24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni yfir því hvað miklar umræður hafa spunnist um skýrslu milliþinganefndar sem ég lagði hér fram fyrir alllöngu síðan. Mér finnst það benda til þess að það hafi verið nauðsynlegt að leggja hana fram í þessu formi sem hún er. Ég vil segja það að í henni er mjög mikill fróðleikur um húsnæðismálin, ýmsar nauðsynlegar ábendingar sem verða til að auðvelda mönnum að móta stefnu sem þeir vilja taka í sambandi við þessi mál. Þó að ég hafi vænst þess að fulltrúar allra stjórnmálaflokka gætu komið sér saman um einhverjar ákveðnari tillögur um þessi mál, þá fagna ég því sem er í þessari skýrslu. Það er margt sem, eins og ég sagði áðan, mun koma að miklum notum.

Vegna ræðu hv. formanns Alþfl., sem hér var að stíga úr ræðustól, þykir mér ástæða til að koma hér inn á nokkur atriði sem hann vakti máls á hér af miklum vígagangi. Ég vil fyrst segja það að ég hef talið það mitt hlutverk að láta vinna að ýmsum úttektum á ýmsum málaflokkum sem menn eru sammála um að hafi mikla þýðingu á þessu sviði, ekki síst á húsnæðissviði, og raunar fleiri sviðum, og hef á undanförnum árum skipað í það nefndir.

Ég get nefnt t.d. nefnd sem gerði úttekt og tillögur um að samræma brunabótamat og fasteignamat og liggja um það ákveðin frumvörp í viðkomandi ráðuneytum sem verða væntanlega sýnd bráðlega.

Ég hef látið gera úttekt m.a. á þolhönnun mannvirkja sem hefur m.a. leitt í ljós nauðsyn þess að gera frekari úttekt með nákvæmni á ýmsum mannvirkjum í landinu og er verið að gera núna á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Niðurstöður af þeirri úttekt eiga eftir að koma í ljós mjög fljótlega, en þær sýna það að mannvirki hér á landi eru gölluð. Þau standast ekki þær kröfur sem gera þarf í sambandi við slík mannvirki ef jarðhræringar eða aðrar náttúruhamfarir koma yfir okkur. Þetta er alvarlegt mál. Mjög mætir menn hafa starfað í þessari nefnd og ég vænti mikils af þeirri nákvæmu vinnu sem á að leiða í ljós raunverulega úttekt á þessu sviði.

Sömuleiðis taldi ég nauðsynlegt að láta gera úttekt á fasteignamarkaði hér á landi og valdi í það hæfa menn í byrjun árs 1985 undir forustu þess manns sem oft er hér nefndur, Stefáns Ingólfssonar verkfræðings. Þessi nefnd vann mjög ötullega að þessari úttekt og gaf út, eins og hér hefur komið fram, mjög merkilegar skýrslur um þessi mál.

Vegna þess sem hér hefur komið fram í máli hv. 5. þm. Reykv. og raunar í blaðagreinum þar sem ég hef verið borinn þeim sökum að stinga slíkum skýrslum og úttektum undir stól og leyna þeim fyrir aðilum í þjóðfélaginu, þá þykir mér rétt að afsanna það hér rækilega svo ekki sé verið að hafa slíkt mál í flimtingum eins og hér hefur gerst, m.a.s. hjá hv. formanni Alþfl. hér í þessum ræðustóli.

Það vill svo til að formaður þessarar nefndar hefur áhuga fyrir því að koma sínum upplýsingum á framfæri og í samráði við sína nefndarmenn gaf hann fjölmiðlum upplýsingar jafnóðum og þessar skýrslur urðu til. Og ég hvatti sérstaklega til þess og stuðlaði að því að tvívegis var haldinn opinber blaðamannafundur - tvívegis var haldinn opinber blaðamannafundur, hv. 5. þm. Reykv., - þar sem þessar skýrslur voru lagðar fram. Ekki aðeins til að lesa úr þeim af einhverjum ákveðnum manni heldur til að afhenda öllum sem áhuga höfðu og þær voru skýrðar af formanni nefndarinnar fyrir fjölmiðlafólki, ekki aðeins á einum slíkum fundi heldur tveimur. Og ekki aðeins það heldur fengu allir fjölmiðlar skýrslurnar í hendur. Og ekki nóg með það heldur fól ég formanni nefndarinnar að halda sérstakt námskeið um þessi mál meðal fjölmiðlafólks og þetta námskeið stóð í þrjá daga. Það var mjög vel sótt af fulltrúum frá öllum fjölmiðlum, bæði ríkisfjölmiðlum og dagblöðum. Og hver haldið þið að hafi verið leiðbeinandi á námskeiðinu? Það var formaður þeirrar nefndar sem oft er hér vitnað í þar sem hann útskýrði verkefni þessarar nefndar og niðurstöður úr ýmsum könnunum í sambandi við fasteignamarkað hér á landi. Og það var ekki aðeins þetta sem var gert heldur var í samráði við Félag fasteignasala á Íslandi og félmrn. gefin út sérstök handbók. Hún var gefin út í tugþúsunda eintökum. Hún var send inn á flest heimili í landinu, þessi bók, og hefur verið til afhendingar síðan á mörgum opinberum stöðum.

En þetta var ekki allt, herra formaður Alþfl., ef hann vill gjöra svo vel og hlusta. Þetta var ekki allt búið. Af því að hann var að bera það á borð og raunar hv. varaformaður einnig í ýmsum blaðagreinum og viðtölum að þessu hafi verið stungið undir stól, þessu hafi verið leynt. Hver er sannleikurinn í málinu? Það fyrsta sem ég gerði þegar ég skipaði milliþinganefnd sem hér er til umræðu eða skýrsla hennar, hvað haldið þið að hafi verið það fyrsta sem ég gerði? Það var að fela nefndinni, formanni þeirrar nefndar, að afhenda jafnóðum skýrslur þessarar nefndar til milliþinganefndarinnar. Það vill svo til að ég er með í höndunum skjalaskrá milliþinganefndarinnar og er í skránni tiltekið númer, hvenær hver skýrsla er afhent nefndinni, alveg frá því hún tók til starfa 1985. Lokaskýrslan nr. 6 var afhent nefndinni 28. febr. 1986. Það var lokaskýrslan. Hver einasti fulltrúi stjórnmálaflokkanna á Alþingi sem átti sæti í þessari nefnd hafði þessar skýrslur allar undir höndum. Þetta var nú leyndin. Ég hef ekki vanið mig á það, herra formaður Alþfl., 5. þm. Reykv., að stinga neinu undir stól af svona gögnum. Mín stefna er einmitt sú að reyna að afla upplýsinga og láta þær í té við öll þau tækifæri sem mögulegt er. Ég hef sennilega gert meira í sambandi við starf þessarar nefndar en nokkurrar annarrar nefndar. Ég fól formanni hennar að hafa forgöngu um að skýra þetta verkefni út við öll möguleg tækifæri og hann gerði það vissulega vel.

Ég ætla því ekki að hafa meira mál um þetta, en mér þykir leitt þegar menn eins og formaður Alþfl., sem ætlar sér greinilega eða hugsar sér alla vega og lætur sig dreyma um stóra hluti í þjóðmálum hér á landi, skuli leyfa sér að gera þetta að slíku umtalsefni og fullyrða hér úr ræðustól að það sé verið að fara aftan að hlutunum án þess að kynna sér það á einn eða neinn hátt. Það er ósæmilegt og gera ekki nema óvandaðir menn, herra formaður Alþfl.

Ég þarf ekki að ræða meira um þetta, en sný mér að öðru sem hv. 5. þm. Reykv. kom með sem var margt vel fram sett þó það væri ekki að öllu leyti sannleikanum samkvæmt eða samræmi í því þegar grannt er skoðað.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði að allt hefði farið aftur á bak í húsnæðismálum þann tíma sem ég hef stjórnað þessum málaflokki. Það mátti ekki viðurkenna eitt eða neitt í sambandi við þessi mál. Nú ætla ég að lesa fyrir hann örfáar tölur sem hann getur sannprófað hjá flokksmanni sínum, sem er forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, ef hann dregur mín orð í efa.

Raunar eru þau í fréttabréfi Húsnæðisstofnunarinnar ef hann vill hafa nærtæk gögn í höndum. Það er raunvirðisaukning lána til húsnæðismála, þ.e. byggingarsjóðanna, á vissu árabili. Ég ætla að byrja 1984: Raunvirðisaukning til byggingarsjóðanna 1984 frá fyrri árum var 46%-46%. Raunvirðisaukning 1985 var 8,2%. Raunvirðisaukning 1986 var 12,8%.

Ég þarf ekki að lesa þessar upphæðir. Það væri nóg fyrir hv. þm. að hafa þessa töflu fyrir framan sig. Þá sæi hann hvernig uppstigningin hefur verið á þessum málum á undanförnum árum. Ég er alls ekki með þessu að segja að þetta sé óskaplegt afrek. Nei, nei, en þetta sýnir þó svart á hvítu að það hefur verið viss framþróun í þessum málaflokki, það hefur verið aukning á fjármagni til húsnæðismálanna, það hefur verið hækkun lána, lenging lána o.s.frv. sem ég þarf ekki að lýsa nánar. En það sem mér finnst athygli vert í sambandi við þessar umræður, sem hér hafa farið fram og eru að fara fram, er hvernig stendur á því að Alþfl. skuli einn stjórnmálaflokka hér á Alþingi leyfa sér að draga í efa að aðilar vinnumarkaðarins, þar á ég ekki aðeins við verkalýðshreyfinguna heldur einnig við atvinnurekendur, hafi rétt til að koma með skynsamlegar tillögur til úrbóta í sambandi við málaflokk eins og húsnæðismálin. Þetta er búið að koma hvað eftir annað fram í ræðum og skrifum forustumanna Alþfl., ekki aðeins formanns heldur einnig varaformanns og einnig nýbakaðra þm. þessa flokks á hv. Alþingi. Það þarf ekki annað en rifja hérna upp. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp úr þingræðu sem var flutt hérna fyrir nokkrum kvöldum. Og hver flutti þessa þingræðu? Það var nýr þm. Alþfl., Stefán Benediktsson, hv. 8. þm. Reykv. Hvað sagði hann? Hvað sagði hann um verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins? Það stendur hérna orðrétt:

„Ég held að það liggi alveg í augum uppi hvernig gallarnir á þessu frv. [þ.e. húsnæðislögunum] eru til komnir. Þeir aðilar sem stóðu að því að semja grundvöll þessa frv. voru þar í hlutverki gæslumanna mjög sértækra hagsmuna. Annars vegar vinnuveitenda og hins vegar launþega. Þeir sjá náttúrlega enga brýna ástæðu til þess að gæta neinna altækra hagsmuna þar sem þeirra umboð er miklu afmarkaðra en umboð þingmanna. Það sem aftur á móti átti ekki að koma fyrir og var í raun og veru alveg ónauðsynlegt var að flytja þessa sértæku hagsmunagæslu inn í frv. til laga um húsnæðismál með þeim hætti sem gert er.“

Ég þarf ekki að lesa meira, hv. alþm. Þetta sýnir í raun og veru hvernig þessi Alþfl. er orðinn, flokkur sem barðist fyrir því á sínum tíma ásamt öðrum að koma á skynsamlegasta kerfi sem upp hefur verið tekið á Íslandi og skilað mestum árangri, þar á ég við verkamannabústaðakerfið. Hann er gjörsamlega fallinn frá þessu fyrra stefnumarki sínu. Hvers vegna, spyrja menn. Hvers vegna? Ja, það er ekki mitt að svara því, en ég vil segja eins og er að það veldur mér og mörgum öðrum vonbrigðum sem höfum álitið að það væri eitt af því besta sem gert var í gegnum tíðina að taka upp verkamannabústaðakerfið og framfylgja því fram á þennan dag. (Gripið fram í.) Það veldur manni vissulega vonbrigðum að þessi sinnaskipti skuli vera svona algjör. (JS: Það er til betri lausn.) Svo kallar hv. varaformaður Alþfl., hv. 2. landsk. þm.: Betri lausn. Ja, þeim tókst það í sveitarstjórnarkosningunum, það má segja það, að blekkja fólk á Íslandi um að þeir hefðu patentlausnir í sambandi við húsnæðismálin þegar þeir prédikuðu um landið og við hinir létum þá komast upp með það án þess að krefja þá um ákveðin svör. Það gerðum við ekki. Þið sögðuð: Ja, öll lausnin í þessum málum er bara að byggja kaupleiguíbúðir. (JBH: Nei, nei.) Kaupleiguíbúðir, það var lausnin. En þeir gleymdu einu: Hver átti að taka að sér að sjá um þessa framkvæmd? Það var ekki nefnt. Það var bara sagt: Ríkið 85% eða 80%, sveitarfélögin 15 eða 20%. (Gripið fram í.) Vitaskuld vissu þessir háu herrar að það voru ekki til í landinu sveitarfélög né aðrir aðilar sem vildu taka að sér þetta hlutverk. Alls ekki. Hvorki að sveitarfélög væru til í að láta 15 eða 20% í þetta kerfi án þess að fá neitt í staðinn eða þyrftu að standa undir því á hvern hátt né að standa undir því að framkvæma þetta fyrirtæki með öllu því sem því fylgir. Við þekkjum það sem höfum verið í sveitarstjórn í nokkra tugi ára að sveitarfélögin hafa viljað stuðla að því að fá ódýrt húsnæði í sinni heimabyggð o.s.frv. og hafa reynt það og fengið til þess lán að byggja leiguíbúðir og söluíbúðir. En það fyrsta sem sveitarstjórnarmenn hafa reynt eftir að búið er að byggja þær er að losa sig við þær og selja vegna þess að þeir vilja ekki standa í því að sjá um rekstur á slíku. Það er þarna sem gatið er hjá Alþfl. Það er dálítið merkilegt núna til þess að vita að eftir að þeir unnu kosningasigur í sveitarstjórnum víða um landið og fengu meirihlutaaðstöðu, annaðhvort einir eða með öðrum, hvað hefur skeð? Það er kominn meiri reynslutími á það, hv. 5. þm. Reykv., en á nýja húsnæðiskerfið sem er aðeins að fara af stað. Það er varla til sveitarfélag á Íslandi undir stjórn Alþýðuflokksmanna í dag sem krefst þess að fá að byggja kaupleiguíbúðir. Og meira að segja eru þeir tregir að láta peninga úr sveitarsjóði eða ábyrgð til að byggja verkamannabústaði, hvað þá heldur annað. Þetta er staðreyndin. Svo ætlar þetta fólk að koma hér og rífa og tæta allt niður og segja: Þarna er lausnin. Þetta er blekking.

Það má segja margt að öðru leyti um ræðu hv. S. þm. Reykv. Ég ætla ekki að eltast við það öllu lengur, en ég verð að endurtaka að það er alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins, sem stóðu fyrir þessari sem sumir kalla byltingu í sambandi við breytingu á húsnæðiskerfinu, gerðu sér fyllilega grein fyrir hvað þeir voru að gera. Þeir gerðu sér fyllilega grein fyrir því. Ég hygg að það sé hægt að segja hér upphátt að auðvitað áttuðu þessir menn sig á því að það þurfti að styrkja lífeyrissjóðakerfið í landinu. Það voru allt of margir aðilar í landi okkar, þrátt fyrir lagafyrirmæli frá 1980 og 1982, sem skutu sér undan því að greiða í lífeyrissjóði. Þeir voru allt of margir. Það var að byrja að brydda á því að það kæmi þessu blessaða fólki í koll að það hafði engan lífeyrisrétt, ekki aðeins til að byggja hús heldur til að fá lífeyri þegar að því kom í sinni elli. Þess vegna var þetta, mundi ég segja, eitt af stóru málunum í sambandi við kjarasamningana á s.l. ári að reyna með einu átaki að lagfæra þetta vandamál og það tókst vissulega. En til þess að það tækist urðu aðilar vinnumarkaðarins að gera það sem þeir gerðu, setja ákveðna kröfu um löggjöf þar sem allir ættu rétt á að sækja um lán ef þeir uppfylltu þau skilyrði að hafa lífeyrisréttindi. Það má sjálfsagt deila um hvort þetta er viðráðanlegt kerfi í okkar litla landi, þar sem allir ríkir og miðlungsríkir og allt þar í kring eiga sama rétt. Það er þá ein bremsa í lögunum sem við skulum ekki gleyma gagnvart þeim sem eru með flottheit. Sá sem byggir yfir 170m2 íbúð fær ekki lán. Það er núna í brtt. sem liggja fyrir Alþingi að þetta verði stækkað í 180m2 og samræmt almennum stöðlum.

Hv. 5. þm. Reykv. var einnig að gera lítið úr þessum lögum og reyna að draga í efa að lán sem eru samkvæmt þessum lögum 40 ára lán væru ekki nema fyrir hátekjufólk. Hann var að draga það í efa. Nú erum við að tala um lán, a.m.k. til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn eða kaupa, sem eru allt að 70%. Og hver er lánsbyrðin miðað við janúar-mars 1987 á þessum hámarkslánum? Lánsbyrði á fyrstu íbúð, sem er 2 millj. 461 þús. lán, á fyrsta og öðru ári er 21 543 kr. Á 3.-40. ári eru það 29 338 kr. Og fyrir þá sem eru með seinni íbúð, fá 1723 þús., er lánsbyrðin á 1. og 2. ári 15 076 og á 3.-40. ári 20 540 kr. Þetta er staðreynd sem verður ekki hrakin. Þetta er nákvæmlega vísindalega út reiknað og sett upp í töflu þannig að hv. 5. þm. Reykv. getur sannfært sig um sannleiksgildi þessa ef hann dregur það í efa. Hér er það svart á hvítu og það eru engar upplýsingar komnar um það í dag að láglaunafólki, sem kemur og sækir um lán, sé sjálfkrafa úthýst frá þessu kerfi. Ég ætla að láta hv. þm. vita að þó að hann sé að tala um að það sé komið hálft ár er kerfið fyrst að fara raunverulega af stað núna. Það er búið að gefa út rúmlega 2000 lán núna og það er tiltölulega fáir enn þá sem eru komnir í þá stöðu að það sé hægt að segja að það sé búið algjörlega að synja um lánin. Það er verið að vinna úr þessu. Það er öllum gefinn kostur á að koma aftur í stofnunina og gera grein fyrir sínum málum. Það er alls ekki þannig, eftir þeim upplýsingum sem ég hef þó ég sé ekki tilbúinn að gefa neina skýrslu hér nú, það er ekki eðlilegt, þær eru ekki komnar frá stofnuninni, að það sé ástæða til að segja úr ræðustól að verið sé að níðast þarna á lægra setta fólkinu í þjóðfélaginu. Það er síður en svo. Ég veit meira að segja um það að stóreignamönnum í þjóðfélaginu sem hafa sótt um og ætlað sér að nota þetta kerfi er vísað frá. Vegna hvers? Vegna þess að tekjurnar sem þeir gáfu upp voru svo lágar að þeir náðu ekki því að geta staðið undir svo lágri greiðslubyrði eins og hér er. Það skal ekki standa á félmrh., það ætla ég að láta hv. 5. þm. Reykv. vita, það skal ekki standa á mér meðan ég er í þessu starfi að upplýsa nákvæmlega og flokka það niður hvernig synjunin skiptist milli aðila. Það skal verða gert. Það er engin ástæða til að leyna því, enda mun Húsnæðisstofnun ekki leyna neinum upplýsingum í sambandi við þessi mál.

Hv. þm. var að brýna okkur landsbyggðarmennina um það að það hefði veri lítið byggt úti um land. Auðvitað erum við móttækilegir fyrir slíka gagnrýni. En við vitum að það hafa á undanförnum árum verið ýmsar ástæður fyrir því. Það hafa verið erfiðleikar í landbúnaði, það hafa verið erfiðleikar í sjávarútvegi einnig þó það sé guði sé lof farið að birta til í þeim málum. Miðað við þær umsóknir sem voru komnar frá áramótum um nýja kerfið voru þó greinileg batamerki þarna því að 46% tæp voru umsóknir frá Reykjavík, tæplega 16% frá Reykjanessvæðinu eða Reykjaneskjördæmi, sem er næststærst og sennilega það svæði sem hefur tekið mestum breytingum, og það voru tæp 39% úti um land. Þetta er mun hærra en hefur verið á undanförnum árum í sambandi við þetta og veruleg aukning. Það er ljóst.

Það væri ástæða til að draga fram á sviðið fleiri aðila sem fjalla um þessi mál. Ég ætla ekki að gera það til að tefja ekki tímann, virðulegi forseti, en ég vil aðeins benda á að sú breyting hefur meira að segja orðið undanfarið að það merkilega blað sem heitir Alþýðublaðið er farið að birta greinar eftir menn sem unnu að því að semja þessi lög, voru aðalþátttakendur í því og hafa tekið mjög virkan þátt í að kynna þessi lög út um landið. Þeir eru farnir að skrifa núna greinar. Þeim ofbýður. Hvað ofbýður þeim? Þeim ofbýður málflutningur forustumanna Alþfl. og þeir skrifa í þeirra eigin blað. Ég gæti vitnað til tveggja greina í Alþýðublaðinu eftir sama aðilann, þann aðila sem hefur unnið skeleggast fyrir hönd Alþýðusambandsins að kynningum og þátttöku í þessum málum. Hann heitir Ásmundur Hilmarsson. Það er fullkomin ástæða til þess að hvetja hv. alþm., sem sjálfsagt nenna ekki oft að lesa Alþýðublaðið, a.m.k. að skoða þessar greinar. Þær eru merkilegar. Þær eru nefnilega nægjanlegt svar við öllu nöldrinu í hv. formanni og varaformanni Alþfl. Það þarf í rauninni ekki að svara þeim öðruvísi en að biðja þá um að lesa í eigin blaði þar sem verið er að reka ofan í kokið á þeim.

Þá vil ég aðeins nefna einn þátt sem hér hefur borið á góma og það er í sambandi við ráðgjafarstöðina í Húsnæðisstofnun. Ég vil vekja athygli á því og hef gert það hér áður og ég mun sennilega síðar í kvöld, ef nóttin leyfir, flytja skýrslu ráðgjafarstöðvarinnar. Ég vil aðeins koma því að, vegna þeirra ummæla sem hér hafa komið fram, að þessi ráðgjafarstöð er með betri skipulagningu í starfi Húsnæðisstofnunar sem gerð hefur verið. Hún er búin að fjalla um aðstoðarlán líklega yfir 6000 aðila í þjóðfélaginu frá því að hún tók til starfa. Þau viðbótarlán sem veitt hafa verið í gegnum þessa aðstöðu eru á núvirði að nálgast 2 milljarða. Svo segja þessir menn að ekkert hafi verið gert. Það hafi ekkert verið gert fyrir þetta fólk. Ég bendi á að þó að peningarnir kæmu ekki frá lífeyrissjóðunum á s.l. ári svo fljótt sem gert var ráð fyrir greiddi stofnunin út 574 millj. í aðstoðarlán og var búin að greiða það fyrir 1. sept. Og ég get glatt menn með því úr þessum ræðustóli að í morgun vorum við að ganga frá því að 100 millj. koma núna til viðbótar samkvæmt samkomulagi sem við gerðum okkar á milli, hæstv. fjmrh. og ég, þannig að Húsnæðisstofnun geti byrjað að leysa úr brýnum vandamálum sem hafa hlaðist upp síðan í október að starfseminni var hætt vegna fjárveitingarinnar sem þá var búin. Það verður byrjað eftir helgina þannig að það leysir vandamál margra.

Það væri freistandi að tala lengi við hv. 5. þm. Reykv. og gefst sjálfsagt tækifæri til þess síðar, áður en þingi lýkur vonandi, því mig langar oft til að tala við hann þó ég hafi ekki alltaf haft tækifæri til þess, því að hann hefur frekar leikið þann leik að þeytast um landið og leika þar djarfan mann en heldur reynt að komast hjá því að lenda í orðasennu augliti til auglitis. Það held ég að hann hafi gert. Það væri freistandi að spyrja þessa hv. þm., sem reyna að rífa niður fyrir fram þetta kerfi sem aðilar vinnumarkaðarins voru sammála um að þyrfti að hafa sinn reynslutíma a.m.k. í ár, hvernig ætluðu þeir að fjármagna þessi mál? Og ætlast þetta fólk til þess að það sé eðlilegt að hafa eins mikla spennu í byggingum eða á húsnæðismarkaðnum og bara hver vill. Á engin stjórn að vera á því? Á að vera hægt að framleiða fjármagn alveg viðstöðulaust eins og eftirspurnin í toppunum segir til um? Hvernig ætluðu þeir að fara að því?

Hv. 5. þm. Reykv. sagði áðan að það væri dúndrandi halli á ríkissjóði. Hann nefndi 3 milljarða og hann komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði kannske 5-6 milljarðar í lok þessa árs. Hvar ætla þeir að taka fjármagnið til að láta 7-8 milljarða, eins og hv. varaformaður Alþfl. vildi láta fá, í húsnæðiskerfið á þessu ári? Hvar ætlaði hann að fá peningana? Það þýðir ekkert að tala eins og allir séu svo vitlausir í þjóðfélaginu að það sé hægt að segja hvaða vitleysu sem er við þetta fólk. Svo einfalt er málið ekki, herra formaður Alþfl. og hv. 5. þm. Reykv.

Ég er alveg sannfærður um það, og þarf ekki að hafa langt mál um það, að þetta kerfi hefur auðvitað ýmsa ágalla, sem bæði ég og fleiri höfum komið auga á, og ég minni á það hér að í samræmi við það sem kemur fram í þessari skýrslu, sem við erum búin að þrautræða hér, hefur félmrn. unnið að því núna á vetrarmánuðunum í samráði við milliþinganefndina, síðan við húsnæðisnefndina, þá nefnd sem samdi lagafrv., þ.e. fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðarins og ráðuneyti undir forsæti hagstofustjóra, að fara yfir það og reyna að sníða af ýmsa tæknilega galla og raunverulega galla sem væri nauðsynlegt að sníða af. Það frv. liggur nú hér til afgreiðslu og ég hef sagt það hér úr ræðustóli að ég vonast til þess að þm. almennt sameinist um að lögfesta þessar leiðréttingar. Það kemur m.a. til góða fyrir ýmsa hópa námsmanna, ýmsa hópa fólks sem vinnur óreglulega úti á vinnumarkaðnum og eins öryrkja og margt fleira sem er þar til leiðréttingar sem ég vænti að hv. þm. hafi kynnt sér. Ég vænti þess að þetta verði leiðrétt.

Mig langar einnig til að koma inn á það sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um leiguíbúðir. Það var samkomulag um það milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar að láta framkvæma könnun á þörf fyrir leiguíbúðir og vissulega var ástæða til að fylgja því eftir og það var gert. Hins vegar verð ég að segja og sagði þegar ég gaf skýrslu um þessa könnun á s.l. ári að það yrði að gjalda varhuga við þessari könnun vegna þess að hún er hroðvirknislega gerð. Því miður. Þá komu einmitt nýir kratar hingað og þangað um landið sem héldu fram ýmsum tölum úr ýmsum byggðarlögum sem hvorki fortíð eða nútíð getur sýnt fram á að hafi sönnunargildi. Þetta á eftir að sýna sig og þess vegna vil ég taka varlega þessari könnun sem þarna kom fram. Hitt vil ég segja og leggja áherslu á að ég hef alltaf verið fylgjandi því að við þurfum að efla félagslega kerfið. Og það hefur verið reynt að gera það. En það er alveg hægt að segja það hér hreint út: Það hefur ekki náðst samkomulag um stórátök á því sviði þetta kjörtímabil.

Ég vil vekja athygli á því um leið að aðilar vinnumarkaðarins í þeim samningum sem sköpuðu þetta nýja kerfi vildu ekki leggja áherslu á félagslega kerfið. Þeir voru heldur ekki tilbúnir að velja um kerfi. Menn vilja ekki sleppa verkamannabústaðakerfinu fyrir eitthvað sem heitir kaupleiguíbúðir eða búsetaíbúðir eða eitthvað slíkt, þeir vilja ekki skipta. Aðilar vinnumarkaðarins eru ekki tilbúnir til að taka þá afstöðu og ég skil þá vel. Ég tel af minni reynslu að við megum ekki fórna verkamannabústaðakerfinu. Þetta kerfi hefur leyst úr vanda láglaunafólks á Íslandi í áratugi með mjög góðum árangri og ég veit ekki hvar við stæðum ef við hefðum ekki haft þetta kerfi. Hins vegar hef ég haldið því fram og held því fram að við þurfum að setja upp fleiri valkosti. Ég er alveg inni á því en það náttúrlega kemur alltaf að því sama. Vandinn er sá hvernig við eigum að finna fjármagn og stýra því inn í þetta kerfi. Ég tel sjálfsagt að auka byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, ég hef haldið því fram. Ég tel að það sé nauðsynlegt og við erum að vinna að því núna einmitt þrátt fyrir lágar fjárhæðir. Við erum með um 1,2 milljarða í Byggingarsjóði verkamanna á þessu ári, að auka byggingar þjónustuíbúða fyrir aldraða og fyrir fattaða. Þetta er verkefni sem verður að hafa forgang. Það er verið einmitt þessa dagana að reyna að finna flöt á því hvernig við getum staðið sem best að þessu máli. Varðandi kaupleiguíbúðir og búsetuíbúðir: Við þurfum að vanda okkur betur þar og það þýðir ekkert að tala um þetta nema í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Það verður að vera samkomulag um þetta. Aðilar vinnumarkaðarins eru rétti vettvangurinn til þess að vinna að lausn hins félagslega vanda í sambandi við íbúðarhúsnæði. Ég er alveg inni á þeirri línu, hef alltaf verið.

Ég segi það að lokum að það hljóta náttúrlega allir sanngjarnir menn, hvar í flokki sem þeir standa, að verða að viðurkenna að það var nauðsynlegt og það var hárrétt hjá ríkisstjórninni að greiða fyrir lausn kjaramála með því að taka á ríkissjóð byrðar sem fylgdu þessum kjarasamningum sem m.a. orsökuðu hluta af þeim rekstrarhalla sem varð að afgreiða ríkissjóð með á þessu ári. Það var ekki meiri möguleiki til að auka það fjármagn sem fór til húsnæðismálanna en niðurstaðan varð, því verðum við alveg að átta okkur á og þess vegna er fjármagnið fastmótað í sambandi við árið 1987. Við erum með milljarð í Byggingarsjóði ríkisins í samræmi við fjárlög og við erum með 3,3 milljarða frá lífeyrissjóðum og þetta er það fjármagn sem við getum byggt á, plús annað sem ég hef sagt áður, sem kom mér meira að segja á óvart, að fjármálaleg staða Byggingarsjóðs ríkisins í árslok var miklu betri en menn höfðu gert sér grein fyrir því að raunverulega var sjóður á áramótum um 700 millj. Og það er það sem bjargar okkur talsvert til að standa að þessu máli á þessu ári.

Það vita allir hvernig mál standa í sambandi við árið 1988. Við erum með samninga við lífeyrissjóðina fyrir það ár sem gera ráð fyrir að þeir kaupi fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé. Ráðstöfunarfé þeirra eykst sjálfsagt um 50-60%, þannig að sú fjárhæð eykst verulega og ég geri ráð fyrir því að það sé eðlilegur hlutur að það fjármagn sem ríkissjóður lætur, hver sem ný ríkisstjórn kann að vera, verði aldrei lægri en milljarður plús verðlagsforsendur sem gæti þýtt 1300-1400 millj . kr.

Ég ætla ekki að ræða um þetta öllu meira. Ég segi aðeins að það er engin ástæða til þess að vera með panik í sambandi við þessi mál. Þetta kerfi er í vinnslu og ég vísa á þessa mætu menn, bæði framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar og forráðamenn Alþýðusambandsins og vinnuveitenda sem túlka þetta kerfi og það er engin ástæða til að gefa þessu kerfi ekki tíma til að koma úr vinnslunni. Eins og ég sagði áðan, það er aðeins búið að afgreiða rúmlega 2000 lán og það kemur í ljós að það eru hundruð fólks í landinu sem sótt hafa um sem eru ekki einu sinni tilbúin að svara Húsnæðisstofnun hvort og hvernig það ætlar að nota sér þann lánsrétt sem það þannig fær. Við skulum samt einlæglega vona að þetta kerfi komi til með að fá á sig þá mynd sem við erum öll sammála um og ég legg á það höfuðáherslu, og það skulu vera mín síðustu orð, að ég treysti því að a.m.k. stjórnmálaöfl í landinu og foringjar stjórnmálaflokkanna, sem hafa haft tæp tvö ár til að vinna saman að þessum málum, leggist á eitt um að verja þetta kerfi meðan verið er að sýna hvernig það kemur til með að koma út til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.