03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

260. mál, snjómokstursreglur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru auðvitað engin tök á því að gera að umræðuefni reglur um snjómokstur í fyrirspurnatíma en mér finnst ástæða til þess að ítreka að það er nauðsyn á breyttum reglum. Reglur eru annað en það hvernig eftir þeim er farið og sveigjanleikinn við að framkvæma þær. Ég held nefnilega að þar skorti mjög á. Ég hef ástæðu til þess að ætla að það skorti á a.m.k. á nokkrum stöðum sem ég þekki til að sveigjanleiki sé hjá Vegagerðinni um það að fara eftir reglunum. Ég bendi t.d. á að varðandi Botnsheiði og Breiðadalsheiði er gífurleg óánægja ríkjandi vegna þess hvernig staðið er að mokstri á þeim leiðum. Það hefur verið gífurleg óánægja í allan vetur og áður. Ég held að fullkomin ástæða sé til þess, hvað sem mönnum sýnist um það að rýmka um reglurnar sem slíkar, að fara ofan í það með hvaða hætti þær reglur eru framkvæmdar sem fyrir eru.