24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

355. mál, símaþjónusta

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Forseti. Ég þakka samgrh. fyrir hans svör. Það kemur greinilega fram að mikið verk hefur verið unnið til bóta á símakerfi landsins og það er ánægjulegt að heyra það. Maður hefur aftur séð um það skrifað í blöðum og heyrt talað um það að síminn sé dýr en ég held að maður geti sagt að það hafi þá verið í þá áttina að hann hafi verið lækkandi. Þetta tæki er bara svo gífurlega mikið notað orðið.

Ég held að einnig sé mjög nauðsynlegt að gera eins mikið að því og mögulegt er að jafna símakostnaðinn milli allra landshluta og væntanlega verður það næsta sporið. Þetta er fyrst og fremst geysilega mikið öryggistæki sem ekki heldur má klikka. Það er afskaplega stór þáttur að síminn sé alltaf virkur og tiltækur þegar á þarf að halda. Þess vegna er að mínum dómi unnið rétt að og hefur mikið áunnist í því eftir því sem fram kom hjá ráðherranum.