16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

119. mál, umferðarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Allshn. hefur nú fjallað um þetta frv. milli umræðna. Hún hefur lagt til breytingar á frv. sem eru að mínu viti til bóta. M.a. hefur verið nefnt orðið torfærutæki og það skilgreint. Að vísu finnst mér gæta örlítils misræmis eða tvítekningar öllu heldur, en eins og kunnugt er er gert ráð fyrir að bifhjól samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. sé vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- og/eða vöruflutninga og er á tveimur hjólum eða á þremur hjólum og innan við 400 kg að eigin þyngd. Nú er gert ráð fyrir að torfærutæki geti verið með tveimur eða fleiri hjólum. Mér er spurn hvort ekki geti komið upp vafi um undir hvaða heiti hin svokölluðu torfæruhjól, sem hingað til hafa verið kölluð svo, eigi að flokkast.

Í öðru lagi vil ég benda á að við 41. gr. er gert ráð fyrir að fyrirsögnin á undan greininni verði: Bifhjól og torfæruhjól. Í c-liðnum segir: „Torfæruhjóli má ekki aka í þéttbýli eða á stofnbrautum utan þéttbýlis.“ Er það svo að það megi ekki aka hjólum sem hingað til hafa raunar verið kölluð torfæruhjól á stofnbrautum eða í þéttbýli, en það megi aka fjórhjóla torfærutækjum í þéttbýli eða á stofnbrautum utan þéttbýlis“ Ég held að þetta verði að vera alveg skýrt. Ef það er svo að fjórhjóla torfærutæki kallast torfæruhjól mun þetta vera í lagi. Sé svo ekki er hér um misræmi að ræða. Ég vænti þess að hv. nefndarmenn í allshn. geri grein fyrir því hvað við er átt í þessu sambandi.

Ég fagna því að sjálfsögðu, eins og fram hefur komið og gerð hefur verið grein fyrir af hálfu formanns nefndarinnar, að nú er ekki lengur heimilt samkvæmt frv. að aka ljóslausum bíl um miðja ágústnótt eins og var í frv. fyrr.

En hér hafa verið fluttar fleiri brtt., m.a. brtt. á þskj. 614 frá Salome Þorkelsdóttur o.fl. Ég tek undir þessar brtt. og ég mun fylgja þeim. Hins vegar hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra að þær brtt. hefðu verið fluttar af nefndinni sem slíkri, þ.e. yfirskriftin hefði verið allshn., en ég ætla ekki að gera neinn ágreining út af því.

Fyrri brtt. er auðvitað nauðsynleg með tilliti til þess að Umferðarráð geti gengið eftir skráningu slysa hjá þeim aðilum sem hér eru nefndir. Af þeim sökum er sá liður brtt. mjög nauðsynlegur.

Varðandi skipun sérstakrar rannsóknarnefndar gæti einhverjum komið til hugar að starfssvið þeirrar rannsóknarnefndar skaraðist við f-liðinn þar sem tíundaður er hluti þeirra verkefna sem Umferðarráð á að annast, þ.e. að sjá um að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda tegunda og orsakir umferðarslysa. Það má segja að þar sem stendur „orsakir umferðarslysa“ sé vikið að því að Umferðarráð skuli hafa á hendi einhvers konar rannsóknir á því með hvaða hætti eða hvers vegna umferðarslys hafa orðið. Vegna þess sem hér er sagt fyrr hefði að mínum dómi verið eðlilegra að Umferðarráð hefði haft yfir umræddri rannsóknarnefnd að segja, að rannsóknarnefndin væri sett undir Umferðarráð vegna þess sem á undan er gengið. Það má hins vegar vel vera að slík rannsóknarnefnd, sem hér er lagt til að verði sett á fót eða heimilt verði að setja á fót, eigi að starfa nokkuð sjálfstætt og sé það fyrirhugað get ég út af fyrir sig fallist á að það sé farið svo vægt í sakir vegna myndugleika Umferðarráðs að Umferðarráð skuli einungis hafa eftirlit með störfum nefndarinnar.

Ég geri ráð fyrir að hv. deildarmenn séu fýsandi þess að þingfundur styttist. Menn vilja fara að komast heim. Um brtt. frá hv. þm. Árna Johnsen vil ég ekki hafa önnur orð en að ég mun ekki skrifa upp á og ekki samþykkja meiri hámarkshraða en þegar hefur verið lagður til. Ég veit að hv. þm. getur sjálfur ekið miklu hraðar en þarna er sagt til um. Ég er raunar á móti því að umferðarlög með þessum hætti, eins og mér sýnist hv. þm. leggja til, verði beinlínis hvetjandi til hraðaksturs, en mér finnst till. fela það í sér.

Að öðru leyti vil ég ekki fjalla um þetta frv., en ég vildi fá skilgreiningu á því, og þá ekki síst hjá hv. formanni allshn., hvort heimilt er að aka fjórhjóla torfærutæki á stofnbrautum og í þéttbýli.