17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

327. mál, Landhelgisgæslan

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar einungis að taka undir með hv. fyrirspyrjanda þegar hann segir að Alþingi hafi sýnt Landhelgisgæslunni sinnuleysi. Ég held að það sé ekkert ofsagt. Þar er ekki einungis um að ræða að fjárveitingar hafi verið af skornum skammti heldur höfum við jafnvel hlífst við að ræða málefni Landhelgisgæslunnar, jafnmikilvæg og hún er.

Auðvitað er það rétt að sumir telja að Landhelgisgæslan sé ekki jafnmikilvæg nú og hún var þegar við vorum að vinna okkar stærstu sigra, sem unnust raunar á miðjum síðasta áratug, en það er mikill misskilningur. Hún er ekki síður mikilvæg nú. Við höfum síðan, t.d. á árinu 1980, náð gífurlegum réttindum á Jan Mayen-svæðinu sem auðvitað þarf að gæta og við erum búnir að helga okkur Reykjaneshrygg út í 350 mílur og það getur enginn vefengt þann rétt okkar. Þar eru útlendingar að veiðum skammt undan 200 mílna mörkunum. Það þarf að fara að gæta að þeim því að allar lífverur á botninum tilheyra honum og þess vegna eru óleyfilegar allar botnvörpuveiðar þar t.d. Við þurfum að fara að gæta réttar okkar þar og nú erum við að sækja rétt okkar langt í suður á Rockall-svæðinu, en einmitt núna næstu daga verða fundir um það mál.

Það ber brýna nauðsyn til að skoða rækilega afstöðu og aðstöðu Landhelgisgæslunnar og það er skylda Alþingis að taka þau mál mjög föstum tökum og verður vonandi gert á næsta þingi þótt ekki vinnist svigrúm til þess núna. Ég endurtek að þetta er mál sem á að ræða á Alþingi og það á mjög að efla Landhelgisgæsluna. Það er alger nauðsyn, ekkert minni nú en var um miðjan síðasta áratug.