24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Tarna var skrýtin þula. Ég hef nú alltaf litið á hv. þm. Stefán Benediktsson sem nokkuð greindan og greinargóðan mann. Ég fer að draga þá skoðun mína mjög í efa. Það er upplýst að eftir að þetta kerfi tók við eru tæplega 40% fyrir utan Reykjavík og Reykjanes, þ.e. umsóknum um húsnæðismálalán utan af landsbyggðinni hefur fjölgað. Áður keyptu hin ýmsu verkalýðsfélög vítt og breitt um landið og miklu minni hluti en tæp 40% fór til bygginga þar.

Það má ekki slá um sig hér með sérfræði og fara með alrangar tölur. Það er allt annað þjóðfélagsmein sem þjakar okkur í sambandi við landsbyggðina. Það er þessi flótti til Reykjavíkur sem er þjóðhagslega óhagkvæmur og Reykjavík líka fjandsamlegur vegna þess að það bætir ekki aðstöðu Reykvíkinga að þessi gróskufullu sjávarpláss, sem framleiða ótrúlega mikinn gjaldeyri á hvern mann, missi fólk vegna þess að það flýji til Reykjavíkur. Þetta gerir einhæft atvinnulíf, þetta gera skólar, sennilega nokkuð einhæft félagslíf o.s.frv. En það sem hefur skeð er að umsöknum utan Reykjavíkur og Reykjaness hefur fjölgað við tilkomu nýja kerfisins. Áður var þessi tala miklu lægri. Menn verða aðeins að reyna að halda sig við einföldustu staðreyndir þó arkitektar séu.

Jóhanna Sigurðardóttir, hv. 2. landsk. þm., upplýsti að það væru ýmsir forustumenn verkalýðsfélaga sem væru inni á kaupleiguíbúðum eða öðru félagslegu kerfi. Það er rétt. Hún tilgreindi hv. 2. þm. Norðurl. e., hún tilgreindi hæstv. félmrh. sem hefði greitt atkvæði á móti kaupleiguíbúðum hér í fyrra. Hún hefur þá getað tilgreint mig líka. Það sem var hér til afgreiðslu í fyrra voru lög sem voru í samræmi við þá samninga sem gerðir voru og samkomulag var um við ríkisstjórnina að hún flytti á þeim grundvelli. Ég var aðili að þessum samningum. Ég hefði tekið það óstinnt upp ef einstakir ráðherrar hefðu flutt brtt. eða stutt brtt. sem ekki voru í samkomulaginu og við vorum kannske andstæðir. Nákvæmlega eins tók ég það að ég væri bundinn af þessu samkomulagi og þess vegna greiddi ég atkvæði á móti því og gerði grein fyrir atkvæði mínu, en lýsti því jafnframt yfir að ég væri vel reiðubúinn síðar til að ræða þessi mál. Og málin gengu svona fyrir sig. Hitt skal ég alveg fallast á hjá þm. að athuga minn gang í stjórn Alþýðusambandsins með breytingar á afstöðu til félagslegra íbúða og tek þeirri ábendingu ekki illa.

Ég vil hins vegar benda á að tekjur lífeyrissjóða koma til með að aukast. Það hefur einungis verið lífeyrissjóður af dagvinnu. Á næstu þremur árum verður þetta af allri vinnu í þremur áföngum. Kaup fyrir yfirvinnu verkamanna í Reykjavík er 35-40% af þeirra heildartekjum og meira víða annars staðar. Að því leyti aukast þessar tekjur og lífeyrissjóðir ættu að vera tilbúnir eða færir um að grípa þarna inn í.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði mig hvort ég gæti sætt mig við að mönnum væri neitað um lán sem greiddu í lífeyrissjóði vegna lágra launa á sama tíma og þeir sem ættu stórar eignir og seldu þær fengju 1260 þús. kr. húsnæðislán. Ég spurðist fyrir um þetta ásamt nokkrum félögum mínum úr Alþýðusambandinu og viðstaddir voru allir æðstu menn Húsnæðisstofnunar, hvort það væri tilfellið að þetta dæmi sem hv. 2. landsk. þm. tók - ja, ég man ekki töluna, 90 þús. kr. mánaðartekjur held ég og hefði verið neitað um lán og hvernig á því gæti staðið. Þeir fortöldu mér að það gæti aðeins skeð á þann hátt að viðkomandi skuldaði t.d. 2-4 millj. En aftur á móti spurði ég: En fjölskylda sem hefur 30 þús. kr. á mánuði? Er henni neitað um lán? Þeir sögðu mér að það væri ekki.

Nú skal ég ekki um þetta fullyrða. Ég þykist hafa nokkur tengsl. Ég hef ekki orðið var við þetta. Ég vil ekki fortaka að það sé, en ef það er þarf að gera ráðstafanir til að tryggja að fólk á lágum launum sé ekki útilokað þarna frá. Ég hef ekki aðra fyrir mér í því en eina þrjá eða fjóra af æðstu starfsmönnum Húsnæðisstofnunar sem aftaka að þetta geti átt sér stað nema þá að um einhverjar sérstakar aðstæður sé að ræða, mikla skuldasúpu eða annað þess háttar, þannig að ekki séu nokkrir möguleikar.

Hins vegar er með þessa menn sem eiga stóru eignirnar og selja. Hvernig hefur þetta verið? Þetta hefur verið þannig að þessir menn hafa getað gengið í lífeyrissjóðina og hafa sín veð í lagi og fengið lífeyrissjóðslán og vitanlega held ég að það eigi að ganga í - og held ekkert - að stoppa þetta. Ég hef ekki trú á að þetta sé í stórum stíl, en ef það er á alveg skilyrðislaust að stöðva það. Hins vegar getur gegnt nokkru öðru máli um t.d. fjölskyldu sem er að kaupa íbúð í annað sinn. Hún hefur keypt íbúð, litla tveggja herbergja íbúð, og fjölskyldan er orðin fimm manna. Mér finnst þarna gegna nokkru öðru máli þar sem íbúðin er of lítil og þó að það sé fengið viðbótarlán þar og er af andstæðum orsökum vil ég gera þarna greinarmun á. En því er haldið ákaflega mikið hér á loft að launalágu fólki sé neitað. Mér þykir ákaflega ótrúlegt að ég hefði ekki orðið var við þetta, ég skal ekki fortaka það, ef þetta væri í verulegum mæli.

Hins vegar hef ég orðið var við að ráðgjafarstofnunin hjá húsnæðismálastjórn hefur hjálpað mörgum og ég hef líka orðið var við að það eru nokkrir sem hefðu þurft að fá betri hjálp eða voru fullseinir með þetta. 100 millj. sem félmrh. var að tala um koma sér ábyggilega vel.

En það er ekki nokkur minnsti ágreiningur á milli mín og hv. 5. þm. Reykv. og 2. landsk. þm. um að vitanlega á að stoppa það að menn sem eiga 300 fermetra einbýlishús og jafnvel þó minna sé til þess að kaupa minni íbúð fái lán í Húsnæðisstofnun. Ég held að það ætti að ganga í að breyta því og ætti að vera einfalt mál, enda kom það hér fram.

Menn hafa verið langorðir og ég skal ekki lengja mál mitt. Ég held þó að ég vilji á engan hátt gera lítið úr þeim fjölda sem bíður eftir lánum sé þetta þó að verulegum hluta ekki eins og oft hefur verið ef menn hafa verið að byggja og þeir stöðvast vegna þess að það stendur á húsnæðismálastjórn að lána og lánin bregðast. Ég held að verulegur hluti af þessu fólki sé fólk sem ætlar í byggingar, fólk sem ætlar sér að kaupa eldri íbúðir. Þetta sé ekki að öllu leyti sambærilegt. Sannleikurinn er sá að það getur enginn slegið því algjörlega föstu hvað mikil afföll verða af þessari tölu. Ég held að þau verði töluverð og byggi það m.a. á því að 20-25% af þeim sem eiga að fá lán 1. mars og áttu að vera búnir að skila þar til gerðum plöggum hafa því engu sinnt. Ég vil ekki fullyrða neitt þarna, en ég held að hluti af þessu sé vantrú manna á kerfinu, að það sé vissara að skrifa sig strax, koma sér strax á biðlistann til að eiga réttinn. Ég held að það sé að hluta til orsökin.

Um félagslegu íbúðirnar, hvað sem þær eru kallaðar, og ég get vel fallist á kaup- og lánsíbúðirnar sem hér er verið að minnast á, var ég að tala. Ég held að það hafi verið þungamiðjan í mínu máli að þar yrði að koma meira til móts við fólk. Mér var sagt í morgun að það væru um 1150-1200 millj. sem áætlað væri að verja til þessara félagslegu íbúða, það er sennilega mest af því verkamannabústaðir, á árinu 1987. Þetta er greinilega of lítið og þarf að bæta úr og þarf að auka þetta. Ég hef heyrt ávæning af því að það hafi verið rætt í ríkisstjórn og auka þetta jafnvel um allt að 500 millj. Hvað til er í því vil ég ekkert fullyrða nema ég segi að þetta sé of lítið. Ég held að þessum félagslegu lausnum sé algjörlega vonlaust að komast hjá.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Sjálfsagt eru ýmsir gallar á lögunum og sjálfsagt eiga þau eftir að taka ýmsum breytingum, en stærsti gallinn var sá að það var horfið frá þeirri gömlu stefnu að þriðjungur íbúða væri á félagslegum grundvelli. Ég held að þar þurfi að taka á og ég stend á því sem minni skoðun og ræð því ekkert einn, en mundi beita áhrifum mínum til þess, ef þau einhver eru, að lífeyrissjóðir verðu fé í það. Vissulega er það í samræmi við hugsjónir og markmið verkalýðshreyfingarinnar að tryggja að svo sé.

Ég skal svo ekki fara út í ítarlegan fyrirlestur um lífeyrissjóðsmál eins og hér hefur verið gert, aðeins leiðrétta eitt atriði sem út af fyrir sig skiptir nú ekki miklu máli. Það kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., þegar hann var að segja hvernig farið væri með ungt fólk sem var að ýmsu leyti rétt, að það hefði lægri laun en þeir sem eldri væru. Það er eftir því við hvaða aldurshóp er miðað. Af mínum athugunum og hef ég kannað þetta nokkuð eru menn yfirleitt með langhæstu tekjurnar á bilinu 25-45 ára. Hitt er rétt að þeir sem hefja ungir búskap, um tvítugt og svo, eru yfirleitt með mun lægri laun. En 24-46 ára, svo við höfum þetta ríflegra, eru áberandi hæstu tekjuflokkarnir.

Hitt er svo aftur annað mál, og skal ég svo ljúka máli mínu, að það er athyglisvert að þeir sem peninga eiga byggja ekki leiguíbúðir. Þeir verja fé ekki í það. Eins hitt að byggingarkostnaður hér á landi er ákaflega hár. Það er dálítið furðulegt að t.d. fyrir stríð, þegar allt var unnið á höndum, var byrjað á húsi í apríl og það var flutt inn í það í október. Eftir að þetta er allt orðið vélvætt, steypudælur, steypustöðvar og hvers konar vélar, virðist íbúðaverð hafa hækkað að sama skapi og byggingartími lengst jafnvel þó fé sé fyrir hendi. Það er nær óþekkt mál orðið að byggingartími sé 5-6 mánuðir. Það þykir mjög gott að koma upp húsi á einu ári jafnvel þótt peningar séu fyrir hendi. Mér virðist tæknin á engan hátt hafa komið til húsbyggjenda. Mér virðast þarna vera tæknimilliliðir sem hafi hirt ágóðann af tækninni. Ég verð að segja að mér virðist byggingarkostnaður óeðlilega hár og hæstur er hann í Reykjavík þar sem tæknin er mest.