18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

294. mál, umboðsmaður Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er langur meðgöngutími á Alþingi Íslendinga á þeim málum sem menn taka til umfjöllunar. Við erum hér að ræða staðgreiðslukerfi skatta, sú umræða er búin að standa í 40 ár. Við erum að ræða virðisaukaskatt, sú umræða er búin að standa í hátt á annan áratug. Og nú er hér umboðsmaður Alþingis og það er eitthvað 15 ára gamalt sem þingmál.

Ég held að það sé umhugsunarefni hversu langan tíma tekur fyrir mál að ná fram á Alþingi þegar það verður að teljast í áratugum í hverju málinu á fætur öðru. Og jafnan er þess getið þegar mælt er fyrir þessum málum að þetta séu enn eldri hugmyndir að því er varðar umheiminn, eitthvað sem menn hafa tekið kannske upp í grannlöndum okkar áratuginum fyrr eða mörgum árum áður en því var fyrst hreyft hér á Alþingi. Ég held að þetta sé mikið umhugsunarefni. Það er eins og meðgöngutíminn sé hjá Alþingi í árum álíka og hjá fílnum í mánuðum eða jafnvel lengri.

Það mál sem hér um ræðir er hið ágætasta mál og hefur sem sagt margsinnis komið til umfjöllunar á þinginu, fyrst eftir því sem segir í grg. í þáltill. frá Pétri Sigurðssyni á árinu 1971-1972. Það eru 15-16 ár síðan. Ég veit það að minn stjórnmálaflokkur hefur haft þetta á stefnuskrá sinni mjög lengi, a.m.k. allar götur síðan 1974 ef ekki lengur. Mig grunar að svo sé um fleiri stjórnmálaflokka, að þeir hafi haft þetta mál á stefnuskrá sinni um þó nokkurn tíma, en samt tekur svona langan tíma að koma því til framkvæmda - og þá er ég að gera ráð fyrir, herra forseti, að þetta verði að lögum núna og er það þó ekki komið nema rétt út úr nefnd í fyrri deild.

Um frv. sjálft hef ég ekki nema gott eitt að segja. Ég tel að það sé löngu tímabært að þetta starf sé tekið upp, minnist þess reyndar að í minnihlutastjórn Alþfl. var reynd leið, uppálöppunarleið getum við kallað það, til þess að taka á þessu máli. Þá var ráðinn maður til dómsmrn. sem ætlað var að gegna svipuðu hlutverki og hér um ræðir, en hafði auðvitað ekki til þess þær lagalegu forsendur sem nauðsynlegar voru, enda engin lög um það starf. Það lagðist síðan af, var sjálfsagt erfitt að gegna því, þurfti að hafa sterkari lagalegar forsendur, og e.t.v. var áhuginn í ráðuneytinu ekki jafnmikill og hjá okkur þm. Alþfl. á sínum tíma þegar við komum þessu á fót.

Ég fagna því að nefndin skuli hafa afgreitt þetta mál frá sér, tel að hér sé mannréttindamál á ferðinni og vona að það fái farsælar lyktir um leið og ég ber þá ósk fram til þjóðarinnar og Alþingis að meðgöngutími hinna ágætustu mála þurfi ekki að teljast í áratugum í framtíðinni eins og hann gerir greinilega í fortíðinni og skýt því að forsetum og þingmönnum hvort ekki geti verið eitthvað sem endurskoðunar þarfnist í vinnubrögðum Alþingis til þess að stytta meðgöngutíma hinna ágætustu mála úr þeim áratugum sem þau teljast í núna.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.