðum hef ég gengið út frá því, þar til annað kemur í ljós, að kosið verði 25. apríl en það er vissulega þarft að fara yfir það nánar hvaða lendingu menn hugsa sér að hafa í þessu efni. En í kosningalaganefndinni, sem rædd var undir ákveðnum dagskrárlið áðan, er þetta mál einnig til umræðu, þ.e. framtíðarkjördagurinn í fyrsta lagi og í annan stað hvort hugsanlegt er að ná allsherjarsamkomulagi í þinginu um kjördag í ár. Mér hefur heyrst að það stefndi allt á 25. apríl af þeim ástæðum að hæstv. forsrh. hefur gefið þá yfirlýsingu að ef ekki verði samkomulag um annað verði kosið 25. apríl. Verði kosið 25. apríl er auðvitað alveg ljóst að miðað við allar venjur hér verður að ljúka þingstörfum alveg fyrstu dagana í marsmánuði, það er útilokað annað.