03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

370. mál, einangrun húsa

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. vil ég láta koma fram eftirfarandi:

Þál. þessi um einangrun húsa var með bréfi, dags. 18. sept. 1981, send Húsnæðisstofnun ríkisins til umsagnar. Svar Húsnæðisstofnunar er dags. 9. febr. 1982. Í svarinu kemur fram að stofnunin telur ekki nægilegt að fram fari könnun á einangrun útveggja einni saman, eins og þál. gerir ráð fyrir, heldur sé nauðsynlegt að könnunin nái einnig til ýmissa annarra húshluta, t.d. húsþaka, lofta, gólfa o.s.frv. Stofnunin mælir jafnframt með því að þessi könnun verði gerð.

Ekki verður séð að ráðuneytið hafi á þessum árum aðhafst frekar í málinu. Eftir að ég kom í ráðuneytið voru þessi mál tekin upp að nýju og með bréfi dags. 9. nóv. 1983, sem svo hljóðar, fól ráðuneytið Húsnæðisstofnun að vinna sérstaklega að þessu máli, með leyfi forseta:

„Í umræðum um hið háa orkuverð til húshitunar hér á landi utan hitaveitusvæða hefur komið fram að hægt væri að draga verulega úr þessum kostnaði við orkusparandi aðgerðir á íbúðarhúsnæði. Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er í 11. gr. lið 7 gert ráð fyrir lánum til orkusparandi breytinga á húsnæði. Tiltölulega lítið hefur verið sótt í þennan lánaflokk.

Að mati ráðuneytisins er mjög aðkallandi að stuðla að breytingum á íbúðarhúsnæði til orkusparnaðar, enda er það tilgangurinn með framangreindu ákvæði laganna. Ráðuneytið óskar eftir því að stjórn Húsnæðisstofnunar feli tæknideild að gangast fyrir úttekt á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum utan hitaveitusvæða í þeim tilgangi að fá yfirlit um ástand húsnæðis. Á grundvelli slíkrar úttektar verði gerðar tillögur eða áætlanir í þeim tilgangi að auðvelda húseigendum að hefja skipulegar framkvæmdir til orkusparandi breytinga á íbúðarhúsnæði þar sem þess er þörf. Nauðsynlegt er að leita samvinnu og samstarfs við iðnrn., samtök sveitarfélaga, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða og Fasteignamat ríkisins, en allir þessir aðilar ráða yfir möguleika til þess að hraða slíkri úttekt og gera hana marktæka.“

Í ársbyrjun 1984 komu ráðherrar félagsmála og iðnaðarmála sér saman um að gangast fyrir sérstöku orkusparnaðarátaki til að minnka og jafna húshitunarkostnað. Var stefnt að því að framkvæma endurbætur á eldra húsnæði sem miðaði að bættri einangrun og orkunýtingu. Sérstök þriggja manna verkefnisstjórn var skipuð til að annast yfirstjórn þessa verkefnis. Auk þess var skipuð nefnd til að vera verkefnisstjórninni til ráðgjafar og til að auðvelda samskipti og samstarf við ýmsar stofnanir og aðila sem hlut áttu að máli. Hér var um að ræða Samband ísl. rafveitna, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Húsnæðisstofnun ríkisins, Orkustofnun, Samband ísl. sveitarfélaga og Samband ísl. rafveitna.

Á vegum verkefnisstjórnar hefur farið fram umfangsmikið og margþætt starf sem m.a. hefur verið unnið í samvinnu við Húsnæðisstofnun ríkisins. Komið var upp sérstöku skoðunarkerfi og skoðunarmenn fengu menntun og þjálfun í skoðun húsa og gerð áætlana um framkvæmdir til orkusparnaðar. Samið var tölvuforrit til notkunar í sambandi við þessar skoðanir og úrvinnslu úr þeim. Tekinn var upp sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðisstofnun þar sem veitt eru lán til orkusparandi aðgerða og lán til endurbóta á húsnæði hafa verið stóraukin. Þess má geta að á s.l. ári voru veitt lán í þessu skyni að upphæð 134 millj. kr. Orkusparnaðarátakið var kynnt með sýningum sem haldnar voru um allt land með skipulegum hætti. Þar voru kynntar sérstaklega allar nýjungar og nýr tækniútbúnaður á sviði einangrunar. Var það gert í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og ýmsa aðra opinbera aðila.

Á síðustu árum hefur orðið mikil framþróun á sviði einangrunar húsa og orkusparnaðar og nú liggja fyrir miklar upplýsingar til að byggja á við áframhaldandi vinnu að þessum málum. Ég vil taka það fram í lokin að þessu verkefni hefur verið mjög vel tekið og vel fylgt eftir og má segja að í öllum landshlutum hafi á þessu árabili orðið stórstígar framkvæmdir á þessu sviði sem hafa nýst vel vegna þess að Húsnæðisstofnun hefur verið með tvo lánaflokka í þessu skyni, þ.e. lánaflokk til orkusparandi breytinga á húsnæði og lánaflokk til endurbóta og endurnýjunar á notuðu íbúðarhúsnæði.

Ég vænti þess að menn geti verið sammála um að réttir aðilar hafa tekið höndum saman um þetta. Þessu hefur verið tekið með opnum örmum í landshlutum og samtök sveitarfélaga hafa átt sinn þátt í því einnig að vinna skipulega að þessum málum.