23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3296 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það kom glöggt fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh. hvílík afturfótafæðing er hér á ferð þar sem er endurreisn Útvegsbankans samkvæmt fyrirliggjandi frv. Eins og hann rakti skilmerkilega var gerð ítarleg úttekt á því af hálfu Útvegsbankans og tillögur gerðar í kjölfar þess um það hvernig best væri að standa að málum eftir að gjaldþrot Útvegsbankans blasti við. Það varð niðurstaða sérfróðra aðila, sem um þetta fjölluðu, og tillaga bankastjórnar Seðlabankans að leitast yrði við að sameina Útvegsbankann öðrum banka og þannig yrði reynt að fækka bönkum, gera bankakerfið ódýrara, einfaldara og ná fram sparnaði fyrir þjóðarheildina. Það var sérstaklega tekið fram í álitsgerð Seðlabankans, eins og raunar kom mjög greinilega fram í máli hæstv. viðskrh., að versta leiðin sem til álita kæmi væri sú sem seinast var nefnd, þ.e. að endurreisa Útvegsbankann í nýrri mynd. Við minnumst þess líka að hæstv. fjmrh. lýsti því hvað eftir annað yfir að það yrði ekki varið einni einustu krónu úr ríkissjóði til að gera upp þetta þrotabú. Síðan glímdu þeir við það um langt skeið að sameina Útvegsbankann öðrum bönkum, einkum og sér í lagi að reyna að koma fótum undir nýjan öflugan einkabanka. En þetta tókst ekki. Eftir að ekki tókst að mynda nýjan einkabanka virtist lítill áhugi fyrir frekari tilraunum til einföldunar og sparnaðar í bankakerfinu, hver höndin upp á móti annarri innan stjórnarflokkanna. Reyndar voru sumar leiðirnar aldrei reyndar. Þá á ég við t.d. að sameina Útvegsbankann Landsbankanum sem hefði getað komið vel til greina. Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórnin rann á rassinn með allar sínar fyrirætlanir, allar sínar fögru yfirlýsingar um einföldun og sparnað í bankakerfinu. Fjármálaráðherrann hljóp frá yfirlýsingum sínum um að ekki skyldi verja stórum fjárhæðum af fé skattborgaranna til að endurreisa Útvegsbankann og versta leiðin var valin, sú sem Seðlabankinn varaði sem mest við.

Það er sannarlega einkennilegt fyrirbrigði sem nú verður til í kjölfar þessa lagafrv. Ríkið á að eiga allt fjármagn í þessum banka eða mestallt í öllu falli. Það er ekki vitað með vissu um neina einkaaðila sem eru reiðubúnir til að leggja fram fé til þessa banka. En mikill hluti fjárins er kominn frá ríkinu. Auk þess afhendir ríkið þessu nýja einkafyrirtæki allar eignir bankans að sjálfsögðu. Samt sem áður, þó hér sé um að ræða ríkisfé að mestu leyti, á þetta að heita hlutafélag. Ríkisfyrirtæki á að bera nafn hlutafélags. Maður bíður eftir því hvenær þróunin verður komin á það stig hjá stjórnarflokkunum að við fáum fyrirtæki sem nefnist „Ríkissjóður hf.“ Vissulega mætti alveg eins hugsa sér það eins og hitt að stofna einkabanka sem er að mestu leyti í eigu ríkisins en á samt að vera hlutafélag.

Öll er saga þessa banka ákaflega sérkennileg. Eins og menn vita var þessi banki gjaldþrota hér fyrr á öldinni, sá sem var fyrirrennari Útvegsbankans. Þá var stofnað hlutafélag til að bjarga Íslandsbanka. Síðan liðu 30 ár. Þá er enn þörf á því að bjarga Útvegsbanka Íslands hf., eins og hann hét þá. Þá er gripið til þess úrræðis að breyta Útvegsbankanum í ríkisbanka til að bjarga hlutafélagsbankanum sem þá var fyrir. Núna, 16 árum síðar, er gripið til mjög hliðstæðs úrræðis og enn til að bjarga þessum banka, nema bara að nú er úrræðið öfugt við það sem seinast var. Nú á að breyta ríkisbanka í hlutafélagsbanka til að bjarga honum. Ég spái því hins vegar að eftir örfá ár komi til þess að Alþingi ákveði að breyta þessum hlutafélagsbanka enn einu sinni yfir í ríkisbanka vegna þess að bankinn verði þá enn kominn í þrot. það er alltaf til skiptis valin önnur leiðin, annaðhvort að breyta ríkisbankanum í hlutafélagsbanka eða hlutafélagsbankanum í ríkisbanka. Það yrði þá í fjórða sinn sem sú leið yrði valin og í öll skiptin er um stórkostlega björgunaraðferð að ræða sem því miður endist ekki of lengi.

Menn kunna kannske að spyrja: Hvort skyldi vera betra, að þetta sé hlutafélagsbanki eða ríkisbanki, úr því alltaf er verið að breyta þessu? Ég held að ekki þurfi að færa mikil rök að því að auðvitað er hlutafélagsbanki miklu veikari banki en ríkisbanki. Það er satt að segja alveg afleitt fyrir þennan banka að breytast úr ríkisbanka í hlutafélagsbanka vegna þess að það verður bankanum mjög til bölvunar erlendis. Það er alveg ljóst að þegar bankinn tekur lán erlendis og getur ekki boðið upp á ríkisábyrgð verður hann að greiða miklu hærri vexti og kostnað af slíkri lántöku. Hann er ekki jafnmikils trausts verður eftir að búið er að breyta honum með þessum hætti og því verða lántökur hans með óhagstæðari skilyrðum.

Eins er alveg ljóst að viðskiptamenn bankans munu taka nokkurt tillit til þess þegar þeir leggja innstæður í bankann ef ríkið ber enga ábyrgð á þessum innistæðum eins og nú er. Það er því alveg ljóst að þessi banki verður miklu veikari en áður var og afskaplega erfitt að sjá að þessi björgunarleiðangur, sem nú er lagt upp í, sé líklegur til að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll.

Í öðru lagi er það afar óeðlileg breyting að viðskrh. eigi að ráða fjórum af fimm bankaráðsmönnum, eins og væntanlega verður eftir að búið er að breyta bankanum úr ríkisbanka í einkabanka. Ef menn ímynda sér að bankinn taki stórkostlegum breytingum til hins betra þegar hæstv. viðskrh. er búinn að tilnefna fjóra sjálfstæðismenn sem bankaráðsmenn hjá Útvegsbankanum hf. í staðinn fyrir að Alþingi hefur kosið þessa menn er ég ansi hræddur um að menn líti ekki mjög frjálslyndislegum augum á mál yfirleitt. Það er ólýðræðislegt fyrirkomulag í eðli sínu að einn maður, viðskrh. í þessu tilviki, hafi slíkt vald, sem hann fær með þessum hætti, og bersýnilega til hins verra á allan hátt. Auk þess tel ég að það sé ekki til bóta að erlendir bankar geti eignast hlut í þessum banka, en skal að vísu viðurkenna að það má vera að það sé mikið til í því, sem hæstv. viðskrh. sagði hérna áðan, að það kunni að vera takmarkaður áhugi hjá erlendum bönkum að eignast hlut í þessum íslenska banka og því ekki sérlega líklegt að þetta ákvæði komi nokkurn tíma til framkvæmda.

Ég lít svo á að kjarni þessa máls sé: Ríkisstjórnin rann á rassinn með allar sínar fyrirætlanir um einföldun og sparnað í bankakerfinu. Hún gafst upp á viðfangsefninu að sameina banka fyrst og fremst vegna ósamkomulags innan stjórnarflokkanna, en ekki vegna þess að það væri ekki tæknilega framkvæmanlegt. Hæstv. viðskrh. gafst upp á verkefni sínu og hæstv. fjmrh. hljóp frá öllum fyrri yfirlýsingum um að ekki ætti að verja fé skattborgaranna til að endurreisa Útvegsbankann. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar allt er talið saman hjá ríkisstjórninni og versta leiðin er valin, sú leið sem að dómi sérfróðra manna var talin síst til þess fallin að betrumbæta bankakerfið.