28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er vissulega auðveldara að fylgjast með straumnum en stikla á móti og það var sá háttur sem hefur verið viðhafður í landbúnaðarmálum þar til nýju búvörulögin voru sett. Fram að þeim tíma bjuggum við við óhefta framleiðslustefnu og þarf engan að undra þótt menn kveinki sér þegar gerðar eru breytingar þar á.

Á s.l. vetri stefndi mjólkurframleiðslan í 128 millj. lítra. Hæstv. fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds átaldi áðan að það væri verið að draga úr útflutningsbótarétti, en jafnvel þó að honum hefði verið öllum beitt til að bæta þá umframframleiðslu sem í stefndi hefði hann ekki nálægt því dugað og hefði þá ekkert verið eftir til annarra þarfa. Þetta er eitt dæmið um í hvaða vanda við vorum komin og líka glöggt dæmi um þann málflutning sem hér hefur verið hafður í frammi.

hv. þm. sem hóf hér máls sagði að enn ætti að viðhafa flatan niðurskurð. Það sem var út af fyrir sig árangur við búvörusamningana á s.l. hausti og var fagnaðarefni var að það var leitast við að halda uppi þeirri búvöruframleiðslu sem gert var ráð fyrir þegar búvörulögin voru samþykkt, þ.e. að færa hana ekki niður frá ca. 11 800 tonnum. Eftir því sem mér skilst er einmitt verið að gefa bændum, sem þess óska af frjálsum og fúsum vilja, tækifæri til þess að færa sig úr sauðfjárræktinni og yfir í aðrar búgreinar, yfir í önnur verkefni í íslenskum landbúnaði. Það eru öll ósköpin sem yfir ganga um þessar mundir.

Herra forseti. Tími minn er liðinn, en ég má kannske minna á að það hafa verið gerðar margháttaðar ráðstafanir einmitt til að auðvelda bændum aðlögun að því að geta búið við þrengri framleiðslukost. Má ég minna á skuldbreytingu sem gerð var í sambandi við Búnaðarbankann og veðdeildina þar sem skuldunum, sem höfðu safnast fyrir í stjórnartíð Alþb., var komið yfir á miklu líðanlegri kjör, áburðarverðið á s.l. ári og raunar margt, margt fleira. En tími minn er þrotinn, herra forseti.