19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

119. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Frú forseti. Ég fagna því hve þetta umferðarlagafrv. er komið vel á veg og Ed. sýnist mér að hafi unnið vel að málinu og lagað það mikið. Hún hefur tekið inn í það ákvæði um hámarkshraða úr frv. sem ég flutti á þskj. 52 og því er ég feginn og þá er ekki ástæða til að afgreiða frv. mitt þar sem efni þess er komið inn í þetta umferðarlagafrv.

Ég tel að frv. hafi batnað mikið í Ed. Tvennt tel ég þó að lagfæra þurfi enn þá í þessu frv. og ég leyfi mér að leggja fram brtt. um þau tvö atriði sem ég tel að þurfi enn að bæta.

Í fyrsta lagi legg ég til að 32. gr. verði breytt þannig að upphaf hennar sé: „Við akstur bifreiðar skulu lögboðin ljós vera tendruð allan sólarhringinn“, en ekki bara allan sólarhringinn frá 1. sept. til 30. apríl. Ég tel að það sé rétt að innleiða það sem meginreglu að menn keyri alltaf með ljós. Ef menn venja sig á að keyra með ljósum eru þeir miklu öruggari í umferðinni og ber miklu meira á bifreiðinni og akstur verður allur miklu öruggari. Jafnvel þó að bjart sé af degi og sólskin tel ég rétt að menn temji sér að aka með ljósum. Það eru mjög ströng ákvæði um þetta víða, t.d. í Svíþjóð. Sænskir bílar eru útbúnir þannig að það er ekki hægt, ef þeir eru í akstri, að slökkva ljósin. Ég tel að það sé eftirsóknarvert að taka upp þá reglu hér með bíla sem verða fluttir inn. Hins vegar er ég ekki að leggja til að breyta þeim bílum sem hér eru, en legg til að menn temji sér þetta og það verði lögboðið að aka með ljósum. Um þetta hafa verið flutt frv. hér á þingi áður en ekki náð fram að ganga, en ég tel að eðlilegt sé að festa þetta í lög.

Í öðru lagi er það gamalt deilumál sem oft hefur borið á góma þegar umferðarlög hafa verið til umræðu hér í þinginu og er það um skráningu ökutækja. Ég legg til að í 64. gr. verði heimild dómsmrh. til að setja reglur um skráningu ökutækja bundin þannig að skráning verði miðuð við umdæmi, eins og verið hefur, og heimilt verði að halda skráningarnúmeri við eigendaskipti. Ég vil halda í það kerfi sem við búum við. Ég tel að það sé ástæðulaust að taka númer af fólki sem það hefur kannske af einhverjum ástæðum bundið tryggð við og lofa mönnum að eiga sín númer ef þeir óska þess. Nú kann að vera að mönnum sé ekkert sárt um númerið sitt og þá er ég ekki að hafa á móti því að það fylgi bílnum, en þeir sem þess óska eigi kost á því að halda sínu skráningarnúmeri þó þeir skipti um bíl.

Ég legg mikla áherslu á að ég held að það séu drjúgmargir sem eru þeirrar sömu skoðunar og ég að ástæðulaust sé að breyta þessu. Menn hafa verið að mikla fyrir sér hagræði það sem Bifreiðaeftirlitið hefði af því að breyta þessum reglum og láta sama númer fylgja bifreiðinni allan hennar notkunartíma. Ég held að menn geri allt of mikið úr því hagræði. Ég er ekkert að hafa á móti því þó að menn borgi eitthvað fyrir umskráningu og bifreiðaeigendur beri aukakostnað af því sjálfir ef þeir kjósa að halda sínu númeri, en ég vil ekki gefa svigrúm til að setja reglur um að taka númerið af mönnum sem vilja halda því.

Í Ed. voru sett nánari ákvæði um torfæruhjól. Ég er út af fyrir sig ekki að hafa á móti þeim, en ég varpa því fram til hv. allshn. hvort ekki er ástæða til að gaumgæfa sérstaklega þessi torfæruhjól og þá einkum að setja reglur um akstur þeirra utan vega. Þetta eru kraftmikil tæki og særa jarðveginn og ég óttast að innan fárra ára komum við til með að sjá ljót merki eftir torfæruhjól víða á viðkvæmum svæðum. Þetta eru þægileg tæki og vafalaust verða margir sem telja sér hag í að nota þau, en ég bið allshn. að hugleiða hvort þeim sýnist ekki tiltækilegt að lögfesta reglur bókstaflega um akstur þessara tækja utan vega þannig að ekki þurfi að hljótast stórfelld náttúruspjöll af notkun þeirra. Mér er ljóst að það er miklum vandkvæðum bundið að setja slíkar reglur, en kann þó að vera að það sé unnt að gera það. Ég held a.m.k. þyrfti að leggja mjög ríka áherslu á að almenningsálitið passaði upp á ökumenn sem yllu verulegum náttúruspjöllum.

Umræðu frestað.

1