16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

119. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. til umferðarlaga sem er nú á dagskrá hafði ég boðað að ég mundi flytja og mæla fyrir brtt. um tvö atriði, en þar sem nú er orðið mjög áliðið dags og fundur orðinn langur í hv. Ed. ætla ég að reyna að taka ekki langan tíma til að mæla fyrir þessum brtt. Ég vil þó standa við orð mín og láta nokkur orð falla um þær.

Brtt. sem ég mæli hér fyrir eru á þskj. 614 og auk mín eru meðflm. hv. þm. Helgi Seljan, Eyjólfur Konráð Jónsson, Valdimar Indriðason, Jón Kristjánsson og Stefán Benediktsson. Þessar brtt. eru tvær. Sú fyrri er við 113. gr. frv. f-lið þar sem fjallað er um hlutverk Umferðarráðs, en f-liðurinn er þannig í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Að sjá um að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda tegunda og orsakir umferðarslysa í landinu.“

Þarna leggjum við til að bætt verði við þessa setningu: með samræmdri slysaskráningu lögreglu, slysadeilda, sjúkrahúsa og tryggingafélaga sem ná yfir landið allt.

Eins og fram kom í máli mínu við 2. umr. er því þannig háttað nú með skráningu slysa að hún er ekki samræmd, þ.e. sú skráning sem fer fram hjá lögreglu annars vegar og slysadeild og sjúkrahúsum hins vegar, og þess vegna eru þær opinberu skýrslur sem Umferðarráð hefur gefið um umferðarslys ekki réttar því að það vantar inn í þær upplýsingar um þau slys sem skráð eru á slysadeildinni en ekki eru skráð hjá lögreglu. Þarna getur munað um 70% hvað slysin eru fleiri en fram koma í þessum skýrslum. Það er því nauðsynlegt að samræma þessa hluti og rétt er að geta þess að nú þegar er hafinn undirbúningur að því á vegum dómsmrn. að koma slíkri samræmdri slysaskráningu á og því er eðlilegt að þetta verði sett í lögin miðað við f-lið í 113. gr. Hin brtt. er gerð við 115. gr. um að í lok þeirrar greinar bætist við ný mgr. svohljóðandi:

Dómsmrh. getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa skipaða fimm mönnum með sérfræði- og tækniþekkingu sem varðar slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðaeftirlit, löggæslu og tryggingamál. Umferðarráð skal hafa eftirlit með störfum nefndarinnar.

Ég bendi sérstaklega á að hér er gert ráð fyrir að dómsmrh. geti skipað þessa nefnd, þ.e. honum er ekki gert það að skyldu. Er þetta gert með vilja að hafa þetta með þessum hætti því að það þarf að undirbúa vel skipan slíkrar nefndar og það gæti hugsast, ef þetta frv. verður að lögum, að ekki hafi unnist nægur tími til að koma réttri skipan slíkrar nefndar á, við gildistöku laganna. Þetta er því heimildarákvæði.

Ég vil að lokum minna á að umferðarslys eru heilbrigðisvandamál þó að þessi málaflokkur heyri undir dómsmálayfirvöld, því að óhöpp í umferðinni leiða því miður oft til alvarlegra slysa og jafnvel dauða, og til þess að hægt sé að vinna markvisst að fyrirbyggjandi aðgerðum og koma í veg fyrir umferðarslys er nauðsynlegt að áreiðanlegar og ítarlegar upplýsingar um sem flesta þætti umferðarmála liggi fyrir í aðgengilegu formi. Í því sambandi má nefna samræmda slysaskráningu. Einnig er nauðsynlegt að aðrar upplýsingar séu fyrir hendi sem snúa að slíkri rannsóknarnefnd umferðarslysa, t.d. hverjir verði fyrir slysunum, hvenær þau verða, hvar, hvers vegna og hvernig og hverjar urðu afleiðingar slyssins fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðfélagið.

Ég vænti þess, herra forseti, að þessar brtt. fái stuðning hér í hv. Ed.