12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

302. mál, umhverfismál

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Enn ræðum við umhverfismál hér á Alþingi. Slíkar umræður eru orðnar nokkuð miklar að vöxtum og mætti af þeim ráða mikinn og almennan vilja þm. til að koma einhverju lagi á skipulag þeirra mála. En eitt er vilji og annað er að virkja þann vilja. Hæstv. samgrh. var fljótur að bregða við hér áðan og andmæla stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis, talaði um eitt báknið enn. Ég er lítið hrifin af báknum en hér finnst mér gæta misskilnings.

Það ríkir glundroði í umhverfismálum hér á landi og sá glundroði er til óþurftar, flækir málin og gerir allt skipulag ómarkvissara, dýrara og árangursminna en ætlast má til. Sérstakt umhverfisráðuneyti væri að mínu viti til þess fallið að koma lagi á þann glundroða sem er mörgum þyrnir í augum. Að mínu viti ætti samræming og sameining að verða til bóta og jafnvel fjárhagslegs sparnaðar.

Hins vegar vekur þessi till. sem hér er til umræðu ekki miklar vonir um úrbætur í þessum efnum undir stjórn þeirra flokka sem nú halda um taumana. Þeir lofuðu í upphafi stjórnartíðar að setja lög um umhverfismál en hafa svo þvælst hver fyrir öðrum og staðfesta loks þvermóðsku sína með tillöguflutningi sitt á hvað nú á síðasta þingi kjörtímabilsins. Ef þessir flokkar sitja áfram saman við stjórnvölinn finnst mér vonlítið um einhverjar aðgerðir sem að gagni mega koma. En sé hægt að tala um hefðir í fari þeirrar sem hér stendur, þá má kannske segja að það sé nú orðin hefð hjá mér að lýsa yfir stuðningi við tillögur sem varða umhverfismál og því vildi ég ekki brjóta þá hefð nú. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa till.