03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

325. mál, deilur milli fræðsluyfirvalda á Norðurlandi eystra og menntamálaráðuneytisins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu var lögð fram fyrir mánuði síðan. Hún er á þskj. 568, till. til þál. um skipun nefndar til að rannsaka deilur milli fræðsluyfirvalda á Norðurlandi eystra og menntmrn. Tillgr. er þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nefnd þriggja manna sem Hæstiréttur tilnefnir til þess að rannsaka deilur fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra og menntmrn. Nefndin hraði störfum sínum eins og kostur er og skili sem fyrst skýrslu um málið sem ráðherra leggi fyrir yfirstandandi þing.“

Í grg. segir m.a., með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir mikla umfjöllun á Alþingi út af deilu milli fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra og menntmrn. eru engar lyktir á deilunni í sjónmáli. Fram hefur komið að umræður og skoðanaskipti um hana hafa truflað mjög kennslu í skólum umdæmisins og ef til vill víðar.

Menntmrh. boðaði til funda á Akureyri og Húsavík sem ekki leiddu til lausnar svo vitað sé. Fræðsluráð umdæmisins hefur óskað eftir að rannsóknarnefnd verði sett í málið. Ekki er líklegt að nefnd þingmanna fjalli um málið á hlutlausan hátt eða nái samstöðu um álitsgerð eftir þær umræður sem fram hafa farið og þau stóru orð sem fallið hafa í ræðum ráðherra og þingmanna.

Ekki er heldur líklegt að þáltill. um slíka nefndarskipun yrði samþykkt þar sem þingmenn og ráðherra virðast sjá málið í gegnum pólitísk gleraugu og getur því sú leið tæpast orðið til þess að leysa þann harða hnút sem þessi deila er komin í. Hins vegar er það skylda Alþingis að leita leiða til að fá fram lausn á þessu máli svo að allt skólahald geti fram farið með eðlilegum hætti.

Það er ekki hægt að horfa upp á það aðgerðarlaust að nemendur líði fyrir það svo vikum skipti að fræðsluyfirvöld og kennarar á Norðurlandi deili við menntmrn. um stefnu í kennslumálum, rétt og skyldur fræðsluyfirvalda á landsbyggðinni og hvað sé refsivert athæfi og hvað ekki þegar unnið er að því að minnka aðstöðumuninn, t.d. í sér- og stuðningskennslu.

Í þessari till. til þál. er lagt til að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn til að kanna þau efnisatriði sem deilt er um því að ætla má að nefnd, sem skipuð er af slíkum aðilum, kanni aliar hliðar þessa máls af réttsýni og ef fram kemur samdóma niðurstaða í skýrsluformi til Alþingis muni það leiða til lausnar þessari deilu með skjótum hætti. Ef dómsmálaleið verður farin mun langur tími líða þar til að niðurstaða fæst og mun það hafa slæm áhrif á nemendur og allt skólahald á Norðurlandi þar til þessi deila er að fullu leyst. Því er þessi tillaga flutt.“

Eftir að þessi till. var flutt kom viðtal við hæstv. menntmrh. í Dagblaðinu. Þar segir hæstv. ráðh. m.a. um þessa tillögu mína:

„Hann leggur til að skipaður verði rannsóknarréttur yfir menntmrh.“ Og enn segir ráðherra: „Þessi tillaga Stefáns er bara til þess að leggjast flatur fyrir einhverjum ímynduðum kjósendum nú í kosningabaráttunni.“

Ég vil því spyrja - hæstv. ráðh. er hér ekki - en ég vil spyrja hvar í tillögunni segi að það eigi að setja rannsóknarrétt yfir hæstv. menntmrh. Ég man ekki betur en að í umræðunum sem fóru fram um þetta mál í janúarmánuði hafi hæstv. ráðh. sjálfur tekið fram að hann muni vilja láta rannsaka þau atriði sem deilt er um í þessu máli. Er hæstv. ráðh. kannske kominn á aðra skoðun nú? Eða þorir ráðherra ekki og hans samflokksmenn að nefnd, sem ætti að vera hlutlaus í þessum málum, kanni þau efnisatriði sem hér hefur verið deilt um? Ég vil minna á það að sá skólastjóri sem tók við starfi fræðslustjóra til bráðabirgða, skólastjórinn á Stóru-Tjörnum, Sverrir Thorstensen, skrifaði þm. í Norðurl. e. bréf 9. sept. 1986. Bréfið er þannig, með leyfi forseta:

„Hér með sendist ykkur afrit af bréfi til menntmrh. vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á sérkennslu. Við okkar skóla eru þrír nemendur sem samkvæmt greiningu eiga rétt á samtals 20 stundum á viku í sérkennslu. Tveir þessara nemenda hafa hvor um sig verið með 5 stundir s.l. tvö ár en sá þriðji var með 10 stundir síðasta vetur. Það er mat okkar að við fækkun þessara stunda um eina á viku fyrir þá tvo fyrrtöldu og þrjár fyrir þann síðartalda sé gjörsamlega kippt undan þeim fótunum. Það er einlæg von okkar að þið, þm. góðir, kynnið ykkur málið og gerið ykkar besta til þess að koma í veg fyrir þessi áform.“

Og hér segir í bréfi til menntmrh., með leyfi forseta, sem ég vitnaði til hér: „Við undirritaðir kennarar við Stóru-Tjarnaskóla í Suður-Þingeyjarsýslu leyfum okkur að mótmæla eindregið þeim niðurskurði sem menntmrn. hefur beitt varðandi sérkennslu. Við teljum að hér sé vegið að þeim einstaklingum sem erfiðast eiga með nám og þroska og heggur hér sá er hlífa skyldi.

Fullyrða má að fyrir marga þessa nemendur getur sérkennsla og aukahjálp skipt sköpum um það gagn sem þeir yfirleitt hafa af skólagöngu sinni. Nærtækasta úrræðið fyrir þau börn sem hér eru borin út væri vafalaust að flytja með fjölskyldu sinni til höfuðborgarinnar. Þar virðist niðurskurði síður beitt. Spyrja má hvort ráðamenn menntamála hafi þá lausn í huga.

Möguleikar þeirra sveitarfélaga sem standa að okkar skóla til að bera aukinn kostnað við skólahald eru nánast engir. Þegar fer fast að helmingur skatttekna þeirra til skólahaldsins. Þó leyfum við okkur að fullyrða að ekki er um svokallað bruðl að ræða hér, hvorki hvað snertir skólaakstur né annað.“ Undir þetta skrifar Sverrir Thorstensen skólastjóri og að mér sýnist níu kennarar. Þetta bréf er skrifað 9. sept.

Þegar þm. í Norðurl. e. voru á fundum í kjördæminu allir saman í september í haust komu oddvitar margra hreppa til okkar fyrst og fremst til þess að ræða um sérkennsluna, stuðningskennsluna og um skólaaksturinn. Það er ekki eingöngu brottrekstur á fræðslustjóra sem deilur fræðsluyfirvalda og menntmrn. snúast um. Það er fyrst og fremst um skólastefnuna á landsbyggðinni og framkvæmd alla. Ég bað og skoraði á hæstv. ráðh. í umræðunum sem voru um þetta mál í Nd. í janúar s.l. að fara eftir 7. gr. laganna um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og að hann hlutaðist til um að skipuð yrði nefnd til þess að kanna þessi mál, að hann gerði það sjálfur. Þá þyrftum við þm. ekki að standa dag eftir dag, eins og var í janúarmánuði, í umræðum út af þessu máli. Það átti að vera á valdi hæstv. menntmrh. að gera þetta svo að ekki hlytust meiri leiðindi af.

Ég sagði enn fremur: Ef þetta heldur áfram svona verðum við neyddir til þess að koma með þetta mál inn á þingið með einhverjum hætti. Það hefur verið gert í frumvarpsformi. Því var vísað frá. Það hefur verið gert með tveimur þáltill. Þegar mér varð ljóst að hæstv. menntmrh. mundi ekki hafa frumkvæði að því að skipa nefnd sem væri þess umkomin að taka á efnisatriðum þessa máls samdi ég þá þáltill. sem hér er til umr., en þá barst mér bréf, dags. 30. jan. 1987, til þingmanna Norðurlands eystra um rannsóknarnefnd um fræðslustjóradeilu í Norðurl. e. Það var þannig, með leyfi forseta:

„Fræðsluráð Norðurlandsumdæmis eystra hefur í dag, eftir að hafa átt fund með menntmrh., óskað eftir skipun nefndar til þess að rannsaka störf fræðslustjóra, fræðsluskrifstofu og samskipti við menntmrn., þó einkum fjármálaleg samskipti.

Þar sem eðlilegt þykir að gefa ráðherra tóm til þess að svara erindi þessu er þess farið á leit við þm. Norðurl. e. að fresta umbeðnum tillöguflutningi að svo stöddu.“

Undir bréfið skrifar Þráinn Þórisson fyrir hönd fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra.

Tveimur dögum síðar, eða 4. febr. s.l. barst hraðskeyti svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hafið frjálsar hendur um að vinna að framgangi fræðslustjóramálsins á Alþingi.“

Þráinn Þórisson skrifaði undir það f.h. fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra.

Þegar mér barst þetta hraðskeyti í hendur taldi ég að þar væri komið svar frá menntmrn. um nefndarskipunina þar sem því hefði verið neitað að setja nefnd í málið sem líkleg væri til þess að gera úttekt á því á hlutlausan hátt. Og þar af leiddi að ég taldi ekki rétt að fresta því lengur að flytja þessa tillögu. Ég var búinn að sjá till. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín Halldórsdóttir hugðust flytja. Hún var þess efnis að það yrði kosin nefnd eftir 39. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. kosnir sjö þdm. Þessa tillögu átti að flytja í Nd. Ég sá það að slík till. mundi aldrei leysa málið. Eftir þær umræður sem fram hafa farið mundi slík nefnd ekki ná saman og hún væri ekki til þess fallin að leysa þetta mál.

Ég var líka búinn að heyra um frv. sem ég gat um áðan sem hv. þm. Ingvar Gíslason var 1. flm. að. Ég taldi að slík málsmeðferð mundi ekki leiða til lausnar í þessari deilu nema síður væri. Hins vegar taldi ég og tel að allir ættu að geta sameinast um að styðja tillögu sem sett er fram með þeim hætti sem ég geri hér ef þm. á annað borð hafa hug á því að reyna að leysa þetta mál á hlutlausan hátt. Þarna er ekki verið að halla á neinn. Það er eingöngu lagt til að skipuð verði nefnd hlutlausra manna til þess að fara ofan í öll efnisatriði þessa máls, bæði hjá skólayfirvöldum á Norðurlandi eystra og menntmrn. Þetta er það sem fræðsluráð hefur óskað eftir og ég vil ekki trúa því að óreyndu að hæstv. menntmrh. eða menntmrn. sé eitthvað óttaslegið yfir því að þetta mál sé kannað og reynt að finna lausn á því. En við sjáum hver viðbrögðin verða.

Ég neita því algjörlega að hægt sé að segja að þessi tillaga mín sé einhvers konar rannsóknarréttur yfir menntmrh. Hún á að kanna öll efnisatriði þessa máls, hvert einasta, og gefa um það skýrslu sem dreift yrði til alþm. og fjölmiðla.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.