24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Jón Sveinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Mér finnst samt rétt að ég segi örfá orð bæði vegna þess að ég átti sæti í þeirri nefnd sem hér hefur oft verið vitnað til og Stefán Ingólfsson veitti forstöðu. Ég sat í þeirri nefnd ásamt Stefáni, Friðrik Stefánssyni og Gunnari Helga Hálfdánarsyni. Skiluðum við þeim sex skýrslum sem hafa verið margnefndar í umræðum í dag, bæði hér í þinginu og eins í allmörgum blaðagreinum sem hafa birst nú síðustu daga og vikur.

Sérstök ástæða er til þess að víkja stuttlega að ummælum sem hv. þm. Stefán Benediktsson lét sér um munn fara í sinni ræðu í kvöld. Þau snerta þá leynd sem menn hafa gert hér að umtalsefni og þær skýrslur sem ég nefndi hér á undan. Það hefur reyndar verið leiðrétt hér af ýmsum að engin slík leynd hafi átt sér stað. Bæði hefur ráðherra og reyndar ýmsir aðrir stjórnarþingmenn bent á það og vil ég enn ítreka það. Stefán gat þess sérstaklega að það hefði þurft sérfræðinga til þess að lesa út úr þessum skýrslum og koma þeirri vitneskju sem í þeim kemur fram á réttan hátt til þm, og annarra sem um þær eiga að fjalla. Ég vil benda sérstaklega á í þessu sambandi að í milliþinganefndinni sem slíkri sátu sérfræðingar með þá þekkingu sem nauðsynleg er til þess að lesa úr jafneinföldum skýrslum og hér er um að ræða. Ég a.m.k. get ekki séð að það sé verulegur mismunur á sérfræðiþekkingu þeirra nefndarmanna sem sömdu þessar skýrslur og milliþinganefndarmönnunum sjálfum. Þetta eru í flestum tilvikum einstaklingar með mjög sambærilega eða svipaða menntun og eiga þess vegna mjög auðveldlega að geta lesið úr jafneinföldum gögnum og þessar skýrslur eru.

Ég verð líka að segja það að ef þessar skýrslur hafa ekki komist til skila til alþm. og annarra sem um þær vilja fjalla, þá er það einungis vegna þess að fulltrúar viðkomandi stjórnmálaflokka í milliþinganefndinni hafa ekki komið þeim rétta boðleið. Eins og hér hefur verið margnefnt þá lágu allar þessar skýrslur frammi í milliþinganefndinni, þær voru lagðar þar fram á fyrstu fundum hennar ef ég man rétt. Það er því ekki hægt að segja með neinni sanngirni að þessar skýrslur hafi ekki legið fyrir og að á þeim hafi hvílt einhver sérstök eða ákveðin leynd. Það er alrangt. (JBH: Var efni skýrslnanna rætt í milliþinganefndinni?) Efni skýrslnanna var ekki rætt sérstaklega frekar margra annarra gagna sem þar voru fram lögð. Hygg ég að varla sé hægt að ætlast til þess í slíkri nefnd þar sem lagðar eru fram skýrslur og gögn svo hundruðum blaðsíðna skiptir. Að slík gögn séu rædd efnislega lið fyrir lið eða þá lesin upp, eins og mér hefur fundist á sumum ræðumönnum að ætlunin hafi verið, er fráleitt. Ég tel að það sé ekki hægt að ætlast til þess í slíku starfi heldur að hver og einn taki þessi gögn með sér heim, lesi þau og komi þeim síðan á framfæri við þá aðila sem þeir telja að þau eigi erindi til. A.m.k. gerði ég það og kynnti mínum aðilum, þeim sem ég taldi að á þessum upplýsingum þyrftu að halda. Það er því af og frá að hér hafi verið um nokkra leynd að ræða og í rauninni algjör falskenning að halda slíku fram. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart eftir það samstarf sem ég átti við Stefán Ingólfsson í þeirri nefnd sem ég nefndi hér á undan að hann skuli halda fram slíkum hlutum. Hann heldur því að vísu ekki beinlínis fram í Morgunblaðinu 24. febr. s.l., en lætur þó að því liggja að þessi gögn hafi ekki komið fram á þann hátt sem ætlast hafi verið til. Haldnir voru blaðamannafundir, skýrslurnar komu allar fram í milliþinganefndinni og allir, hvort sem voru fréttamenn eða aðrir, hafa fengið þessar skýrslur í hendurnar þegar þess hefur verið óskað. Hef ég fyrir mitt leyti látið allmarga aðila hafa ljósrit af þeim þegar ég hef verið um það beðinn. Ekki meira um það.

Ég hygg að starfi milliþinganefndarinnar hafi í raun lokið með setningu húsnæðislaganna s.l. vor, vorið 1986. Gerðu allir sem sátu í milliþinganefndinni sér grein fyrir því að störfum nefndarinnar var þá nánast lokið. Það verkefni sem okkur var sett fyrir hendur var í raun ekki til staðar eftir að búið var að samþykkja hin nýju lög. Ég lét þá skoðun í ljós að mér fyndist óeðlilegt að nefndin héldi áfram störfum eftir það. Nefndarmenn vildu samt sem áður ræða málin frekar og líta á félagslega kafla húsnæðislánakerfisins. Lá þó fyrir að hvað mestur ágreiningur var um hann og lá nánast ljóst fyrir að nefndarmenn gátu aldrei orðið sammála um svo sem í ljós kom þegar loksins var gengið frá nefndarálitinu nú fyrir skömmu.

Það hefur verið mikið rætt hér um kaupleiguíbúðir, en við fjölluðum mikið um þær í okkar nefndarstarfi. Magnús H. Magnússon lagði þar fram mjög skýrar till. Alþfl. og hann fylgdi þeim ágætlega úr hlaði og skýrði þær alveg sæmilega út, a.m.k. held ég að ég hafi skilið þær nokkuð vel. Samt sem áður verð ég að segja það fyrir mitt leyti að ég tel að þær séu ekki raunhæfur kostur í þeirri stöðu sem við erum með húsnæðiskerfið í dag.

Í fyrsta lagi hefur verið margbent á það og allir milliþinganefndarmennirnir voru í rauninni sammála um að það væri nauðsynlegt að láta reyna á það húsnæðislánakerfi sem er svo nýtt og allir eru sammála um að einhver reynsla verði að fást á. Allir voru sammála um það að taka einhvern tiltekinn tíma í að fá á það reynslu og skoða síðan málið eftir það. Að því leytinu til var mjög órökrétt að fara að álykta eða samþykkja einhver tiltekin ákvæði um kaupleiguíbúðir. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að ef menn vilja stíga eitthvert slíkt skref þá sé miklu æskilegra að efla leiguíbúðakerfi sveitarfélaga. Ákveðin áform og ákveðnar óskir af hálfu Samtaka íslenskra sveitarfélaga eru uppi um það að auka lánsrétt sveitarfélaga og veita þeim svipuð eða sambærileg kjör og veitt eru úr Byggingarsjóði verkamanna. Slíkar hugmyndir hygg ég að sé miklu æskilegra að skoða en það kaupleigufyrirkomulag sem Alþfl. leggur til.

Einnig vil ég benda á að það eru ýmsir hnökrar á verkamannabústaðakerfinu sem er nauðsynlegt að lagfæra og skoða mjög gaumgæfilega. Þeim þáttum ætti að gefa miklu meiri gaum en gert hefur verið til þessa.

Í þessari umræðu hefur líka mikið verið rætt um þann biðtíma sem skapast hefur í því húsnæðiskerfi sem farið er eftir í dag. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst ekkert óeðlilegt að biðtími eftir lánum sé nokkur. Er alls ekkert óeðlilegt að biðtími sé 12 mánuðir og alveg upp í 20 mánuðir. Það sem skiptir hins vegar meginmáli í þessu sambandi er að þau greiðsluloforð standist sem fólkinu eru veitt og að fólk geti treyst því að þeir greiðsludagar standist sem upp eru gefnir í greiðsluloforðunum svo að unnt sé að miða fjárhagsáætlanir við þessi greiðsluloforð.

Ég þekki dæmi þess að fólk hefur í allnokkrum mæli fengið bréf nú í janúar þar sem tekið er fram að fyrri hluti láns komi til útborgunar í september á þessu ári, en seinni hlutinn í janúar árið 1988. Sumir þessara aðila reiknuðu með því að þeir fengju þessi lán í einu lagi seinni hluta árs 1987 eins og upphaflega var talað um, en nú kemur það í ljós að lánið skiptist í tvennt, kemur ekki til lokaútborgunar fyrr en 1988. Get ég ekki séð eða heyrt að það gæti mikillar óánægju með þetta. Fólk er yfirleitt ánægt með að vera búið að fá sitt lánsloforð í hendurnar. Það er það sem skiptir meginmáli og síðan hitt að þau standist og að fjármagnið verði til þegar gjalddaginn eða greiðsludagurinn kemur. Biðtíminn sem slíkur er í rauninni algjört aukaatriði.

Að lokum, úr því að áliðið er orðið og búið að eyða miklum tíma í þá umræðu sem hér hefur farið fram, vil ég aðeins víkja að þeirri umræðu sem fram hefur farið hér í kvöld um flutning á fjármagni frá landsbyggðinni í gegnum lífeyrissjóðina til Reykjavíkur. Af hálfu Alþýðuflokksmanna hefur mér helst heyrst að þetta væri mjög óæskilegt og einungis til þess að auka þenslu og fjárfestingu, bæði í nýju og notuðu húsnæði í Reykjavík. Þess vegna væri fróðlegt að fá það upplýst af hálfu Alþýðuflokksmanna hvort þeir eru beinlínis þá að leggja til að tekin verði upp einhvers konar kvótaskipting í skiptingu þess fjármagns sem til ráðstöfunar er innan Húsnæðisstofnunar. Er þetta það sem þeir vilja í þessu sambandi, að úthlutun fjármagns úr Húsnæðisstofnun miðist við hvernig fjármagnið skilast inn í stofnunina í gegnum lífeyrissjóðina? Ég get ekki skilið þeirra málflutning á annan hátt en þann að það sé eitthvað slíkt sem þeir óski helst eftir. Væri fróðlegt fyrir okkur sem hér höfum hlýtt á þennan málflutning að fá skýringar á því, hvort sem þeir kjósa að gera það nú eða síðar.