24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

355. mál, símaþjónusta

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fyrstu spurningu er að 1. febr. 1983 var afnotagjald fyrir síma 387 kr., 11. maí sama ár 484 og 1. ágúst 1983 575, 1. júlí 1985 530 kr. og 1. janúar 1987 585 kr. Þetta er allt án söluskatts. Afnotagjald síma hefur því aðeins hækkað um 1,7% frá 1. ágúst 1983 eða í rúma 42 mánuði. Frá 1. ágúst 1983 hefur verð á hverju teljaraskrefi hins vegar lækkað úr 1,35 kr. í 1,32 kr. eða um 2,3%.

Svar við annarri spurningu: 1. janúar s.l. var byrjað að breyta gjaldflokki 1 úr 60 sekúndum í skrefi að degi til og 120 sekúndum um kvöld og helgar í 360 sekúndur allan sólarhringinn en það er sama og gjaldflokkur 0 að degi til. Þessu verki var lokið í janúar s.l. og frá sama tíma var afslætti á nætur- og helgartaxta í langlínuumferð breytt úr 50% í 33% miðað við dagtaxta. Á undanförnum árum hafa fjölmargar lækkanir verið gerðar á töxtum milli ákveðinna staða og skal ég aðeins nefna örfá dæmi tímans vegna.

Gjöld milli Egilsstaða, Eiða og Lagarfoss lækkuð úr gjaldflokki 1, 60 sekúndum, í gjaldflokk 0, 6 mínútur. Símstöðin Ásgarður í Sogi lögð niður og notendur tengdir til Selfoss, þ.e. lækkun úr gjaldflokki 1, 60 sekúndum, í gjaldflokk 0, 6 mínútur. Gjöld milli Hvolsvallar og Hellu lækkuð úr gjaldflokki 1, 60 sekúndum, í gjaldflokk 0, 6 mínútur. Gjöld milli Keflavíkur, Garðs, Grindavíkur, Keflavíkurflugvallar, Sandgerðis og Voga lækkuð úr gjaldflokki 1, 60 sekúndum, í gjaldflokk 0, 6 mínútur. Símstöðin Árnes lögð niður og notendurnir tengdir til Flúða, þ.e. lækkun úr gjaldflokki 1, 60 sekúndum í gjaldflokk 0, 6 mínútur. Bráðlega verður Víkurhnútur felldur undir Hvolsvallarhnút og við það breytist gjaldið milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs annars vegar og Hvolsvallar, Búrfells, Hellu, Laugalands og Steina hins vegar úr gjaldflokki 2, 18 sekúndur, í gjaldflokk 1, 60 sekúndur.

Svar við 3. spurningu: Á undanförnum fjórum árum hafa verið settar upp sjálfvirkar símstöðvar af nýrri og tæknilega fullkomnari tegund, stafrænar símstöðvar. Fyrsta stöð þessarar tegundar var tekin í notkun í Reykjavík í ársbyrjun 1984 og var strax farið að tengja beinar línur frá henni út um allt land. Auk þess að vera notendasímstöð nýtist hún einnig sem langlínusímstöð. Nú hafa verið teknar í notkun stöðvar af þessari tegund á Keflavíkurflugvelli, Sauðárkrókssvæði, Hvolsvallarsvæði og Húsavíkursvæði og hafa langlínumöguleikar þessara svæða verið stórbættir um leið. Búið er að panta svona stöðvar fyrir Egilsstaðasvæði og Borgarnessvæði og verða þær teknar í notkun á þessu ári. Á öðrum svæðum landsins hefur stofnunin endurnotað það símaefni sem losnað hefur vegna útskiptingar yfir í þessar nýju stöðvar og einnig hefur verið keypt viðbótarefni til fjölgunar langlínusambanda milli stöðva af eldri tegundum.

Á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lagðir ljósleiðarar sem flutt geta mikinn fjölda símarása samtímis. Nú þegar er farið að nota þessi sambönd á milli stafrænu stöðvanna á höfuðborgarsvæðinu. Á síðasta ári var lagður ljósleiðarastrengur milli Reykjavíkur, Selfoss og Hvolsvallar og verður hann tekinn í notkun bráðlega. Á þessu ári verður lagður fyrri áfangi ljósleiðarasambands milli Reykjavíkur og Akureyrar. Er fyrirhugað að ljúka þeirri framkvæmd á næsta ári. Gæði sambanda um ljósleiðara eru miklu meiri en á eldri gerðum sambanda.

Að lokum skal á það bent að mesti álagstími langlínusambanda var eftir kl. 19 á kvöldin en lækkun afsláttar að kvöldi til, eins og fram kemur í svari við 2. spurningu, var m.a. sett á í þeim tilgangi að liðka fyrir símaumferð á þessum tíma með því að beina hluta hennar yfir á aðra tíma sólarhringsins.

Svar við 4. spurningu: Í ágúst 1986 voru síðustu handvirku símarnir gerðir sjálfvirkir og fengu þeir þar með sólarhringsþjónustu. Var þetta verk unnið samkvæmt sérstökum lögum þar um. Í handvirka kerfinu var val milli símstöðva takmarkað við opnunartíma þeirra. Niðurfelling aðflutningsgjalda og sölugjalds síðustu árin af framkvæmdaefni fyrir sjálfvirkar símstöðvar og sambönd hefur átt stóran þátt í hraðri uppbyggingu sjálfvirka kerfisins. Þetta ásamt tilkomu sjálfvirka farsímakerfisins, sem opnað var 3. júlí á s.l. ári, hefur stóraukið gildi símans sem öryggistækis. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlögum mun sjálfvirka farsímakerfið ná að mestu leyti um allt landið í lok þessa árs. Skip nálægt landi hafa auk þess mikil not af farsímakerfinu til viðbótar við önnur fjarskipti þeirra og eykur það þar með öryggi sjófarenda.