18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. kosningalaganefndar (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í lok þessarar umræðu. Hv. þm. Karvel Pálmason fjallaði um atburði við setningu stjórnarskrárákvæðanna á sínum tíma. Við nefndarmenn fengum frv. í hendur sem búið var að gera um pólitískt samkomulag á milli meiri hluta í öllum stjórnmálaflokkum. Það hafði verið ákveðið í stjórnarskrá að flytja sem svaraði öllum núverandi landsk. þm. utan af landi til Reykjaness og Reykjavíkur og gera þar á ofan einn þm. hvers landsbyggðarkjördæmis að jöfnunarmanni, auk þess sem fjölgað er um þrjá og fer einn þeirra í dreifbýlið og einn í R-kjördæmin og síðan er „flakkarinn“ sem getur verið hvar sem er.

Við stóðum frammi fyrir því að það var búið að gera þetta samkomulag. Við gjörning þessa samkomulags barðist ég á móti þessum flutningi á sínum tíma. Mér fannst og finnst enn að landsbyggðinni veiti ekkert af starfskröftum allra þeirra fulltrúa sem hún hefur. En við biðum lægri hlut. Þingmeirihluti var ekki og er ekki fyrir þeim hugmyndum. Við það verður að búa. Það eru ekki skilyrði til þess að varðveita óbreytt ástand. Verkefni okkar í nefndinni var að endurskoða lögin og bæta þau. Það tókst okkur að verulegu marki.

Menn tala um að hér séu enn þá flókin lög. Ég er ekki sammála því og ég er ekki sammála því sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði að sum ákvæði þeirra séu flóknari nú en áður. Ég held að þau séu öll sömul rökréttari núna og einfaldari en þegar við tókum við þeim. Ég tel að þegar menn venjast þessum lögum og læra þau sjái þeir að þetta eru að flestu leyti einföld og rökrétt lög. Ég tel að við höfum lagfært mjög mikið í þessum lögum og þau séu nú viðunandi þannig að hægt sé að kjósa eftir þeim.

Við höfum látið reikna og tekið við, sagði hv. þm. Það væri nú skárra ef við hefðum ekki látið reikna fyrir okkur og athuga þá möguleika sem fyrir hendi voru. Það var sjálfsagður hlutur að hagnýta sér nútímatækni til þess að athuga hvernig hin ýmsu ákvæði virkuðu. Við erum búnir að láta Reiknistofnun Háskólans athuga ýmsa möguleika fyrir okkur. Hins vegar var ævinlega ákvörðunin okkar um hvort þessi eða hin leiðin yrði farin. Reiknimeistarar hafa unnið vel í okkar þágu, þeir hafa reynt að svara spurningum sem við höfum lagt fyrir þá og reiknað út þá möguleika og þau afbrigði sem við höfum beðið þá um. Þeir hafa verið okkur mjög hjálplegir, en eins og kom hér fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, þá er búningurinn núna ákvörðun okkar og á ábyrgð okkar nefndarmanna. Ég kann hins vegar þeim sem hafa lagt okkur lið öllum saman bestu þakkir.

Vegna þess hvernig hv. þm. Karvel Pálmason hagaði orðum sínum er gaman að segja frá því að þegar við vorum búnir að ljúka við að ganga frá nál. í nefndinni og vorum að ljúka fundi, þá kynnti sá sérfræðingur, sem okkur hefur verið mest innan handar, Þorkell Helgason, fyrir okkur þær hugmyndir eða þá reiknireglu sem hann taldi besta. Þegar við vorum búnir að koma okkur saman sýndi hann okkur hvað honum hefði þótt heppilegust niðurstaða. Hann var hins vegar ekkert að pranga henni upp á okkur, heldur sýndi okkur hana okkur til skemmtunar. Þessi lög eru því ekki óskalausn neins af þeim reiknimeisturum sem við höfum beðið að hjálpa okkur, en við höfum tekið tillit til sjónarmiða þeirra og notið ágætrar aðstoðar þeirra við að athuga hina ýmsu möguleika og þeir hafa bent okkur á ýmislegt sem betur mátti fara.

Varðandi umræður um loforðin sem formenn flokkanna gáfu á sínum tíma, þá koma þau loforð ekki mér við. Ég gerði mér ekki neinar gyllivonir um þau. Ég reiknaði með því að það yrði bið á því að þau kæmust öll til framkvæmda, því miður. Það er sjálfsagt fyrir hv. 3. þm. Vestf. að ganga harkalega eftir því við formennina, bæði sinn og aðra, en það er ekki mitt að svara fyrir það mál.