16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram við 2. umr. um frv. til umferðarlaga var boðað að við 3. umr. mundu koma fram brtt. og frá allshn. var boðað að við mundum taka sérstaklega til meðferðar hin svokölluðu fjórhjól eða torfærutæki, hvernig með þau skyldi farið.

Hér liggja fyrir brtt. á þskj. 611 um þetta atriði og mun ég gera grein fyrir þeim í örstuttu máli. Þær eru á þá leið að við 2. gr., þar sem eru skilgreindar hinar ýmsu gerðir ökutækja, bætist: Torfærutæki, vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga og/eða til dráttar, ýmist ætlað til aksturs á vegum jafnt sem vegleysum eða aðallega á vegleysum og er á tveimur, þremur eða fjórum hjólum og er innan við 400 kg að eigin þyngd.

Síðan kemur hér 3. brtt. Heiti VI. kafla breytist og verði: Sérreglur fyrir reiðhjól, bifhjól og torfærutæki, og fyrirsögn á undan 41. gr. verði: Bifhjól og torfæruhjól.

Síðan er brtt. um að 3. mgr. 41. gr. orðist svo: Við akstur bifhjóls eða torfærutækis skulu lögboðin ljós jafnan vera tendruð. Og við bætist ný mgr. er orðist svo: Torfærutæki má ekki aka í þéttbýli eða á stofnbrautum utan þéttbýlis.

Við 55. gr. Fyrirsögn breytist og inn í hana bætist torfærutæki og hún hljóði þannig: Stjórnendur dráttarvéla, vinnuvéla, léttra bifhjóla, torfærutækja og vélsleða.

4. mgr. orðist svo, og það ákvæði fjallar um aldur til að stjórna slíku torfærutæki: Enginn má stjórna vélsleða eða torfærutæki nema hann sé fullra 16 ára og hafi gilt ökuskírteini til þess eða ökuskírteini til að mega stjórna öðru vélknúnu ökutæki.

Við 63. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Áður en bifreið, bifhjól, torfærutæki, vélsleði eða dráttarvél er tekin í notkun skal ökutæki skráð og skráningarmerki sett á það.

Með þessu teljum við að þessi nýju ökutæki hafi verið felld undir lög og reglur. Þau séu komin af götunum í þéttbýli og af mestu umferðaræðum í vegakerfinu og þarna eru komin inn ákvæði um aldur til að stjórna þeim og um skráningu.

Að öðru leyti er brtt. við 32. mgr. , en það hafði fallið niður og kom fram við nánari athugun að gera grein fyrir ljósanotkun á þeim tíma þar sem ekki er lögbundið að ljós séu notuð allan sólarhringinn. 1. mgr. hljóðar þá þannig: Við akstur bifreiða skulu lögboðin ljós vera tendruð allan sólarhringinn frá 1. september til 30. apríl, en frá 1. maí til 31. ágúst skulu þau vera tendruð á tímanum frá hálfri klukkustund eftir sólarlag og til hálfrar klukkustundar fyrir sólarupprás.

2. mgr. orðist svo: Við akstur annarra ökutækja skulu lögboðin ljós vera tendruð á tímanum frá hálfri klukkustund eftir sólarlag til hálfrar klukkustundar fyrir sólarupprás. Þá skulu lögboðin ljós bifreiða og annarra ökutækja vera tendruð á öðrum tíma í rökkri, myrkri eða ljósaskiptum eða ella þegar birta er ófullnægjandi vegna veðurs eða af öðrum ástæðum, hvort heldur er til að ökumaður sjái nægilega vel fram á veginn eða til að aðrir vegfarendur sjái ökutækið. Ökutæki sem eigi eru búin ljósum skulu þá merkt samkvæmt reglum sem dómsmrh. setur.

Og við bætist ný mgr. er orðist svo: Dómsmrh. setur nánari reglur um notkun ljósa og ljósabúnað bifreiða.

Þarna er tekin upp sú almenna regla sem er í núverandi umferðarlögum og gildir um ljósanotkun, en það hafði fallið niður og er hér með lagfært.

Þetta eru þær brtt. sem nefndin varð sammála um að gera við 3. umr. og hef ég þar með gert grein fyrir þeim.