09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3816 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég færi hv. fjh.- og viðskn. þakkir fyrir mikið starf sem hún hefur lagt af mörkum við athugun á frv. á milli umræðna og jafnframt vil ég þakka þær undirtektir sem hér hafa komið fram við þá meginstefnumörkun sem felst í frv. Mér er ljóst að sjónarmið geta verið mismunandi varðandi einstök atriði. Hér hefur komið fram það sjónarmið að of langt sé gengið til einföldunar í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir. Um þessi atriði getur auðvitað verið skoðanaágreiningur, en í heild sýnist mér vera allvíðtæk samstaða um mikilvægi staðgreiðslu á tekjuskatti og í meginatriðum um þær kerfisbreytingar sem lagðar eru til með þessum frumvörpum þó að í sumum atriðum sé uppi ágreiningur.

Ég færi þingdeildarmönnum þakkir fyrir hversu skjótt hv. Ed. hefur farið með þetta mál og hvernig hún hefur greitt fyrir framgangi þess, en eins og fram hefur komið er býsna mikilvægt að það nái fram að ganga fyrir lok þinghalds í vor svo að þær umbætur sem hér er fjallað um geti tekið gildi í byrjun næsta árs.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að ræða einstök atriði sem fram hafa komið. Ýmis þeirra komu strax fram við 1. umr. málsins. Auðvitað er það svo að um skattalög þurfa menn að fjalla með sívakandi huga og ekki síst þegar gerðar eru breytingar. Það liggur ljóst fyrir að eftir að álagning hefur farið fram á þessu ári þarf að huga að skattfjárhæðum í frv. með tilliti til nýjustu upplýsinga eins og gengur. Ég þarf ekki að leggja á það áherslu svo augljóst sem það er, en vil ítreka í lok þessarar umræðu þakkir til hv. nefndar og þingdeildarmanna fyrir skjót og góð vinnubrögð og málefnalegar umræður.