11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

321. mál, vaxtalög

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni hefur það fyrirkomulag sem var á vöxtum fyrir löngu gengið sér til húðar. Vextir hafa verið ákveðnir af stjórnvöldum á hverjum tíma miklu lægri en nokkurt vit var í að gera árum saman og áratugum saman og eins og ég sagði hér áðan varð það til þess að í þeirri miklu verðbólgu sem var brann sparifé landsmanna alveg upp og varð svo að segja að engu.

Með þessari nýju stefnu er brotið í blað. Við skulum ekkert, hv. 3. þm. Reykv., deila um kostnað við bankakerfið. Við þurfum ekki að ganga langt víðast hvar á Norðurlöndum á milli banka og bankaútibúa. Það er æðimikill kostnaður þar. Í þessu sambandi skulum við taka land sem við sennilega komum flest oftast til, Danmörku. Það er ekki langt þar á milli bankaútibúa. Ég hef ekki þau gögn hér við hendina, en það er fróðlegt að fá þau gögn og þann samanburð sem er á kostnaði. Hins vegar er ég alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um að kostnaðurinn við bankakerfið er of mikill, en við megum heldur ekki einblína á kostnaðaraukann sem hefur orðið á bankakerfinu á síðustu árum. Við eigum þá líka að taka inn í stóraukna þjónustu sem bankarnir veita umfram það sem áður var. Það er ekki hægt að gera þann samanburð hér í ræðustól á örfáum mínútum. Það er allt önnur þjónusta sem bankar veita eða veitt var fyrir aðeins nokkrum árum. Þar hafa viðbrögð orðið afar mikil og jákvæð fyrir almenning í landinu.

Ef við lítum t.d. á lauslegt mat á raunvöxtum sýnir það að ávöxtun nokkurra innlánsforma eins og hún var áætluð í byrjun þessa mánaðar, þá er miðað við að verðbólguhraðinn um þessar mundir sé um 15,5% og þá er tekið mið af hækkun lánskjaravísitölu á næsta ársfjórðungi miðað við ár, og þá kemur í ljós að ávöxtun á almennum sparisjóðsbókum er 8,9%. Það þýðir mínus 5,7% raunávöxtun miðað við þessar forsendur. Sparireikningar með þriggja mánaða uppsögn eru með 10,4% ársvöxtum sem þýðir mínus 4,5% raunávöxtun. Sparireikningar með tólf mánaða uppsögn eru 12,7%, en raunávöxtun er plús 2,4% og verðtryggðir reikningar í fyrra tilfellinu til þriggja mánaða eru plús 1,4%, en það er sama ávöxtun og á sparireikningum og til sex mánaða 3,3%. Þetta eru nýjustu útreikningar, en eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í dag og á mánudaginn finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að höfuðhöfundur frv., prófessor Jónatan Þórmundsson, mæti á fundi nefndarinnar og gefi þar ákveðnar upplýsingar sérstaklega í sambandi við ýmsar fyrirspurnir, fyrirspurnir um hvenær venja skapist og með hvaða hætti. Um það þarf að fá fræðilega útlistun sem er sjálfsagt að gefa. Ég treysti mér ekki á þessari stundu að gefa hana svo tæmandi sé. Það verður að skoða allar slíkar fyrirspurnir sem er hægt að taka upp í nefndinni í sambandi við aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegt er að afla og er fljótaflað í flestum tilfellum.