26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. endurtaka það sem ég sagði hér áðan að ég bíð eftir heimild til að leggja fram frv. sem ég hef lagt fram fyrir stjórnarflokkana um þetta ákvæði í sambandi við lögtaksaðgerðir til að herða á innheimtu skyldusparnaðar, sem Alþýðusambandið hefur lagt mjög mikla áherslu á, og ég vænti þess að það verði ráðrúm enn til þess að sýna það litla mál hér sem er ekki fyrirferðarmikið.

Í sambandi við hæstaréttardóminn sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi. Þetta var stórt mál frá fyrri tíð. Það var höfðað prófmál á sínum tíma fyrir bæjarþingi Reykjavíkur 1981, sem var á þá leið að það var ekki nægjanlega hagstætt sem út úr þeim dómi undirréttar kom og þess vegna ákvað félmrn. að láta áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar og fylgdi því eftir þannig að það mál fengi að ganga fram. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í mars 1986 og féll skyldusparandanum í vil þó að hér væri um litlar upphæðir að ræða. Og í framhaldi af þessum dómi, sem var kveðinn upp í mars 1986, ákvað félmrh. í sept. 1986 í samráði við Húsnæðisstofnun að láta fullnægja þessum dómi, sem var lítið prófmál á einum aðila, þannig að öllum skyldusparendum frá upphafi skyldusparnaðar í júní 1957 og til gildistöku 1980 verði reiknuð leiðrétting á verðbótum, ef þeim hafa verið reiknaðar verðbætur sem staðið hafa inni á sérreikningi verðbóta í eitt ár eða lengur innan framangreinds tímabils, þannig að dómur Hæstaréttar orsaki það að allir þessir aðilar fái verðbætur á sinn sparnað þó að þeir hafi ekki höfðað til þess máls. Og núna er þessum útreikningi u.þ.b. að ljúka og verða sendar ávísanir til þessara aðila.

Ég vildi láta þetta koma fram því að mér fannst sem félmrh. sjálfsagt að allir nytu þess úrskurðar sem Hæstiréttur felldi í þessu einstaka prófmáli þó að þetta væri svona afturvirkt eins og þarna er. Þannig fá allir leiðréttingu innan tíðar með heimsendingu á ávísun um þetta.