16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Þögn er sama og samþykki, segir einhvers staðar, og það er freistandi að álíta að sú þögn sem var í ræðu hæstv. fjmrh. áðan um flest af því sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni sé sama og samþykki hans því vægast sagt var ræða hæstv. ráðh. heldur þunnur þrettándi. Ég beindi einni beinni spurningu til hæstv. ráðh. og henni lét ráðherrann ósvarað. Ég vil ítreka hana nú og æskja enn á ný svara.

Ég spurði ráðherra beint að því hvaða rök lægju fyrir því að b-liður 30. gr. núgildandi skattalaga er ekki felldur niður, hvaða rök lægju fyrir því að fella niður frádrátt af vaxtakostnaði t.d. en ekki vaxtatekjum. Ég vona að ráðh. svari þessu á eftir.

Ráðherra gerði að umtalsefni það sem ég sagði um húsnæðismálin og um hversu fjarri íslenskum veruleika sú „fyrsta sinn“ regla sem við getum kallað svo, sem er í þessu frv., er íslenskum veruleika í húsnæðismálum. Ráðherra benti á að það væri matsatriði hvernig meta skyldi þessa reglu og að fyrri regla hefði nýst best þeim sem hæstar hefðu tekjurnar og gætu þess vegna tekið mest lán. Ég er sammála ráðherra að því leyti að fyrri reglan, reglan sem nú er í gildi, nýtist þannig. En ég var ekki að leggja til að hún yrði tekin upp aftur. Ég var öllu heldur að vekja athygli á því að „fyrsta sinn“ ákvæðið í núgildandi fyrirkomulagi er út í hött miðað við þann veruleika sem er í íslenskum húsnæðismálum og því væri nóg að fella niður þetta fyrsta sinn“ ákvæði á húsnæðisþættinum og láta bæturnar gilda fyrir alla með einhverjum hætti. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram.

Annað atriði sem var nokkuð athyglisvert í ræðu hæstv. ráðh. var það að hjón með tvö börn greiði ekki skatt af allt að 90 þús. kr. á mánuði og þar með sé tekjuskattur á almennar launatekjur afnuminn. Síðasti ræðumaður kom inn á þetta atriði og benti á að almennar launatekjur séu hærri en sem þessu nemur og því sé ekki búið að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum með þessum hætti. Það sem mér þótti að auki mjög athyglisvert við þetta dæmi hæstv. ráðh. er að samkvæmt þessu gerir hann ráð fyrir að hvert heimili þurfi tvær fyrirvinnur. Það er út af fyrir sig mjög athyglisvert. Eins vil ég benda á að um 90 þús. kr. á mánuði eru um það bil framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar. Hún telur þó ekki hjón og tvö börn heldur hjón og rúmlega eitt barn. En það að heimili þurfi tvær fyrirvinnur er mjög athyglisvert að skuli hér með hafa verið viðurkennt af hæstv. ráðh. Nú er að sjá hvort einhverjar tillögur koma frá þeirri hæstv. ríkisstjórn sem nú situr um hvernig mæta eigi útivinnu beggja foreldra með öðrum hætti, einkum og sér í lagi á félagslega sviðinu. Á það hefur mikið skort.

Ég vil að lokum, og ætla ekki að lengja þessa umræðu meir, aðeins víkja að því sem formaður fjh.- og viðskn. kom að í ræðu sinni, hv. 4. þm. Norðurl. v., þar sem hann taldi afar ánægjulegt, og vísaði þar í mín orð, að þjóðarsátt ríkti um meginstefnu þessara frumvarpa. Það voru ekki mín orð. (EKJ: Staðgreiðslan held ég sé.) Já. Mín orð voru þau að þjóðarsátt ríki mjög sennilega um staðgreiðslukerfi skatta. En eins og ég tók mjög rækilega fram í ræðu minni eru hér á ferðinni mjög róttækar og umbyltandi breytingar á álagningarkerfinu. Þessi frv. eru tvíþætt. Það er annars vegar staðgreiðslan og hins vegar gjörbylting á því hvernig skattur er lagður á. Um síðara atriðið ríkir engin þjóðarsátt.