09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 794 um frv. til l. um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda frá 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Nál. er svohljóðandi:

„Þriðji minni hl. leggur til að frv. verði samþykkt en niður falli það 25% svigrúm til óskilgreindrar tekjuaukningar í eigin atvinnurekstri sem augljóslega ívilnar þeim aðilum sem þess njóta umfram aðra launþega.“

Hér er átt við 4. gr. frv. þar sem talað er um reiknað endurgjald manns vegna ársins 1987 og þar sem vikið er að því að þessi fjárhæð fari fram úr reiknuðu endurgjaldi hans fyrir árið 1986 eftir að það hefur verið leiðrétt með hliðsjón af breytingum sem orðið hafa á lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1986 til 1. júlí 1987, að viðbættum 25%.

Þetta er svigrúm sem aðrir aðilar hafa ekki í þessum lögum og ástæðulaust að mínu mati að gefa þetta svigrúm. Því hef ég lagt til í brtt. á þskj . 783 að í 4. gr. falli orðin „að viðbættum 25%" í 3. og 5. mgr. einfaldlega brott.

Í minnisblaði um skattabreytingar, sem við fengum í hendur frá viðmælendum okkar frá Alþýðusambandi Íslands, kom fram eftirfarandi, með leyfi frú forseta:

„Í 4. gr. frv. eru ákvæði sem fela í sér að reiknað endurgjald vegna ársins 1987, sem ekki nær 25% hækkun umfram verðlagsbreytingar, verði í öllum tilvikum skattlaust. Hliðstæð ákvæði eru um laun þeirra sem hafa aðstöðu til að ákveða sér, maka sínum og/eða börnum laun. Afar óheppilegt verður að telja að tiltekið hlutfall skuli hafa verið sett inn í frv. líkt og hér er gert og fráleitt að lögbinda það þar sem líklegt er að hlutfallið verði viðmiðun við framtal 1988 vegna tekna ársins 1987. Sjálfsagt er á hinn bóginn að lögfesta heimild til álagningar á tekjur ársins 1987 hjá þessum aðilum þegar og ef tekjuaukning er umfram eðlileg mörk að mati ríkisskattstjóra.

Varðandi ákvæði 2. mgr. um skattlagningu almennra launatekna ársins 1987 er vandséð að sýnt verði fram á að tekjuhækkun launamanns geti átt rætur að rekja til annarra þátta en aukins vinnuframlags og starfsábyrgðar eða stöðuhækkunar þannig að spurning er í hvaða tilvikum skattlagning almennra launatekna kæmi í reynd til greina.“

Með tilliti til þessara athugasemda, frú forseti, taldi ég eðlilegt að flytja brtt. um brottfall þessa 25% svigrúms. Ég tek undir athugasemdir Alþýðusambandsfulltrúanna við þessi skattlausu 25% því að auðvitað er það alveg hárrétt, sem kemur fram í máli þeirra, að svona svigrúm, eins og ég hef kallað það, verður einfaldlega tilefni til þess að menn millifæra ákveðinn hluta tekna milli ára með tilliti til þess að þær fari ekki fram úr þessum 25% og njóta þar með ákveðinnar ívilnunar skattyfirvalda fram yfir launþega. Ég fæ ekki séð eða heyrt á gerðum eða orðum ráðherrans, sem um þessi mál fjallar, að það hafi verið ætlan hans nema þá hann hafi einfaldlega dulið okkur þeirri ætlan sinni.