03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

288. mál, lán vegna greiðsluerfiðleika

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa farið fram og skal koma inn á örfá atriði sem hefur verið beint til mín.

Ég vil fyrst segja það vegna síðustu ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er fjarri mér að draga í efa að vandi allt of margra sem hafa ráðist í íbúðabyggingar eða íbúðakaup sé mjög mikill. Einmitt þær aðgerðir sem ég beitti mér fyrir, ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar, hafa sannað nauðsyn þess að skoða þann vanda miklu nánar en annars hefði verið. Þess vegna er engin ástæða til annars en viðurkenna hann og það hefur aldrei hvarflað að mér að gera það ekki. Ég hef heldur aldrei haldið því fram að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til og að hluta til er verið að lýsa hér nálguðust að leysa allan vanda þessa fólks. Það hefur mér aldrei dottið í hug að segja og mundi aldrei gera. Ég veit að hann er mjög mikill, en hins vegar hafa komið í ljós mismunandi áherslur eða lýsingar, eins og er mjög víða í þessari skýrslu, og ég er ekkert að verja það orðalag sem þar kemur fram, að það gæti kannske orkað tvímælis í einstaka tilfellum. En það er alveg ljóst að reynt hefur verið eftir föngum að draga úr þessum vanda. Það er líka ljóst að margt af þeim vanda sem kemur fram í samskiptum við þá 6000-7000 aðila sem hafa leitað til þessarar stofnunar um þessi mál er sjálfskaparvíti. Það er enginn vafi á því þó að það sé fjöldinn allur og meiri hlutinn sem hefur lent í þessum erfiðleikum vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin varð að grípa til. Það er löngu viðurkennt og þarf ekki að deila um það. Svo augljóst er að það hlaut að hitta marga í sambandi við þær aðgerðir og hefur margoft verið lýst í hverju það hefur verið fólgið. Við þurfum ekki að deila um það hér.

Það er einnig svar við því, sem hér hefur komið fram, að allur þessi vandi hefur að sjálfsögðu ekki verið leystur. Það stóð aldrei til og hefur aldrei verið í þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið að það væri hægt að greiða fólki þennan mismun, jafna út þetta misgengi sem hefur verið talað um með því að reiða fé úr ríkissjóði til að greiða fólki beinar upphæðir í sambandi við það. Hins vegar var í þessum hugmyndum hugsað til þess að reyna að létta greiðslubyrðina á fleiri en einn hátt. Það voru sett lög um greiðslujöfnun fasteignalána. Það var að vísu tillaga, m.a. frá milliþinganefnd á sínum tíma og fasteignamatsnefnd, að þessari greiðslujöfnun yrði beitt á öll veðlán hvort sem þau voru í opinberum sjóðum eða bankakerfinu. Það náðist ekki samkomulag um það þannig að þessi greiðslujöfnun var einvörðungu sett á fasteignalán Húsnæðisstofnunar eða húsnæðissjóðanna og tilmælum beint til lífeyrissjóða að gera slíkt hið sama. Þannig voru lögin frágengin og þessi lög eru nú komin til framkvæmda, en því miður ná þau ekki yfir nægilega stóran hóp þeirra sem lentu í þessu misgengi. Fólk var eiginlega hrætt frá því af fjölmiðlum að sækja um þessi lán og því njóta miklu færri en vera þyrfti þeirrar afturvirkni sem var gert ráð fyrir að lán húsnæðissjóðanna gætu veitt í þessu tilfelli. Hins vegar er þessi greiðslujöfnun í gildi um öll lán sem voru tekin eftir gildistökudag laganna, en afturvirknin var ekki nógu mikil vegna þess að fólki var innprentað að það þýddi ekkert að vera að sækja um þetta, þetta væri gagnslaust. Það eru margir sem sjá eftir því í dag að hafa ekki gert það.

Sömuleiðis var ákveðið, og það var eitt atriðið í febrúarsamningunum svokölluðu, að veita sérstakan húsnæðisafslátt til þeirra sem væru að byggja í fyrsta sinn. Það var talað um að þetta yrði í tíu ár og þeir sem byggðu 1985 eða fyrr gætu valið um það í skattkerfinu hvort þeir færu inn á þennan afslátt eða héldu sig við það sem fyrir var. Þetta var látið í hendur hinnar svokölluðu laganefndar sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar settu á fót til að semja lögin sem tóku gildi í fyrra og það var gert ráð fyrir að tillögur frá þessari nefnd kæmu áður en þing kom saman í haust. En því miður virtist það eitthvað vefjast fyrir sérfræðingum okkar að koma þessu máli í höfn. Nefndin er að vísu að störfum enn, þessi laganefnd, undir forsæti hagstofustjóra, en þegar ákvörðun um staðgreiðslukerfi kom upp og breytingar á skattalögum í samræmi við það varð að ráði að taka þetta mál til athugunar í sambandi við þær úrlausnir sem eru að mínu mati ekki frágengnar enn og ekki nægjanlega mikið komið fram um hvernig þetta leysir það sem var gert ráð fyrir í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina undir 7. lið þess samkomulags. Ég stend enn þá í þeirri meiningu, og átti síðast tal við nefndina fyrir þremur dögum, að hún hafi ekki lokið sínu hlutverki og við eigum eftir að sjá það við skattalagabreytingu núna eða í tengslum við þá breytingu sem fram undan er að þetta ákvæði komi fram þannig að það komi að notum fyrir það fólk sem stendur í þessum sporum í sambandi við húsnæði. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ekki sé hlaupið frá þessu atriði öðruvísi en það sé gert skilvirkara og ég mun beita mér fyrir því.

Ég held að hvað sem við segjum í sambandi við þetta mál sé eitt sem stendur upp úr og það er að sú aðgerð að ná verðbólgunni niður á það stig sem hún hefur verið í á undanförnum misserum er besta lausnin fyrir fólk sem er í erfiðleikum með að halda íbúðum eða koma yfir sig húsnæði. Það er alveg ljóst. Það er það allra traustasta sem hægt er að hugsa sér í þessum málum. Ég tel að það sé það sem vegur þyngst í öllum aðgerðum sem verið er að gera og kunna að verða gerðar í sambandi við þessi mál.

Hv. 5. landsk. þm. kom inn á þetta sem ég var að ræða um áðan, hvort vandinn væri allur leystur. Það er gert ráð fyrir því í sambandi við það kerfi sem nú er í gangi, þetta nýja húsnæðiskerfi, sem á að leysa margan vanda með hækkuðum lánum, lengdum lánum o.s.frv. sem gerir greiðslubyrði minni og viðráðanlegri, að þessar skuldbreytingaraðgerðir eða aðgerðir í sambandi við ráðgjafarstofnunina haldi áfram. Það er þegar verið að vinna í þeim málum núna og búið að veita sérstöku fjármagni til að opna fyrir lánveitingar aftur. Það er þegar verið að vinna úr 100 millj, kr. í þessu skyni sem á að leysa úr öllu því sem liggur inni í stofnuninni af slíkum lánsumsóknum. Þess vegna tel ég eðlilegt, og ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér fallist á það, a.m.k, út þetta ár, að viðhalda þeirri úrlausn sem felst í þessari ráðgjafarþjónustu.

Ég held að ég svari fsp. hv. þm. ekki öðruvísi en í sambandi við það sem er óleyst úr því samkomulagi og þeirri ákvörðun að reyna að bæta þennan hlut í sambandi við sérstakan húsnæðisafslátt. Það er enn þá ekki ljóst hvernig það kemur út, það er hluti af þessum úrræðum.

Hvað varðar skýrsluna sjálfa og gagnrýni á hana get ég alveg viðurkennt að skýrslan kemur fram án afskipta frá minni hálfu eða ráðuneytisins frá stofnuninni eða frá þeim aðilum sem bera ábyrgð á henni að því leyti til þó að sjálfsögðu beri félmrh. ábyrgð á skýrslunni sem slíkri. Í því eru kannske ekki nægilega miklar útskýringar á vissum þáttum, ekki síst í sambandi við þau lokaorð sem hér koma fram. Ég geri ráð fyrir því að sá sem samdi skýrsluna hafi, þegar hann er að tala um þá sem stunda eigin atvinnurekstur o.s.frv., átt við að það koma fram í sambandi við svona úrvinnslu ýmsir þættir sem má segja að séu óeðlilegir, t.d. þegar menn koma sem eru í greiðsluerfiðleikum eða sækja um nýtt lán samkvæmt nýja kerfinu en eru með svo litlar tekjur á líðandi stund og á liðnum árum að þeir eru varla matvinnungar. Þar af leiðandi er eðlilegt að það veki athygli manna sem eru að fást við vandasamt atriði eins og að greiða úr greiðsluvanda fólks. Það má segja að það sé ekkert óeðlilegt þó að það komi fram.

Þá er bent á hvað þurfi að gera í sambandi við Húsnæðisstofnunina. Um 3. liðinn held ég að hefði mátt orða öðruvísi. Auðvitað á hann við að þetta fólk verði að fá úrlausn í gegnum félagslega kerfið, þ.e. þetta fólk getur á engan hátt eignast eigið húsnæði og það verður þess vegna að komast í leiguíbúðaaðstöðu. Ég get sagt það hér, þó það komi ekki fram í þessari skýrslu, að það hefur verið leitað til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar í mjög mörgum tilfellum til að leysa vanda slíkra aðila sem hafa verið til meðferðar í stofnuninni. Það hefur sem betur fer tekist í flestum tilfellum. Þetta fólk hefur fengið inni í leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar. Það er það sem skýrsluhöfundurinn á við með þessu þó að megi segja að það þurfi skýringu til að lesa rétt úr því. En það er skýringin á þessum þætti þessa máls.

Ég verð að taka það fram í sambandi við ummæli hv. 7. landsk. þm. um fsp. sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir lagði fram á síðasta þingi, 108. löggjafarþinginu, að þessi fsp. kom á síðustu dögum þingsins og fékk enga efnismeðferð. Ég tók fsp. og sendi hana strax til Húsnæðisstofnunar og Þjóðhagsstofnunar. Ég hef ekki dagsetninguna hjá mér. En því miður verð ég að viðurkenna að það hefur einhvern veginn fallið niður að ganga eftir þessum svörum. Það krefst yfirgripsmikillar vinnu að gefa slíkar upplýsingar. Ég man ekki heldur til þess að hv. fyrirspyrjandi hafi nokkurn tímann á haustþinginu 1986 ýjað að því hvort þessar upplýsingar væru væntanlegar. Ég verð að játa að svo er ekki. Ég hef ekkert látið kalla eftir þessu og hef ekki hugsað út í það á einn eða neinn hátt. Það verður að viðurkennast hér. Ég mun að sjálfsögðu í samráði við fyrirspyrjanda kanna hvernig þetta mál stendur í þessum tveimur stofnunum og gera ráðstafanir til þess að úr því sé unnið. Hins vegar sé ég í hendi mér að þetta er kannske meira verk en svo að þessir aðilar, í þeim önnum sem þeir hafa verið í, geti hraðað þeirri vinnu, en það er sjálfsagt að láta skoða það og ég skal fúslega gera það.

Um annað sem hér hefur komið fram sé ég ekki ástæðu til að fjalla frekar. Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að vanda þess fólks sem var með hálfkaraðar íbúðir og flutti í þær þannig, eins og margir hafa sjálfsagt gert á liðnum tímum. Það var ákveðið í því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu við ríkisstjórnina að hluti af því fjármagni sem var til staðar í sambandi við greiðsluerfiðleikalánin yrði notaður til að lána því fólki sem var í þeirri aðstöðu, hafði ekki getað lokið við byggingarframkvæmdir vegna þess að það var komið í greiðsluþrot, og voru sérstakar umsóknir sem var kallað eftir í sambandi við þá fyrirgreiðslu. Í skýrslunni kemur fram á fyrstu síðu að veitt hafi verið lán vegna nauðsynlegra ólokinna framkvæmda. Þau lán voru á s.l. ári 22,4 millj. Ég veit ekki betur en þeir sem hafi sótt um þessa lánafyrirgreiðslu hafi fengið úrlausn. Alla vega eru þeir ekki í þeim hópi sem fengu synjun þannig að þeir sem hafa sótt um í þessu tilfelli virðast hafa fengið fyrirgreiðslu.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja. Ég sé ekki ástæðu til að taka upp neinar efnahagsumræður um þetta mál. Þess þarf ekki. Það vita allir af hverju var gripið til þessara ráðstafana 1983 og ég þarf ekkert að ræða um það. Það er margsinnis búið að gera það. Það var ein af aðgerðunum til að ná verðbólgunni niður. Ég endurtek að besta lausnin fyrir alla, ekki síst húsbyggjendur eða húskaupendur, er að það auðnist að halda verðbólgudraugnum fjarri öllum þessum viðskiptum.