18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3240 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

18. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Lok ræðu hv. síðasta ræðumanns eru einhver þau dapurlegustu sem ég hef heyrt af fulltrúa dreifbýliskjördæmis. Hann sagði orðrétt: Loforð formanna á sínum tíma koma mér ekki við. Ég gerði mér engar grillur um að þau næðu fram að ganga. - Hvernig búast menn við því að réttur sé hlutur dreifbýlisfólks ef forustumenn stjórnmálaflokka ekki bara hugsa svona heldur tala líka og framkvæma? Er umboði dreifbýlisfólks vel treystandi í höndum slíkra manna? Maður verður að ætla a.m.k. að óreyndu að velflestir framsóknarmenn séu á svipuðu róli og þingflokksformaður þeirra er í þessum efnum. Og við hverju á þá að búast fyrir þetta fólk?

Ég vísa algjörlega á bug ræðum af slíku tagi sem hv. þm. Páll Pétursson flutti hér áðan. Það er ekki sæmandi fulltrúum þess fólks sem býr við þær aðstæður sem dreifbýlið gerir, það er ekki sæmandi þeim að tala í þeim dúr sem hv. þm. Páll Pétursson gerði hér áðan. Það er a.m.k. nauðsynlegt að gera dreifbýlisfólki grein fyrir þessum hugsanahætti sérstaklega eins og þessir menn haga sér.

Hv. þm. sagði hér áðan: Það er ekki þingmeirihluti fyrir meira vægi dreifbýlisins í kosningareglum. Og bætti svo hinu við: Mér kemur ekki við hvað gerist á öðrum sviðum fyrir þetta fólk. - Þarna hafa menn hvað þessir herrar vilja gera fyrir það fólk sem stendur höllustum fæti í lífsbaráttunni.

Ég a.m.k. geri ráð fyrir, ef ekki kemur annað fram í þessum umræðum, að eftir þessu höfði dansi limirnir í þingflokki Framsfl., þeir séu allir á sömu skoðun, ef ekkert annað kemur fram.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað